16.11.1945
Sameinað þing: 8. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

Minning Sigurðar Eggerz

forseti (JPálm) :

Í morgun andaðist hér í bænum Sigurður Eggerz, fyrrum alþingismaður og forsætisráðherra, rúmlega sjötugur að aldri.

Sigurður Eggerz fæddist á Borðeyri 28. febrúar 1875, sonur Péturs Eggerz kaupmanns þar og konu hans, Sigríðar Guðmundsdóttur bónda á Kollsá Einarssonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1895 og tók lögfræðipróf við Kaupmannahafnarháskóla 1903. Árið 1905 var hann um hríð settur sýslumaður í Barðastrandarsýslu, en árið eftir varð hann aðstoðarmaður í stjórnarráðinu. 1907 var hann um tíma settur sýslumaður í Rangárvallasýslu. Árið eftir, 1908, var hann settur sýslumaður í Skaftáfellssýslu, og var honum veitt sú sýsla á sama ári. Sumarið 1914 varð hann ráðherra Íslands, en tók lausn frá því embætti í maí árið eftir, og var síðar á sama ári skipaður sýslumaður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, en bæjarfógeti í Reykjavík varð hann 1917, fyrst settur og síðan skipaður. Á sama ári varð hann fjármálaráðherra í ráðuneyti Jóns Magnússonar og gegndi því embætti til 1920. Þá varð hann framkvæmdastjóri í Smjörlíkisgerðinni í Reykjavík og gegndi því starfi til 1922, en þá varð hann forsætis- og dómsmálaráðherra, og hafði þau embætti á hendi í 2 ár, til 1924. Síðan var hann bankastjóri Íslandsbanka til 1930, en á næstu árum, 1930–31 málflutningsmaður í Reykjavík. Sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði var hann frá 1932 til 1934, er hann var skipaður sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri. Því embætti gegndi hann til 1. febr. síðastl., en lét þá af því fyrir aldurs sakir og fluttist til Reykjavíkur.

Sigurður Eggerz átti um langt skeið sæti á Alþingi, var fyrst þingmaður Vestur-Skaftfellinga 1911–1916, landskjörinn þm. 1916–1926 og þm. Dalamanna 1927–1931. Forseti sameinaðs þings var hann 1922.

Af öðrum störfum, sem Sigurður Eggerz hafði á hendi, má nefna, að hann var endurskoðandi Landsbankans 1920–1922, í gengisnefnd um skeið og í alþingishátíðarnefnd 1926–1930. Þess má og geta, að hann hefur samið og gefið út nokkur leikrit, og nokkur ljóðmæli eru til frá hans hendi.

Með Sigurði Eggerz er hniginn í valinn einn hinn vinsælasti og glæsilegasti stjórnmálamaður þjóðarinnar á síðari árum. Sjálfstæði hennar var honum alla tíð hjartfólgnast allra mála, og einlægari baráttumaður á því sviði var ekki til í landinu. Það er og víst og kunnugt, að áhrif hans í sjálfstæðisbaráttunni voru mikil og sterk. Mesta aðdáun meðal almennings hlaut hann 1915, þegar hann lagði ráðherrastöðu sína að veði, er hann fékk ekki framgengt í ríkisráði Dana þeirri kröfu varðandi réttindi Íslands, sem Alþingi hafði gert og hann sjálfur hafði óbifandi sannfæringu fyrir, að væri réttmæt og sjálfsögð. Alla tíð síðan hefur stafað ljóma af nafni Sigurðar Eggerz í hugum þjóðarinnar.

Sigurður Eggerz var glaðlyndur maður, hreinskilinn og hvers manns hugljúfi. Allir, sem með honum störfuðu, innan þings og utan, minnast hans sem góðs drengs og einlægs hugsjónamanns.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að votta minningu þessa þjóðskörungs virðingu sína með því að rísa úr sætum.

[Þingmenn risu úr sætum.]