10.04.1946
Neðri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (3541)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Mig langar aðeins til þess að segja fáein orð út af ræðu hv. frsm. meiri hl. sjútvn., þm. Vestm. Ég get engan veginn gengið inn á það hjá honum, að með brtt. mínum sé verið að klandra þetta mál, eins og hann orðaði það, eða að brtt. séu ekki í eðlilegu efnissambandi við ákvæði frv. Ég þóttist, þegar ég gerði grein fyrir þessari brtt., færa fyrir því gild og góð rök, að undirstaða þess, að við næðum því takmarki um aukningu fiskiskipaflotans, sem nú er stefnt að, væri að óhjákvæmilegt væri að búa þessum flota þá öryggisaðstöðu úti um verstöðvar landsins, sem gæti tryggt það, að við misstum ekki svo og svo mikið af þessum flota út úr höndunum á okkur frá þeim störfum, sem á að nota hann til. Að því leyti hafði ég litið svo á, að ráðstafanir í þessa átt, að flýta fyrir hafnargerðum, ættu að vera í fyrstu röð þeirra tillagna, sem fyrir liggja í því frv., sem nú er verið að ræða um hér, um stofnlánadeild fyrir sjávarútveginn og aðra tækni í hans þjónustu.

Hv. þm. Vestm. talaði um, að menn væntu sér fljótt góðs af þessari nýju stofnun, sem væri líkleg til þess að greiða fljótt það fríðindafé, sem hér sé látið í té. En skilyrðið fyrir því, að við getum vænzt þessa gróða, er það, að við höfum hér upp á að bjóða þau hafnarskilyrði, að við getum notfært okkur þennan skipaflota, en það eru allir sammála um, að okkur skorti mikið á, að þau skilyrði séu fyrir hendi, og þær aðgerðir í þessa átt, sem tengdar eru við afgreiðslu fjárl. á s. l. ári, ná ákaflega skammt til þess að þeim aðgerðum verði komið af stað, sem þurfa að vera fyrir hendi, þegar þessi bátafloti okkar verður tekinn til notkunar hér við strendur landsins. Ég vil þess vegna enn mjög mæla fyrir því og brýna það fyrir hv. dm., að ákvæði því, sem í brtt. mínum felst að þessu leyti, verði gaumur gefinn og það verði samþ., að þetta verði tekið inn í frv.

Hv. frsm. vildi halda því fram viðvíkjandi þriðju brtt. minni hér, að nokkru meira fjárhagsöryggi væri fyrir þá landshöfn, sem hér er verið að efna til, þar sem ábyrgð bæjar- og sveitarfélaga kæmi þar einnig til greina. Ég gerði hér einnig í gær grein fyrir því, hvernig lánsstofnanir landsins hafa að undanförnu litið á slíkar ábyrgðir, þær hafa yfirleitt lagt ákaflega lítið upp úr þeim, og ég er þess fullviss, að ef leitað væri álits lánsstofnana um það út af fyrir sig, hvað mikið þær legðu upp úr slíkum viðbótarábyrgðum, þá mundi það ekki verða þungt á metunum í þeirri álitsgerð, sem frá þeim kæmi um þetta efni. Ég veit, að hæstv. fjmrh., sem verið hefur bankastjóri við aðalbanka landsins, mun vera mér sammála í þessu atriði.

Ég ætla, að það, að bæjar- og sveitarfélögum hefur verið gert hér hærra undir höfði en einstaklingum, eigi að rekja til annarra aðila en hér greinir. Hér togast á tvær stefnur, sú sem vill bæjar- og sveitarfélagsrekstur og telur hann öruggari, og tel ég, að í þessu máli hafi sá aðili borið hærri hlut en hinn, sem lítur svo á, að jafnmikið ef ekki meira öryggi sé í einstaklingsrekstri en opinberum.

Ég býst við, að brtt. mínar verði samþ. Hv. frsm. gaf mér ádrátt um samstarf í þessu máli, sem sé í því að heimila einstaklingum jafna aðstöðu við það opinbera um hafnargerðir, en þá yrðum við að flytja um það sérstakt frv. Og ég svara tilboði hv. frsm. því, að ef svo fer, mót von minni, að brtt. mínar verði felldar, þá mundi ég vilja eiga samræður við hann um að koma okkur niður á leið til þess, að þetta gæti komizt fram á þessu Alþ. Og ef aðrir eru, sem kynnu að hafa áhuga á þessu, þá vildum við, að þeir gerðu sitt til þess, að þetta kæmist fram á þessu Alþ., sem ráðgert er að standi nú ekki miklu lengur.

En ég leyfi mér nú samt að vona, að brtt. mínar verði samþ., en ef svo yrði ekki, þá vona ég, að málið komist fram á einhvern annan hátt, svo að viðunanleg lausn fáist.