04.04.1946
Neðri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (3518)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Þessi aths. getur verið örstutt og er aðeins í tilefni af því, sem kom hér fram hjá hæstv. samgmrh. um till. þá, sem ég stend að ásamt hv. 2. þm. S.-M. á þskj. 626, sem er um það, að ekki skuli veitt lán til skipasmíðastöðva, dráttarbrauta og vélsmiðja úr stofnlánasjóði nema að þessum framkvæmdum standi félög útvegsmanna. Ég vil segja það, að þegar það liggur fyrir, að sá stofnlánasjóður, sem hér á að koma á fót, ræður yfir mjög takmörkuðu fé miðað við eftirspurnina, þá kom til þess að raða niður þeim framkvæmdum, sem fyrst og fremst er ætlað að fá fé úr þessum sjóði, og setja aftar í röðina þær framkvæmdir, sem síður þurfa á þessu að halda. Öll sjútvn. er sammála um það t. d. að veita ekki úr sjóðnum til flutningaskipa, og eru þó t. d. kæliskipin, sem flytja framleiðsluna á markað erlendis, sá þáttur í okkar útvegsmálum, sem ekki er hvað veigaminnstur. En þegar menn geta orðið sammála um þetta, þá hélt ég sannast að segja, að það ætti að vera auðvelt að vera sammála um það að kippa hér út úr einnig verksmiðjum og skipasmíðastöðvum, sem eru í einkaeign, og láta þær mæta nokkrum afgangi, þar sem það liggur líka fyrir, að það er til önnur leið fyrir alla, sem vilja að slíkum framkvæmdum vinna, sem kannske bíður upp á betri kjör en þessi sjóður. Það sjónarmið, sem vakir fyrir okkur, er flytjum þessa till., er, að eigi sá sjóður, sem hér er stofnaður, fyrst og fremst að vera fiskveiðasjóður, eins og í upphafi var ætlazt til, þá er fyllsta ástæða til að taka út úr skipasmíðastöðvar, sem eru í einkaeign og ekki eru reknar beint af sjávarútvegsmönnum.

Vegna þess að hæstv. forseti hefur farið fram á að flýta umr., skal ég ekki hafa fleiri orð um þetta. Mun ég því ekki nú eiga hér í orðaskiptum við hv. 2. þm. S.-M., það verður kannske tími til þess síðar.