04.04.1946
Neðri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Það eru aðeins örfá atriði, sem ég get ekki komizt hjá að fara um nokkrum orðum.

Þá er það fyrst hjá hv. næstsíðasta ræðumanni viðvíkjandi vaxtakjörum. Áður hefur verið bent á, að í frv. eins og það liggur nú fyrir er ekkert ákvæði, sem segir, að seðlabankinn geti fengið hærri vexti en sagt er fyrir í lögum. Þess vegna má stofnlánadeildin ekki taka hærri vexti en 2½%. Ég hef átt tal við tvo lögfræðinga og einnig stjórn Landsbankans. Þessir aðilar voru allir sammála um, að hvorki stofnlánadeildin né seðlabankinn geti samið um hærri vexti en lög mæla fyrir. Ég held því, að ástæðulaust sé að breyta frv. þess vegna.

Því var haldið fram af sama hv. þm., að fiskveiðasjóður og stofnlánadeildin gætu starfað samtímis. Ég hygg, að þetta sé misskilningur hjá hv. þm. Ég held, að stofnlánadeildin eigi ekki að hafa áhrif á fiskveiðasjóð, heldur skuli hann starfa áfram eins og verið hefur. Gert er ráð fyrir, að stofnlánadeildin megi ekki lána til fyrirtækja, sem stofnuð eru fyrir 1. jan. 1944. — Það er nú svo, að til er mikið af skipum og fyrirtækjum frá því fyrir þann tíma, og þau þurfa fé engu síður. Mótorbátar þurfa að endurnýja vélar og fyrirtæki eitt og annað. Þegar þess er gætt, ætti enginn að efast um, að fiskveiðasjóður hefur ærnu hlutverki að gegna.

Stofnlánadeildin er miðuð við aukningu atvinnutækjanna, þeirra, sem verið er að koma á fót, en fiskveiðasjóður á að vera hinn varanlegi sjóður sjávarútvegsins. Ég býst ekki við, að hv. þm. geri ráð fyrir, að sá öri vöxtur, sem nú er í sjávarútvegsmálum, haldist lengi. Stofnlánadeildin verður því sem bráðabirgðastofnun, en fiskveiðasjóður starfar eftir sem áður.

Út af orðum, sem hér féllu, þar sem staðhæft var, að eitt af aðalhlutverkum seðlabankans væri að lána öðrum lánsstofnunum, vil ég taka þetta fram. Í lögum frá 1928, nr. 10, í 14. gr. segir svo :

„Seðlabankanum er heimilt: 1. Að kaupa og selja víxla, tékka og ávísanir, sem greiðast eiga innanlands.“

Út af þessum fyrsta lið má geta þess, að samkv. honum er seðladeild Landsbankans heimilt að kaupa víxla, tékka og ávísanir, en það er sitt hvað að endurkaupa víxla eða lána öðrum stofnunum fé til að lána út. — Enn fremur segir í þessum lögum :

„2. Að kaupa og selja víxla, tékka og ávísanir, sem greiðast eiga erlendis.

Víxlar þeir, sem greinir í 1. og 2. tölulið, mega ekki vera með lengri gjaldfresti en 6 mánuðum, og má eigi endurnýja þá meira en 6 mánuði samtals.

3. Að kaupa víxla, sem greiðast eiga innanlands, með allt að 12 mánaða gjaldfresti, gegn tryggu handveði eða fasteignarveði.

4. Að kaupa og selja dýra málma.

5. Að veita reikningslán gegn handveði eða fasteignarveði, og séu þau lán uppsegjanleg með 3 mánaða fyrirvara.

6. Að kaupa og selja skuldabréf ríkja, bæjar- og sveitarfélaga og önnur trygg og auðseljanleg verðbréf. Hlutabréf má seðlabankinn ekki kaupa og selja nema í umboði annarra.

7. Að lána út á verzlunarvörur, sem eigi er hætta á, að skemmist á stuttum tíma, og má ekki lána út á þær meira en 2/3 gangverðs og eigi lengur en í 3 mánuði.“

Lengri er nú þessi lagagr. ekki. Sé nú athugað efnisákvæði þessarar greinar, kemur í ljós, að í öllum sjö liðum er gengið út frá, að deildin láti úti fé á þann hátt, að hægt sé að endurheimta það á stuttum tíma, og lengstu víxillánin ekki lengur en til 12 mánaða. Svipuð ákvæði gilda um alla seðlabanka í nágrannalöndum okkar eða a. m. k. þar, sem við þekkjum til. Meðan á styrjöldinni stóð og ríkisstj. stríðsþjóðanna notuðu bankana til að leggja fé til styrjaldarþarfa, þá höfðu þær og héldu þeirri reglu að láta lánin, sem tekin voru; standa stuttan tíma, í orði kveðnu. Hitt heimila svo lögin, að kaupa og selja hlutabréf. — Ég ætla, að unnt mundi vera að láta þau lán, sem hér mundu verða veitt, standa skamman tíma, a. m. k. í orði kveðnu.

Ég er þeirrar vonar, að sjávarútvegurinn verði á næstu árum rekinn með þeim árangri, að þau lán, sem veitt verði honum, muni skila sér áður en langt um líður.

Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að það mundi orka mjög tvímælis að takmarka þau fyrirtæki, sem veita á lán. Það hefur verið endurtekið af 2 þm. og fleirum, að ástæðulítið væri að veita lán til dráttarbrauta, því að gert hefði verið kleift að koma þeim upp með sérstökum framlögum úr ríkissjóði. Þeir vilja, að dráttarbrautir fái því aðeins lán, að þær séu í þágu sjávarútvegsins.

Það væri hreint og beint glapræði að stofna til eins mikillar aukningar á skipaflotanum og verið er að gera, ef þeim flota verður ekki séð fyrir nægilegum dráttarbrautum til viðgerðar og viðhalds. Skip getur komið hlaðið af veiðum og þurft viðgerðar við áður en það fer með aflann til útlanda, og þarf ekki að ræða hvert tjón af slíku getur hlotizt. Þá sé ég ekkert athugavert við þá verkaskiptingu, að einn aðili sjái um útgerðina og annar um viðgerðir, enda get ég ekki séð, hvers vegna á að standa á móti því, að einkafjármagn, sem safnazt hefur fyrir, sé notað til þessa. Hins vegar verður að búa þannig um, að óeðlilegur hagnaður sé ekki tekinn af útgerðinni. Það kom fram nokkur ótti hjá hv. 2. þm. S.-M. við, að svo margir mundu vilja fást við þetta, en ég held, að sá ótti sé ástæðulaus. Þá taldi þessi hv. þm. hættu á því, að útgerðarmenn mundu fyrst notfæra sér lánsmöguleikana og leggja nýbyggingarsjóðina í annað. Það er ekki gott að segja, upp á hverju menn kunna að finna, en þetta yrði nú framkvæmdaatriði og mér þykir heldur ótrúlegt, að slíkar krókaleiðir yrðu færar. Ég legg þess vegna ekki áherzlu á þetta atriði. Enn fremur hirði ég ekki um að svara þeim hnýfilyrðum, sem beint var að Landsþankanum og stjórn hans, enda held ég nú satt að segja, að þær ásakanir standi ekki föstum fótum. Ég held t. d. ekki, að hv. 6. landsk. þm. álíti í raun og veru, að Landsbankastjórnin sé á móti þróun atvinnuveganna. (EOl: Hún er undarleg). Já, ég hef a. m. k. aldrei þekkt svo undarlega menn. Hitt er vitanlegt, að menn greinir á um þær leiðir, sem fara skal, til þess að atvinnuvegirnir beri sig sem bezt.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væru bankastjórarnir, sem mestu réðu, en ekki bankaráðið. Það er að vísu rétt, að þeir hlaupa ekki í bankaráðið, þótt Pétur og Páll komi og biðji um lán, en það er engu að síður bankaráðið, sem markar stefnuna og ræður í höfuðatriðunum, og verði ágreiningur milli bankastjóra og bankaráðs, þá ræður hið síðarnefnda. Þetta ætla ég, að hv. 2. þm. Reykv. skilji enn þá betur eftir að hann sjálfur á ráð á sæti í bankaráðinu.