01.02.1946
Sameinað þing: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (3589)

Setning þings af nýju

Forseti (JPálm) :

Samkvæmt bréfi því, sem hæstv. forsrh. hefur lesið hér, hefjast nú af nýju fundir 64. löggjafarþings.

Ég vil leyfa mér að bjóða hv. alþm. velkomna til þingstarfa aftur og óska þeim öllum gleði og farsældar á þessu nýbyrjaða ári.

Fundargerðir frá þremur síðustu fundum hafa legið frammi. Og ef enginn hefur neitt við bókun þeirra að athuga, skoðast þær samþ. án atkvgr. og verða undiritaðar.

Á þinginu tekur nú sæti Þórður Benediktsson, 2. landsk. þm., sem veiktist í þingbyrjun á fyrsta þingi kjörtímabilsins, en er nú kominn aftur til heilsu. Kjörbréf hans var samþ. eftir að hann veiktist, en þá átti hann eftir að undirrita drengskaparheit að stjórnarskránni. Mun nú slíkt heit verða lagt fyrir hann til undirskriftar.

[2. landsk. þm. skrifar undir drengskaparheitið.]

Hv. 2. landsk. þm. hefur nú undirritað drengskaparheit sitt og tekur nú hér sæti áfram. Fyrir þessum fundi liggja ekki fleiri verkefni. Næsti fundur verður boðaður með dagskrá. — Fundi er slitið.