18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

16. mál, fjárlög 1946

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 363, sem ég flutti við 2. umr., og skal ég ekki mikið fjölyrða um þær, því að ég talaði fyrir þeim þá. En tvær þessar brtt. eru nýjar. Önnur er um stofnun mjólkurbús á Blönduósi, og ræddi ég hana nokkuð við 2. umr. Eins og ég gat um þá, sendi ég fjvn. beiðni um að taka upp í fjárlfrv. tilskilda upphæð til þeirrar stofnunar. Jafnframt sendi ég hv. n. bréf frá form, búnaðarráðs og nýbyggingarráði, þar sem þessir aðilar styðja þetta mál eindregið. N. hefur daufheyrzt við þessu, — en hefur tekið upp 50 þús. kr. fjárveitingu til þessa, sem mun vera 1/12 hluti stofnkostnaðar, svo að það er gersamlega ófullnægjandi. Ég uni ekki þeirri till., þótt n. hafi þótzt gera vel með því að taka þetta upp. Ég vil leyfa mér að leggja til, að ríkisstj. sé gefin heimild til að borga til þessarar stofnunar 3/4 kostnaðar og ábyrgjast að helmingi lántöku Sláturfélags A.-Húnv. Ábyrgð þessa láns mun vera áhættulaus, vegna þess að þarna er um félag að ræða, sem nær yfir allt héraðið, og væntanlega ekki um áhættu að ræða. Ég flyt þessa beiðni vegna þess, að auðvelda þarf lánsútvegun og einnig fengjust væntanlega lægri vextir en ella. Hv. frsm. sagði í 2. framsöguræðu sinni, að 1/4 kostnaðar væri lögbundinn. Það er rétt, það er lögbundið á svipaðan hátt og ríkissjóði er gert að skyldu að kosta þjóðvegi og brýr og hafnir að 2/5 og ½ leyti og þar fram eftir götunum. En við vitum, hvernig það gengur að fá það mikið eða ríflegra á fjárl. til þeirra hluta. Þar ræður eðlilega fyrst og fremst fjárhagsgetan á hverjum tíma.

Önnur till. er undir XII. lið á þskj: 363. Það eru lántökuheimildir, sem ræddar eru í þessum lið. Lagt er til, að aftan við 22. gr. XVII. bætist: þar af til Skagastrandarhafnar 200 þús. kr. og til Vestmannaeyjahafnar 100 þús. kr. samkv. till. meðflm. míns, hv. þm. Vestm. Það hefur verið upplýst við 2. umr., að fjvn. hefði gert till. í þá átt, að tekin skyldu lán til þess að greiða fyrir hafnarbótum, og hún flytji jafnframt till. í nál. um, hvernig þessu fé skuli skipt. Þetta eru till., sem ég fyrir mitt leyti get ekki sætt mig við og finnst því eðlilegt, að komi undir atkvæði hér á Alþ., hvernig skuli með þetta fé farið. Það eru alveg ný vinnubrögð, að n. hér í þ. taki að sér að skipta fé því, sem verja skal til hafnarbóta, án þess að það sé borið undir samþykki Alþ. Og ég tel, að ríkisstj. sé ekki bundin slíkum till., sem ekki hafa náð samþ. Alþ. Hæstv. samgmrh. lýsti hér yfir í dag, að ef ákveðnar till. yrðu samþ. varðandi skiptingu fjárins, þá teldi hann sig ekki bundinn af till. þeim, sem fram komu í nál. fjvn.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en vil geta þess í sambandi við þetta mál, að samkv. skýrslum frá vitamálaskrifstofunni, sem ég hef fengið, vantar 450 þús. kr., til þess að fullnægt sé ákvæðum um ríkisstyrk til Skagastrandarhafnar, miðað við það, sem búið er að gera og áformað er að vinna á næsta ári. Samkv. fjárlfrv., eins og það er, er ákveðið 200 þús. kr. framlag. Og þar sem ég fer nú fram á 200 þús. til viðbótar, er það vissulega ekki frekt í farið, a. m. k. ekki þegar miðað er við ýmislegt af till., sem fram hafa komið hjá fjvn. og ætlazt er til, að teknar séu til greina án þess að samþykki Alþ. komi til.