18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

16. mál, fjárlög 1946

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég vildi leiðrétta það, sem hv. þm. N.-M. hafði eftir mér, að ég legði ekki á móti því, að lagt væri fram fé til vegagerða, ef vinna og fé fengist, þangað til Alþ. samþ. veitingu. Hv. þm. virðist vilja draga almenna ályktun af því, sem ég sagði um einstakt tilfelli, og fær það vitanlega ekki staðizt. Það er allt annað, hvað gert er til að ljúka við verk, eða hvort hefja á ný verk með þeim hætti. — Þá minntist sami hv. þm. á veitingu til Guðjóns Samúelssonar. Ég vil lýsa því mér á hendur, enda er ég sannfærður um, að hann á þessa viðurkenningu skilið. Það var einungis formgalli, sem orsakaði, að hann fékk ekki einkaleyfi, og á þeim forsendum byggðist dómur Hæstaréttar. En hitt er kunnugt, að húsameistari ríkisins notaði fyrstur þessa aðferð í praxis.

Annars kvaddi ég mér ekki hljóðs til að svara hv. 2. þm. N.-M., heldur var það viðvíkjandi brtt. fjvn. um að þurrka út fjárveitingu til skipaskoðunar. Vil ég í því sambandi vitna til bréfs frá skipaskoðunarstjóra, sem ég hef meðtekið, en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna ákvörðunar meiri hl. fjvn. Alþ. um það, að skoðunargjöld af skipum eigi að bera uppi allan kostnað við skipaeftirlitið, skal ég gera nokkra grein fyrir, hverjar líkur eru til þess. Ef öll skip á landinu væru skoðuð á sama ári, sem aldrei kemur fyrir, þá mundu skoðunargjöldin nema um kr. 24350 í grunngjald. Af þessari upphæð eru líklega um kr. 6000, sem áætla má, að kæmu í ríkissjóð fyrir skoðun, sem framkvæmd væri af launuðum skipaskoðunarmönnum. Annað rennur til ólaunaðra skipaskoðunarmanna.

Þá er það hleðslumerkjaeftirlitið. Það er kr. 15 á skip í grunnlaun, við það bætist verðlagsuppbót, en þetta starf er þannig, að það fer venjulega fram á kvöldin eða á nóttunni og hverfur í þeim tilfellum til þeirra, sem framkvæma það.

Skoðunargjald

af

12

rúmlesta

bát

er

kr.

15

30

30

50

45

100

85

200

160

300

210

400

280

500

350

Sé skipið klassað, er gjaldið helmingi lægra. Gjald fyrir skoðun á togara, sem er 315 rúmlestir, er kr. 110,25. Hleðslueftirlit miðað við 8 utanlandsferðir á kr. 15 er samtals kr. 120. Ef bætt er við verðlagsuppbót og miðað við vísitölu 284 á kr. 110.25 og kr. 120, verður þetta samtals á ári kr. 651.91.

Sé hleðslueftirlitið framkvæmt að kvöldi eða nóttu til, verður það hærra, en þá verður að greiða yfir- eða næturvinnu, ef ekki er um fastan vörð allan sólarhringinn að ræða, t. d. eins og hjá tollurunum, og væri hugsanlegt, að hægt væri að fela þeim hleðslueftirlitið, því að þeir afgreiða skipin til brottferða, og ætti þá allt gjaldið að geta óskert runnið í ríkissj., en um leið og það væri gert, verður að afnema eftirlit með öryggisútbúnaðinum í hverri ferð, og ætti það nú að vera óhætt, þar sem ýmsum öryggisráðstöfunum vegna stríðsins mun verða aflétt, Heildarútkoman mundi því verða með þeim skoðunargjöldum, sem nú eru greidd, þessi:

Fyrir innkomin skoðunargjöld um kr. 6000

Fyrir 200 hleðsluskoðanir á 15 kr. kr. 3000

Samtals kr. 9000

Hér við bætist svo verðlagsuppbótin, sem nú er 284, og reiknað með því yrðu tekjurnar alls 25560 kr. Það er því bersýnilegt, að ef hækka á skipaskoðunargjöldin svo, að tekjur til ríkissjóðs yrðu 118000 kr., þyrfti að hækka þau allt að því fimmfalt. Þess utan mun ég gera kröfu til aukinnar aðstoðar við skipaeftirlitið. Það er, að fá fullkominn skipasmíðameistara, og yrði þá að hækka gjöldin enn þá um þá upphæð, sem laun hans mundu verða. Allt þetta yrði svo gífurleg hækkun, að hvergi í heimi mundu finnast neitt svipuð skipaskoðunargjöld. Ég vona, að hér finnist einhver millivegur, til dæmis sá, að hækka öll skoðunargjöld það mikið, að þau stæðu undir öllum kostnaði við skipaeftirlitið, öðrum, en launum þeirra manna, sem fastlaunaðir eru við skipaeftirlitið.“

Það er kunnugt, að uppi eru kröfur um, að auka þurfi skipaeftirlitið, og hafa komið fram ákveðnar kvartanir þar um. Ég teldi rétt, að samið yrði við tollaeftirlitið um þetta mál, að tollverðir geti sinnt þessu, þegar ekki er um annað að ræða. En ég tel fjarstæðu að draga nokkuð úr þeirri fjárveitingu, sem nú er í fjárl. til þessa.

Ég get svo látið máli mínu lokið að mestu, en þar sem óvíst er, að ég geti mætt á fundi í kvöld, vil ég minnast hér á fáein atriði. — Það er þá fyrst till. um að veita fráfarandi dómprófasti eftirlaun. Það hefur láðst að gera ráðstafanir til þessa, og hef ég leyft mér að taka upp sérstaka till. þess efnis. — Sömuleiðis er hér önnur brtt., sem hv. fjvn. tók ekki upp. Það er till. um landmælingar, sem er flutt eftir till. vegamálastjóra, og er nauðsyn að gera leiðréttingu í þessu, áður en ný kort verða gefin út. Það var óskað eftir, að fjárveitingin yrði hækkuð upp í 150 þús. kr. og þá gert ráð fyrir, að tveir vinnuflokkar yrðu hafðir úti, en nú er þetta lækkað ofan í 75 þús. kr. og þá gert ráð fyrir aðeins einum vinnuflokki. Vænti ég, að hv. alþm. geti fallizt á þessa till. — Þá er og hér lagt til, að 4. og 7. brtt. verði felldar niður. Um fyrri brtt. er það að segja, að mér er kunnugt um, að þetta starf er unnið utan venjulegs vinnutíma, og þyrfti því að fá annan mann til að gegna því. En sá, sem nú hefur þetta starf, hefur gegnt því vel, og finnst mér ekki miklu skipta um þessar 2000 kr. Um skýrslugerð dómkirkjuprests vil ég segja það, að þetta er mikil skýrslugerð og því ekki sanngjarnt, að þessi liður verði felldur niður.

Að síðustu vil ég, viðvíkjandi ummælum mínum við 2. umr. um lán til hafnargerða og skiptingu hafnarbótasjóðs, segja það, að ef ekki fæst önnur lausn á þessu en sú, er kemur fram í till. fjvn., þá tel ég mig eigi bundinn við ummæli mín við 2. umr.