17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (3471)

241. mál, fyrningarafskriftir

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Það er misskilningur hjá hv. 2. þm. N.-M., að það gerði málið einfaldara í framkvæmd, ef fyrningunni yrði skipt niður. Ég skil ekki, hvernig hægt er að koma þessu fyrir á einfaldari hátt en ráðgert er í frv., að hafa afskriftirnar í einu lagi. Hann sagði, að þetta gæti valdið ruglingi, ef menn seldu hluti úr þessu og þessu fyrirtæki. En í sannleika sagt held ég, að ekki séu miklar líkur til þess, að þessir hlutir verði seldir frá fyrirtækjunum fyrstu 3 árin, nema ef skip stranda. En jafnvel þó að gert væri ráð fyrir því, þá finnst mér það hljóti að vera einfaldara mál, að sá hlutur, sem seldur er, dragist frá heildarfjárhæðinni, sem reikna á og hefði þar af leiðandi þær einu afleiðingar, að sú fjárhæð, sem fyrningin er miðuð við, lækkaði sem söluverðinu nemur. Ég get ekki betur séð en þetta sé einfaldari aðferð og valdi minni ruglingi.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. spurðist fyrir um í sambandi við 3.–4. gr., vil ég segja það, að mér sýnast þessar gr. vera svo ljósar, að það sé ekki mikið hægt að misskilja. Það er augljóst mál, að gert er ráð fyrir þeim möguleika í 1. mgr. 4. gr., að afskrift fari fram, þó að tekjuafgangur sé ekki fyrir hendi. Afskrift getur valdið tapi á rekstrarreikningi, sem gr. svo heimilar að flytja milli ára og draga frá skatti á tekjum. — Viðvíkjandi sambandi á milli afskriftanna og Stofnlánadeildarinnar sýnist mér einnig ljóst, að þær afskriftir, sem tekjuafgangur er fyrir, eigi að ganga til afborgunar á stofnlánum, þar sem þær hvíla á fyrirtækjum. Það er sett sem skilyrði fyrir afskrift, að sá hluti hennar, sem í tekjuafgang fer, gangi upp í lánið. Það væri óeðlilegt að heimila svona háar afskriftir, sem hlutaðeigendur gætu farið með eins og þeim sýnist, þrátt fyrir það að svo há lán sem Stofnlánadeildin gerir ráð fyrir hvíli á fyrirtækjunum. Hins vegar segir í gr., að þetta sé þó því aðeins skylda, að hlutaðeigendur hafi tekjuafgang, sem afskriftinni nemur. Afskriftarheimildin er tvímælalaus, en skyldan til þess að greiða afborganir af lánum veltur á tekjuafganginum.

Þá er þriðja atriðið, hvernig fara ætti með það, ef sami maður ræki eitthvert af þeim fyrirtækjum, sem afskriftarfyrirkomulagið gerir ráð fyrir, og hefði auk þess annan atvinnurekstur. Ef hann rekur þetta sem eitt fyrirtæki, þá orkar það ekki tvímælis, að eftir frv. er heimilt að nota tekjuafganginn, sem hann hefur af heildarrekstrinum, til afskrifta. Ef hins vegar atvinnurekstrinum er skipt niður í sérstök félög, eins og víðast er þar sem um stóratvinnurekstur er að ræða, þá getur maðurinn ekki notað annað en tekjuafgang þess fyrirtækis, sem um er að ræða, til afskrifta hjá því. Þetta veltur sem sagt á því, hvort reksturinn er sameiginlegur eða ekki.

Hv. þm. endaði mál sitt á því að vekja athygli á því, að þessar afskriftir, sem hér eru ráðgerðar, væru í rauninni ekki eins mikil hækkun frá því, sem nú er eins og flestir virtust halda. Ég skal ekki um það segja, hverja skoðun menn hafa á því, en það er mjög veruleg aukning á afskriftarheimildinni, þó að það sé rétt, að t. d. vélar, sem má afskrifa allt upp í 20%, eru ekki nema lítill, hluti af kostnaðinum. T. d. kostar vél í skip minna en allt annað, sem í skipinu er, og þegar meðaltal er tekið, er um verulega aukningu að, ræða t. d., á skipum, og hið sama gildir um frystihús og önnur tæki, sem hér um ræðir. Ég skal játa, að þessi aukning er nokkuð mismikil eftir því, hver atvinnutækin eru, en eftir því sem málið horfir við, og eftir tilganginum, sem vakir fyrir með þessu frv. þótti ekki fært að skipta niður, heldur taka þetta í einni heild og heimila þennan stutta tíma sömu afskriftir af öllum tækjum, en það er augljóst, að þær verða dálítið misskiptar.