17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (3468)

241. mál, fyrningarafskriftir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. er þannig til orðið, að hæstv. fjmrh. óskaði, að sjútvn. flytti málið, en það er um afskriftir í skattframtölum, og er ég hissa á því, að hæstv. ráðh. lagði þetta ekki fyrir fjhn.

Það kom fljótt fram, að sanngjarnt væri, að þetta gilti einnig varðandi tæki við landbúnað, eins og hv. 7. þm. Reykv. gat um, og mun koma fram við 2. umræðu og mun verða vel tekið. Ég ætla ekki að orðlengja um það, það er enginn vafi á því, að tækifæri er að afskrifa tækin, ef hagnaður verður af þeim.

Ég kvaddi mér hljóðs út af tveim atriðum í málinu, en ég gleymdi þeim í sjútvn. Ég hef gert ráð fyrir afskriftum af nýjum tækjum og ekki er hægt að láta þetta ná til gamalla tækja. En ef gamalt tæki er endurbætt og gert sem nýtt, þá er slæmt að hafa þessa löggjöf og að ekki sé hægt að taka tillit til þess. Ef t. d. bátar væru stækkaðir og bættir, kæmu þeir undir þetta atriði. Mér finnst, að það ætti að setja þetta í frv., og er athugandi að setja ákvæði í þessa átt. Ég endurtek þetta, þar sem ég sé, að hæstv. fjmrh. er kominn. Ég sagði, að mér fyndist eðlilegt að bæta inn í frv. ákvæði um báta, sem stækkaðir væru og gerðir sem nýir, þannig að slík fyrtæki fái sömu afskriftarákvæði og ný framleiðslutæki.

Ég á ekki við að semja brtt. í nótt og mér er ljóst, að þetta er nokkurt vandamál. Ég man ekki ákvæði skattalaganna í þessu skyni, og er víst ekki svigrúm þar. Annað atriði er það, hvar eigi að stöðva sig í svona sérákvæðum.

Annað atriði varðandi þetta, sem ég beini til hæstv. fjmrh., er um flutningaskipin. Menn hafa verið hvattir til þess að festa kaup á flutningaskipum, en þau eru dýr og menn eru mjög hikandi að ráðast í þetta, vegna þess að óhagstætt er að reka slík skip með góðum árangri vegna hins háa kaups sjómanna, en fraktir eru háar, og er því eðlilegt að áætla ágóða á slíkum rekstri. Ég vil skjóta því til hæstv. ríkisstj., hvort ekki mætti taka hér inn þessi skip einnig. Mér finnst þetta hliðstætt því, sem áður er komið. Ég sé ekki annað í fljótu bragði og sé ekki, að þetta mál færi úr böndum, þótt þessu væri kippt hér inn.