26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (3498)

241. mál, fyrningarafskriftir

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta mun skerða mjög tekjur ríkissjóðs. En það hefur verið gert ráð fyrir því frá fyrstu byrjun að auka mjög afskriftir af þessum nýju skipum. Hins vegar eru í frv. engin ákvæði um það, að skattfrjálst fé í nýbyggingarsjóðum, sem notað yrði til skipakaupanna, skyldi dragast frá, áður en til afskriftanna kæmi, sem ég hefði þó talið eðlilegt.

Einnig taldi ég varhugavert að framlengja þann tíma, sem þessi sérstöku fyrningarafskriftaákvæði gilda fyrir, lengur en þrjú ár, vegna ófyrirsjáanlegrar tekjurýrnunar ríkissjóðs af þeim sökum. Ber ég þó ekki fram brtt. um það efni, og vísa ég til ræðu hæstv. fjmrh. um það atriði. — Hins vegar er ég andvígur brtt. meiri hl., um að láta ákvæði þessi ná til flutningaskipa, bæði vegna þeirra almennu ástæðna, að þar með væri gengið enn meir á tekjustofna ríkisins, og líka með tilliti til þess, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á, að skattfrelsi Eimskipafélags Íslands væri tímabundið og félli niður eftir eitt ár, en það hefði í skjóli skattfrelsisins safnað stórfé á stríðsárunum, sem það hefði varið til skipakaupa og hrykki til þess að greiða kaupverð skipanna að miklu leyti. Og ætti þá ekki að vera þörf á sérstökum afskriftum af slíkum skipum, þar sem þessa skattfrjálsu sjóðsöfnun ætti að sjálfsögðu að afskrifa strax um leið og skipin verða keypt. Annars skal ég ekki taka það efni til umr. nú, skattfrelsi Eimskipafélags Íslands, né spá neinu um það, hvað verður, þegar skattfrelsi þess er á enda samkv. því, sem samþ. hefur verið.