26.04.1946
Neðri deild: 124. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (3435)

248. mál, kosningar til Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Ég vil benda á, að þetta mál er komið frá hæstv. dómsmrh., þótt flm. séu fjórir. Væri því eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. athugaði þetta og vísaði því svo til n. En hafi hæstv. stj. öðrum hnöppum að hneppa en að bollaleggja um slík málefni, er eðlilegast að vísa málinu til allshn. En ég vil benda á, að þetta mál er mjög vandasamt. Hugsum okkur sjúkrahús. Hvað er sjúkrahús? Í raun og veru mætti hugsa sér, að það sé hvert heimili héraðslæknis, þar sem sjúklingur liggur. Það, sem ég átti við efnislega, var, að læknar yrðu svo aðkrepptir, að engu tali tekur varðandi sjúklinga, sem þangað séu fluttir til sjúkravistar. Ég átti ekki við það, að menn létu flytja sig á sjúkrahús að nauðsynjalausu. Þetta snýr aðallega að mönnum, sem þurfa að komast á sjúkrahús, en fá ekki pláss. Þeir mundu sækja það fast að komast þangað til að öðlast þar um leið kosningarrétt. Og það er höfuðmunur á því, hvort sjúklingur er tekinn upp og fluttur á kjörstað eða á sjúkrahús til dvalar þar. Málið er ákaflega vandasamt og full nauðsyn á því, að það sé athugað í allshn.