17.04.1946
Neðri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (3482)

241. mál, fyrningarafskriftir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þetta mál var rætt hér í gær, og virtist mér þá koma í ljós, að fleira þyrfti að athuga en þetta atriði. Mér skildist þá, að frv. yrði tekið til frekari athugunar. Nú langar mig til að vita hjá hv. sjútvn., hvort hún hefur rætt þetta mál síðan og komizt að einhverri niðurstöðu, eða hvort hætt er að vænta þess, að hún taki málið til betri athugunar á milli 2. og 3. umr., t. d. hvort ríkisframlagið verður ekki dregið frá kostnaðarverði, ef n. vildi athuga þetta nánar og eins með gömul skip, hvort þau ættu ekki að vera með. Fyrir nokkru var keyptur togari á hafsbotni og honum bjargað og komið í gott horf, en þá var hann orðinn dýr. Má afskrifa hann eftir þessu frv.?

En ef n. ætlar að athuga þetta nánar milli umr., skal ég ekki skipta mér frekar af þessu.