09.04.1946
Neðri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson) :

Þessi skriflega brtt., sem hv. þm. N.-Ísf. lagði fram, hennar er í sjálfu sér miður þörf. Það er að vísu svo, að það er vitað hvað síldarbræðslur snertir, að hið opinbera hér á landi hefur gert alveg sérstakar ráðstafanir, og á ég þar við byggingu á síldarbræðslum, sem ríkið sjálft á. Og svo er ekki fyrir það að synja, að þessi atvinnugrein eða iðngrein er rekin líka af einstaklingum hér á landi, og getur vel verið, að þeir, sem fastast halda á því, að vegna þess að ríkið hefur sjálft farið út í þessa iðngrein, þá eigi síldarverksmiðjurnar ekki að vera taldar hér upp meðal þeirra fyrirtækja, sem lán fást út á, þeir, sem halda fastast á því, mundu í mörgum tilfellum geta fallizt á, að svo gæti staðið á, að rétt væri í einstaka tilfellum, að svona verksmiðjur nytu þessa stuðnings, sem stofnlánadeildinni er ætlað að veita, og þá er, eins og frv. er nú orðað, veitt heimild til þess, að mínum dómi, að slík undantekning væri gerð, þó að ég vilji undirstrika, að þetta ætti ekki að tilheyra reglunni. Til þess að sanna þetta, nægir að benda á niðurlag 1. málsgr. 3. gr., þar segir: „Og öðrum þeim fyrirtækjum, sem vinna eingöngu eða að langmestu leyti í þágu sjávarútvegsins.“ Ég álít þess vegna, að hv. þm. hafi ekki gert rétt í því að koma fram með þessa brtt. og ætti því að taka hana til baka, því að þetta gæti ekki orðið allsherjar regla. Ef t. d. ríkið sjálft vildi fara að nota þetta fé, þá entist það ekki mikið til þess. Hitt getur svo að borið, að á einstaka stöðum stæði þannig á, að sanngjarnt væri, að einstaklingar eða félög, sem eru að brjótast í því að koma upp svona iðnaði, væru ekki útilokuð frá því að geta fengið fé úr stofnlánadeildinni, ef svo ber undir.

Hv. þm. Borgf. hefur talað fyrir sinni brtt., og má vera, að rétt sé það hjá honum, að ég hefði ekki átt að gera brtt. hans að umræðuefni, fyrr en hann hefði fyrir henni mælt. En útkoman verður svipuð, því að það skilst ákaflega vel, hvað með henni er meint, og voru skýringar hv. þm. engan veginn neitt nýmæli hvað þetta snertir. Hv. þm. má ekki líta á það sem áhugaleysi hjá þeim, sem hafa staðið að þessu frv., þó að ekki hafi verið blandað hafnarmálum inn í stofnlánadeild sjávarútvegsins. Þvert á móti hefur þetta atriði, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, sem sé, að stuðla beri að því, að hafnarskilyrði verði bætt jafnhliða fjölgun skipaflotans, verið mikið rætt. Þetta hefur verið umræðuefni í nýbyggingarráði og hjá öðrum áhugamönnum í þessu máli, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Borgf. hafi einnig oft velt þessu fyrir sér. En að mínum dómi mætti koma þessum nauðsynlegu umbótum á, þó að ekki væri verið að reyna að koma því málefni inn í þetta frv.

Við skulum gæta að því, hvað hér hefur verið talið eiginlega til afsökunar þeirri framsækni í þessum efnum, sem birtist í þessu frv., að taka þetta mikla fé af Landsbankanum og lána það út með svo og svo lágum vöxtum. Mér hefur virzt, að þeir, sem ábyrgð bera hér á meðferð fjármála, hafi talið þessu framferði það til afsökunar eða gildis, að fénu ætti að verja til atvinnutækja, sem væntanlega gæfu fljótt gróða af sér, skiluðu beinlínis afurðum og afrakstri í ríkissjóð og bankann, og borguðu þannig tiltölulega fljótlega þetta fríðindafé, því að við skulum vera sammála um það, að hér er um að ræða fríðindi í lánveitingum bæði hvað upphæðir snertir og vexti. Þetta hefur þá helzt verið talið til afsökunar í þessu máli, þó að mörgum finnist hitt, að í till. felist og sé meiri dirfska en áður hefur verið ráðandi. En þó að viðurkennt sé, að til þess að reka útgerð með góðum árangri, þurfi góð viðlegupláss og hafnir, þá eru hafnarmannvirki ekki þess eðlis, að þau skili afrakstri eða arði beinlínis í hendur lánsstofnana og ríkissjóðs á sama hátt og t. d. togarar, sem gerðir eru út, eða vélbátar. En það breytir samt ekki þeirri staðreynd, að hafnirnar eru nauðsynlegar, enda hefur það oft verið undirstrikað og viðurkennt hér á Alþ. En ég er þess albúinn til þess að sýna hv. þm. Borgf., að það er ekki af tómlæti í hafnarmálum, að ég anda á móti því, að þeim sé blandað inn í þetta frv., — að flytja með honum þáltill. um heimild handa ríkisstj. til að verja þeim 20 millj. kr., sem hann nefndi hér, til stórra átaka í hafnarmálum í næstu framtíð. Vilji hv. þm. fara þá leið, sem nú beinast liggur fyrir í þessum efnum, mun ég fylgja honum að máli í því, og hygg ég, að margir fleiri hér á Alþ. mundu vilja taka höndum saman við hann um þetta.

Þá minntist hv. þm. á lánskjörin og taldi, að einkaframtakið væri sett skör lægra samkv. okkar till. en bæjarrekstur og opinber rekstur. Það má segja, að það sé gert. En þá er þess að gæta, hvernig málið ber að. Ég sagði áðan, og stend við það, að hér væri gengið spori lengra í þá átt að ýta undir það, að menn ráðist í fyrirtæki í framleiðsluátt, þótt dýr séu, heldur en áður hefur verið gert. Þegar maður lítur á þessar staðreyndir, verður ekki hjá því komizt að viðurkenna það, að hér er hið opinbera beinlínis að verki. Hv. þm. hefur eflaust tekið eftir því eins og allir aðrir, að ríkinu er ekki ætlað að standa í ábyrgð fyrir öllum þessum lánum, og þá verður ekki komizt hjá því að meta það nokkuð, hvort hlut að slíkum lántökum eiga einstakir menn eða heill hópur manna, heil byggðarlög, bæjar- eða hreppsfélög. Þetta sjónarmið hlýtur líka að koma til álita, þegar um slíkar lánveitingar eins og þær, sem hér um ræðir, er að ræða, eins og hitt sjónarmiðið, og ég viðurkenni, að hv. þm. hefur þar mikið rétt fyrir sér, er hann segir, að engin trygging sé fyrir því, að fyrirtækin verði rekin á hagsýnni hátt með bæjarábyrgð en í höndum einstaklinga. Ég er honum þar sammála. En það er annað sjónarmið, sem mér finnst að hljóti að vega eins mikið; og það er það, að hér er verið að gera alveg sérstakar ráðstafanir, sem að stendur almannaábyrgð. Hér er verið að styðja að því, að framkvæmdir verði hlutir á þann hátt, að þeir, sem þessara almennu aðgerða eiga að njóta, eigi þeim mun meiri rétt á því sem þessi vilyrði geta orðið fleirum þeirra að gagni. Þetta er sú hugsun, sem hefur vakað á bak við það, sem hv. þm. Borgf. var að útmála, að hér væri verið að hlaða undir ríkisrekstur en halla á einkaframtakið.

Hv. þm. sagði, að þetta væri ekki hyggileg pólitík. Það er nú svo. Hvort um hyggindi er að ræða í þeim efnum, má oft deila um. En ég ætla samt, að það sé ekki óréttlátt, sem hér er farið fram á, að byggðarfélög eða stór félög fái að njóta hér heldur hærri hlutar en ef einstaklingar eiga hlut að máli. Við verðum svo að láta ráðast um hyggindin, reynslan ein getur skorið úr um það. En sem sagt, vilji hv. þm. Borgf. gera hér átak á Alþ. í þetta sinn, átak, sem hann rökstuddi, að þyrfti að gera, og ég tek undir að verði að gera á þessu þingi eða því næsta, sem sé það, að koma fótunum undir meiri, skjótari og stórvirkari framkvæmdir í hafnarbótum en áður hafa verið gerðár á jafnstuttum tíma, skal ekki standa á mér að styðja þær till. hv. þm. í þessu efni, sem miða í rétta átt og ekki ganga út á það að klandra önnur nauðsynjamál, sem fyrir þinginu liggja, — þá þætti mér réttast, að hv. þm. tæki höndum saman við aðra þm. og kæmi á framfæri heimild fyrir ríkisstj. að hefja framkvæmdir í þessum efnum. Það er vitað, að með þeirri fjölgun báta, sem hér verður á næstunni, þá verður ákaflega þröngt á miðunum við Faxaflóa, ef trúa má vitnisburði kunnugra manna. Hér er sem sé verið að víkja að því, að fyrsta sporið til svo kallaðrar landshafnar verði stigið við Faxaflóa, þó að vitað sé, að þar verða þrengslin mest. Eftir er svo að sinna þörf Suðausturlandsins, og hefur Hornafjörður verið nefndur í því sambandi, en eftir er að gera þar nauðsynlegar umbætur á höfninni. Á Snæfellsnesi er það helzt á Rifi, sem þyrfti að gera viðleguumbætur, þyrfti þar að vinna í stærri stíl. Eitthvað svipað þessu geri ég ráð fyrir að muni vaka fyrir flestum þeim, sem hafa hugsað þessi mál, og mþn. í sjávarútvegsmálum, sem sat hér fyrir nokkru og kannske situr enn að forminu til, mun hafa verið talsvert inni á þessum hugsanagangi, þó að enn þá sé ekki komið lengra en það, að landshafnarfrv. fyrir Njarðvík er hér til meðferðar í þinginu.