27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (3442)

248. mál, kosningar til Alþingis

Sigfús Sigurhjartarson:

Mér þótti vænt um að heyra það frá n., að hún telji rétt, að allir sjúkir menn megi eiga þess kost að neyta atkvæðisréttar síns. Ég er hér með brtt. á þskj. 989, og er hún líks eðlis. Að því ber að stefna, að allir íslenzkir ríkisborgarar hafi sama rétt til að greiða atkv. Um þetta eru allir sammála.

Þeir segja í nál., að ef að því væri horfið að veita þeim rétt, sem á sjúkrahúsi eru, til þess að kjósa, þá yrði einnig að veita öðrum, sem ekki lægju á sjúkrahúsi, en sökum veikinda gætu ekki sótt kjörstað, heimild til að kjósa. Ég get ekki fallizt á þessa röksemd og ekki heldur á það að taka mína brtt. aftur, og ég er sannfærður um það, að ef n. gæfi sér tíma til að hugsa um þetta mál, kæmist hún að annarri niðurstöðu. Augljósust rök fyrir því eru þau, að hún mælir hér með ákveðinni breyt. á kosningal., en sú breyt. er algerlega sams konar takmörkun og um er að ræða í brtt. minni, og að því skal ég leiða rök. Það eru allir sammála um, að það sé æskilegt, að þeir, sem erlendis dvelja, geti notið síns kosningarréttar, og allir eru líka sammála um, að erfiðleikar séu á að veita þeim þann rétt, og það hafa hv. flm, séð, og þeir takmarka réttinn við það, að hlutaðeigandi kjósandi geti komizt á skrifstofu útlends ræðismanns eða fulltrúa íslenzka ríkisins. Nú er fjöldi manna íslenzkra, sem erlendis dvelja, sem á engan kost þess að komast á slíkar skrifstofur. Ef n. hefði verið sjálfri sér samkvæm, hefði hún átt að segja: Það er rétt og sjálfsagt, að þeir íslenzkir menn fái að kjósa, sem erlendis dvelja, en af því að ekki er hægt að veita þeim öllum þennan rétt, skulu engir þeirra fá hann. En n. tók réttlátari afstöðu gagnvart þeim, sem erlendis dvelja, samkv. því, sem í frv. greinir, en þá afstöðu tók n. ekki gagnvart sjúkum mönnum, heldur hina, að þeir geti ekki kosið, ef þeir koma ekki á kjörstað. Það er hart, að n. skuli vilja hafa svona ósamræmi í þessum hlutum. Það er auðvelt að veita þeim, sem liggja á sjúkrahúsum, rétt til að kjósa þar. Þau hús eru afmörkuð heimili. Sjúklingar á sjúkrahúsum eru hópar manna, sem ekki stendur ólíkt á um og skipshafnir á skipum. Það er ekki ástæða til að ætla, að nokkur misnotkun eigi sér stað á heimild til að kjósa utan kjörstaðar, þó að leyft sé að kjósa á sjúkrahúsum. En ef heimilað er mönnum að kjósa á heimilum sínum, er hætt við misnotkun á því ákvæði. Hér er því lagt til, að gerður sé greinarmunur á sjúkum mönnum um að mega kjósa utan kjörstaðar eftir því, hvort hægt er að ganga tryggilega frá því, að sú heimild verði ekki misnotuð. Ég held fast við mína brtt. og vildi vænta þess, að hv. þdm. sæju sér fært að verða við þeim mjög svo sanngjörnu kröfum, að þessi stóri hópur manna, sem dvelja á sjúkrahúsum, fái að neyta kosningarréttar síns. Og þróunin fer meira og meira í þá átt, að þeir, sem sjúkir eru svo að nokkru nemi, dvelja á sjúkrahúsum, þó að margir séu enn, sem verða að vera á heimilum sínum, sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómum.