27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (3448)

248. mál, kosningar til Alþingis

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti: Ég vildi út af þessari brtt. segja það, að ég tel, að með samþykkt hennar yrði ekki nógu tryggilega um það búið, að vilji kjósendanna í öllum tilfellum mundi koma fram. Mér virðist, að læknar sem hafa sjúklinga undir höndum á spítala, mundu hafa alveg sérstaka möguleika til þess að hafa áhrif á vilja sjúklinganna, og e. t. v. meiri em gert er ráð fyrir, að leyfilegt væri eftir kosningal. Grundvallaratriði okkar kosningarréttar er vitanlega það, að allir fái tækifæri til að kjósa, og svo enn fremur það, að atkvæðaseðillinn sýni rétta mynd af vilja kjósandans, og til þess að tryggja það, hefur Alþ. sett ýmiss konar reglur, sem eiga að gera það víst, að kjósandinn sé sjálfráður gerða sinna á kjördegi og atkvæðaseðillinn sýni þann innsta vilja kjósandans. Við heimakosningarnar, sem komu til framkvæmda 1923, var þessi regla um að búa tryggilega um það, að atkvæðaseðillinn sýndi hinn rétta vilja kjósandans, svo þverbrotin, að allir flokkar voru sammála um að ef ekki væri betur um búið mundu kosningar í framtíðinni ekki sýna þann rétta vilja eins og kjósendur vildu láta hann koma fram heldur væru möguleikar til þess, að óeðlileg áhrif væru höfð á vilja kjósendanna, þegar að kjörborði væri komið og þá heima hjá fólkinu. — Ég tel æskilegt, að allir, sem vegna veikinda væru hindraðir frá því að geta sótt kjörstað, en væru andlega heilir, eða hindraðir af öðrum ástæðum, gætu fengið að kjósa. En í framkvæmd hefur það ekki reynzt mögulegt af þeirri ástæðu, sem ég gat um, að það hefur ekki fundizt aðferð til að búa svo vel um hnútana, að tryggt þætti, að kjósandinn í því tilfelli væri algerlega sjálfráður gerða sinna. Löggjafanum hefur þótt rétt að búa svo um hnútana, að það væri tryggt, að hinn eiginlegi vilji kjósendanna kæmi fram á atkvæðaseðlum, þó að það gengi út yfir það, að ekki gætu allir kosið. Utankjörstaðalögin eru svo sett með það fyrir augum, að búið sé jafntryggilega, um það atriði í þeim tilfellum, sem þau heimila atkvgr. utan kjörstaða, eins og gert er á kjörstað. Og ég geri ráð fyrir, að ef gerð væri einhver svipuð breyt. á l. og gerð var í l. frá 1923 um þetta efni, mundi framkvæmdin í þessu efni fara mjög í sama horfið og þá, að það yrði til þess, að næst þegar gerð yrði breyt. á kosningal., yrðu allar utankjörstaðaratkvgr. afnumdar við kosningar, og teldi ég það illa farið. Ástæðan fyrir því, að við, sem stöndum að þessu frv., förum ekki lengra í það að opna þessi lög, er sú, að við töldum ekki tryggilega um búið, ef t. d. ákveðið hefði verið, að hægt væri að kjósa hjá öllum kjörræðismönnum Íslands utanlands. Þá hefðum við talið farið of langt. Við álitum ekki hægt að fara lengra en að gera þeim mönnum, sem dvelja erlendis, mögulegt að kjósa hjá útsendum sendimönnum Íslands erlendis eða ræðismönnum Íslands, svo sem til er tekið í frv.

Ég tel því ekki fært að samþ. þessa brtt. eins og hún liggur fyrir. Ég lýsi yfir, að ég er henni algerlega mótfallinn, af þeim ástæðum, sem ég hef nú greint, og með tilvísun til ummæla hv. frsm. nefndarinnar.