27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (3450)

248. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

Það má auðvitað segja, að mér komi það ekki við, sem hæstv. dómsmrh. segir. En ég vil þó taka eftirfarandi fram, og mun ég þá tala fyrir hönd allshn. Ég er viss um, að það er síður en svo, að n. hafi nokkurn grun eða ástæðu til að gruna, að yfirlæknar eða læknar á spítölum hefðu áhrif á sjúklinga í pólitísku augnamiði. Okkur í n. hefur aðeins komið saman um það, — og þar með er talinn hv. flokksbróðir flm. í n., — að ef á annað borð ætti að veita sjúklingum á spítölum þennan rétt, þá ættu líka sjúklingar utan sjúkrahúsanna að fá hann. Og þessi flokksbróðir hv. flm. hefur aðstöðu til þess að dæma um þetta, vegna þess að hann hefur dvalið á stað, þar sem ekki er spítali í þeim skilningi, sem till. hv. þm. nær til. Og það kemur náttúrlega ekki til greina, að það sé ekki heimilt að veita einum manni, sem öðrum er veitt, vegna þess að hann kemur síðar á spítala. Það er ekki pólitísk hlutdrægni, sem kemur fram hjá læknunum, heldur það, sem liggur fyrir um heilsu mannsins. Ég vil taka það fram, að það er síður en svo, að ég vilji svipta nokkurn kosningarrétti, og ekki heldur að sett yrði löggjöf, sem yrði misnotuð eins og löggjöfin frá 1923. En ef hv. flm. till. fyndi leið, sem fyrirbyggir þessa ókosti, þá skal ég verða meðflm. hans í því máli.