18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

16. mál, fjárlög 1946

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. Ég vil þakka fjvn. fyrir að hafa tekið í fjárl. 12 þús. kr. til útgáfu á orðabók Guðbrands Vigfússonar. Hitt þykir mér miður, að n. hefur ekki séð sér fært að taka í fjárl. styrk til ekkju Sigurðar heitins Thorlaciusar.

Ég flyt ásamt hv. 1. þm. N.-M. (PHerm) og hv. 1. þm. Reykv. (MJ) till. um að verja 50 þús. kr. til kaupa á listaverki eftir Sigurjón Ólafsson. Enda þótt ég viti, að þm. er Sigurjón Ólafsson kunnur, vil ég segja ofurlítið frá honum. Sigurjón Ólafsson hefur dvalið erlendis síðan 1928, en þá fór hann út, 19 ára að aldri. Námsárin kom hann heim til að vinna, dvaldi eitt ár í Róm, annars í Danmörku og gat sér góðan orðstír. Kennarar hans sáu hæfileikana, sem hann bjó yfir, og strax eftir 3 ára nám fékk hann heiðurspening úr gulli og 1000 kr. styrk. Hann hefur oft fengið verðlaun síðan og meðal annars fyrir minnisvarða um H. C. Andersen. Hann hefur unnið með Frank að skreytingu Kaupmannahafnar. Auk þess hefur hann hlotið ágæta dóma hjá dönskum listdómurum og meðal annars verið sagt, að Íslendingar gætu verið hreyknir af að eiga slíkan listamann, engu síður en Bertel Thorvaldsen. Nú er þessi listamaður kominn heim, og verður að búa um sig í bragga inni í Kleppsholti. Það, sem hér er farið fram á, er að keypt sé af Sigurjóni Ólafssyni listaverk, sem hann nefnir fiskstöflun, og hefur það verk fengið sérstaklega góða dóma. Honum er sérstakt áhugamál, að þetta verk komist til Íslands. Verkið er stórt og kostnaðarsamt að flytja það og koma því vel fyrir. Þetta er lágmynd um 12 fermetrar og ætluð til að steypast í byggingu. Þetta verk var 8 mánaða vinna fyrir listamanninn og efni í myndina kostaði um 2 þús. kr. Þegar þessi mynd var sýnd 1935, fékk hún svo góða dóma, að Sveinn Björnsson, þá sendiherra í Kaupmannahöfn, skrifaði blöðum hér heima og bað þau að tilfæra blaðaummælin og segir síðan: „Þannig rita beztu listdómarar um íslenzka verkamannssoninn.“ Eftir þessa sýningu var gerð tilraun til að fá myndina heim, en þó að listamaðurinn byðist til þess að gefa verkið, var kostnaðurinn það mikill, að það mál strandaði. Þetta verk liggur úti í Kaupmannahöfn og er geymt í mörgum hlutum uppi á lofti hjá kunningja Sigurjóns. Ég hef heyrt á Sigurjóni síðan hann kom heim, að honum er mikið áhugamál, að mynd þessi verði flutt heim og steypt í varanlegt efni. Þess vegna kom ég fram með þessa till. Ég veit, að þessi till. bætir lítið úr skilyrðum þessa listamanns til að geta unnið hér heima. En eins og kunnugt er, eru myndhöggvurum allar bjargir bannaðar hér, ef hið opinbera sér þeim ekki fyrir verkefnum eða greiðir götu þeirra á annan hátt, því að einstaklingar kaupa ekki verk þeirra. Einar Jónsson hefði ekki skapað sín verk, ef ríkið hefði ekki veitt honum fjárstuðning. Aftur á móti er það hróplegt dæmi, hvernig búið hefur verið að Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara. Hann hefur á síðustu árum engin vinnuskilyrði haft og orðið sjálfur að byggja yfir sig og átt við mikla fátækt að búa. Það væri leitt til þess að hugsa, ef eins ætti að búa að Sigurjóni Ólafssyni. Þessi till. tryggir að vísu lítið fjárhag þessa listamanns, en hún er honum þó örvun, eftir að hann er fluttur hingað heim og tekinn til starfa hér. Vænti ég svo, að hæstv. Alþ. taki þessari till. vel og samþ. hana.

Ég er meðflm. að fleiri brtt., en sé ekki ástæðu til að ræða þær, þar sem fyrstu flm. munu mæla fyrir þeim.