17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (3474)

241. mál, fyrningarafskriftir

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Ef samkomulag næðist í fjhn. um flutningaskipin, þá skal ég ekki hafa á móti því, og verður þetta tekið til athugunar.

Um olíugeymana er það að segja, að þetta getur verið framkvæmanlegt, ef allir útgerðarmenn væru samtaka um að koma upp olíugeymum, en það hlýtur þó alltaf að hlaupa á milljónum, og þarf stöðugt meira, eftir því sem skipunum fjölgar.

Ég er á annarri skoðun en hv. þm. um 1. gr. Ég held, að ekki sé hægt að taka gömul skip, en ef frystihús hefði verið byggt fyrir áramót 1943 og 1944, en ekki verið tekið í notkun fyrr en í febrúar 1944, þá á það að heyra undir þetta ákvæði. En það, sem tekið hefur verið í notkun fyrir áramót 1944, hygg ég, að geti ekki komið til greina. En skip, sem hefur strandað og síðan gert upp, svo að það geti talizt nýtt, gæti komið undir þetta ákvæði. Annars játa ég, að ég er ekki svo vel að mér í því, hvaða reglum hefur verið fylgt í þessu, að ég treysti mér til að ræða það frekar. Er ég talaði um, að erfitt mundi að fóta sig á þessu, þá átti ég við gömul skip. Ástæðan fyrir því, að afskriftirnar eru miðaðar við ný tæki, er sú, að það er ekki rétt að miða við kaup á gömlum skipum. Það er ekki ástæða til að örva menn til að kaupa gömul tæki, því að reynslan sýnir, að þótt nýju tækin séu dýrari, gefa þau betri raun og því hæpið að auka innflutning á gömlum skipum og það þegar við höfum fjármagn til að kaupa ný.