18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

16. mál, fjárlög 1946

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég vil byrja að þakka fjvn. fyrir, að hún hefur tekið upp í sínar till. till., sem ég bar fram við 2. umr. um fjárl. um heimild fyrir ríkisstj. að verja fé til fyrirhleðslu vegna landbrots af völdum Hafursár í Mýrdal. Þótt þessi upphæð hafi verið lækkuð nokkuð, úr 60 þús. í 50 þús., sem ég tel ekki líkt því fullnægjandi, þá vil ég hlíta þeim niðurskurði, þar sem n. leggur til, að 50 þús. skuli greiðast í þessu skyni, en það má heita endurnýjun á heimild, sem staðið hefur í fjárl. s. l. ár, en í þeim hefur staðið 45 þús. kr. heimild. Hér er því aðeins um 5000 kr. nýja heimild að ræða samkv. till. n. — Hins vegar harma ég það, að hv. fjvn. skuli ekki hafa talið sér fært að taka upp fleiri till., sem ég flutti við 2. umr. um fjárl., einkanlega þó þær till., sem snerta vegagerð í Vestur-Skaftafellssýslu, en þá flutti ég brtt. við fjárl. um tvo nýja vegi, Landbrotsveg, og skyldi framlag til hans hækka um 20 þús., eða upp í 50 þús., og Mýrdalssandsveg, og skyldi framlag til hans hækka einnig um 20 þús., eða upp í 40 þús. kr. Ég hygg, að fjvn. hefði vel getað staðið sig við að taka upp þessa lítilfjörlegu hækkun, sem ég hef farið fram á, og ég fullyrði, að þótt hún hefði gert það, þá hefði Vestur-Skaftafellssýsla samt orðið mjög útundan, samanborið við mörg héruð landsins, um fé til vegagerða í þessum fjárl. Ég hygg, að það sé hægt að segja, þegar maður lítur á það, að jafnvel enginn þm. hefur farið jafnvægt í sakirnar með að fá leiðréttingu í þessu efni. Ég skýrði frá því við 2. umr. fjárl., hversu ástatt væri með þessa hækkun, og hirði ég ekki um að endurtaka það. Ég vil þó aðeins benda á hækkunina á fyrra lið brtt. á þskj. 362,VI, sem er 30 þús. kr. til vegagerða fyrir tvö hreppsfélög, þar sem svo að segja engir vegir eru fyrir hendi. Það eru tvær sveitir, sem eingöngu eru upp á landflutninga komnar, sem þar eru einna erfiðastir á landinu. Þegar á þetta er litið og jafnframt, hvernig upphæðir eru veittar í mörgum tilfellum til vegagerða í öðrum héruðum landsins, sem hafa þó mun betri aðstöðu bæði á sjó og landi til flutninga, þá held ég, að megi fullyrða, að engin hlutdrægni sé í þeim dómi, þó að sagt sé, að það sé nokkur skammsýni og ekki full réttsýni af hv. fjvn. að geta ekki gengið inn á svo lítilfjörlega hækkun til tveggja sveita, sem enga fjárveitingu hafa fengið til vega tvö undanfarin ár, til sveita, þar sem ekki er til upphleyptur vegarspotti og þar sem ekki er hægt að nota bílasamgöngur nema þegar bezt og þurrast er að sumrinu til og þá aðeins með bílum, sem færir eru á versta vegi. Ég get ekki skilið það á annan veg hjá þeim mönnum, sem leggja gegn því, að lítilfjörleg hækkun verði veitt til samgöngubóta, þar sem farið er fram á 30 þús. kr. hækkun til byrjunarframkvæmda, en þeir álíti, að þessar sveitir eigi að leggja í eyði, og styðst ég þá við það, sem hv. þm. Barð. (GJ), frsm. fjvn., sagði við 2. umr. fjárl., þar sem hann taldi réttilega, að þær sveitir, sem fengju á engan hátt sinnt samgöngubótakröfum sínum, væri sama og að dæma þær til að leggjast í auðn. Og ég þori að fullyrða, að það munu vera fáar sveitir á landinu, þegar litið er til þess, að þar ræðir ekki um aðrar samgöngur en á landi og að það eru mjög miklar vegalengdir, jafnvel þær lengstu hér á landi, — sem búa við eins léleg skilyrði og jafnlítið er gert til að bæta úr af því opinbera. Þessar tvær sveitir, Landbrot fyrst og fremst og jafnframt Meðalland, sem liggur suður af Landbroti, mundu við framlengingu þessa vegar og byggingu hans komast nær því að komast í vegakerfi landsins, sem þær eru nú útilokaðar frá. Við það að leggja þessa upphæð til Landbrotsvegarins er þess að gæta, eins og ég hef áður skýrt frá, að hver spotti, sem lagður er af þessum vegi, tengir fleiri eða færri bæi við vegarkerfið. Ég vildi mega fastlega vænta þess, að hv. þm. yrðu svo réttsýnir í þessu efni, að þeir mundu hér rétta hlut þeirra manna, sem ég þori að fullyrða, að eru einna verst settir af öllum í þessu landi um samgöngur.

Þá hef ég enn fremur flutt með hv. þm. Árn. (JörB) brtt. á þskj. 362,VIII, um greiðslu til Suðurlandsvegar. Mun hv. þm. Árn. þegar hafa gert nokkra grein fyrir henni, og tel ég því ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um hana. Það er vitað, að Alþ. hefur skipað n. fyrir nokkru, sem átti að vera og var skipuð að miklu leyti mönnum með sérþekkingu og skyldi rannsaka og gera till. um, á hvern hátt skyldi bætt úr samgönguerfiðleikunum milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur. N. hefur nú skilað áliti sínu, þar sem hún leggur til, að vegur verði byggður um Þrengslin frá Lækjarbotnum. Er áætlað, að vegurinn kosti um 20 millj. kr., og leggur n. til, að unnið verði að lagningu hans á 6 árum með 3,7 millj. kr. framlagi í fjárl. á ári. Það er í sambandi við þessar till., sem Alþ. hefur óskað eftir að fá fram og nú liggja fyrir, að við berum fram þessa till. Þar er flutt það, sem Alþ. óskaði eftir að fá álitsskjal um eftir ýtarlega rannsókn um það, hvað heppilegast væri í þessu efni. Hvort okkur sem leikmönnum finnst hér rétt ráðið eða ekki, þá er ekkert um það að efa, að það verður að leggja til grundvallar í þessu efni það, sem sérfróðir menn hafa rannsakað og lagt til, að gert yrði. Þess vegna berum við það fram í fullu samræmi við þessar till., að tekin verði í fjárlfrv. fyrsta ársgreiðsla af sex til framkvæmda á þessum vegi. Það er komið fram frv., sem heimilar stj. að taka 20 millj. kr. lán til að leggja veginn á næstu 6 árum. Mér finnst fara betur á því, að þetta sé tekið upp í fjárlfrv. núna, þó að greiðsluhalli sé á frv., því að hæstv. fjmrh. (PM) hefur lýst yfir því, að ef tekjurnar hrökkvi ekki til samkv. útgjöldum frv. til verklegra framkvæmda og annarra hluta, muni ríkisstj. telja sig nauðbeygða til að fá heimild hjá þinginu til lántöku, og virðist mér þá miklu réttara, ef svo færi, að lán þyrfti að taka, að þá væri þessi upphæð með í þeim efnum, heldur en heimila lántöku á 20 millj. kr. fyrir utan fjárl. í þessu skyni, sem vitað er, að ekki þarf að nota á næsta ári. Mér finnst rétt, ef þörf er á að taka lán, að þá sé þetta með í þeirri heimild. Ef þess þarf ekki með, af því að tekjur ríkissjóðs yrðu meiri en áætlað er, þannig að fjárl. gætu staðizt að mun betur á þessu ári, þar sem vitað er að mikil peningavelta er í umferð, þá ætti að vera hægt að taka fé til þessara framkvæmda, ef svo reyndist um afkomu ríkissjóðs eins og á síðasta ári, að hún fari fram úr áætlun, sem vitanlega er ekki óhugsandi, þótt áætlunin sé þannig úr garði gerð nú eins og við vitum, enda höfum við við þessa brtt., eins og hv. 1. þm. Árn. (JörB) tók fram, flutt aðra til vara um að setja þetta inn á heimildargr., og hefur ríkisstj. þá í hendi sér, hvort hún notar þessa heimild og tekur sér vald til að ráðast í framkvæmdir á þessu ári, en vitanlega er það undir því komið, að ríkisstj. sjái sér einhverja möguleika til þess.

Aðrar brtt. á ég ekki við fjárl. nema ásamt öðrum. Það er brtt. 362,XI, um framlag til nokkurra nýrra brúargerða, sem ég flyt ásamt hv. þm. Str., hv. 10. landsk., hv. 2. þm. N.-M. og hv. 1. þm. N.-M., en þess vegna höfum við tekið þessar brýr sérstaklega, að vegamálastjóri lagði til í sínum till. til fjvn., að þessar brýr yrðu teknar á þessu ári, og það er vitað, að margar þeirra eru búnar að bíða í mjög mörg ár á biðlista hjá vegamálastjóra, þó að vitað sé, að þörfin sé mjög rík, að úr framkvæmdum verði, og er mér þar sérstaklega kunnugt um þá brú, sem ég hef farið fram á, að gerð verði í mínu kjördæmi, sem sé á Djúpá í Fljótshverfi. Ég lýsti því nokkuð við 2. umr., hversu þar er ástatt, enda mun það vera komið fyrir fjvn. frá vegamálastjóra, hver þörf er, að þessi brú verði gerð það fyrsta. Þetta vatnsfall er á aðalþjóðleiðinni um Skaftafellssýslu og stöðvar bíla á austurleið, því að þetta vatnsfall er allstórt og oft mjög illt yfirferðar, auk þess sem það hindrar, að hægt sé að nota aðalþjóðleiðina fyrir bíla austar en þangað að. Þá skilur þetta stóra vatnsfall sundur austursveitir Vestur-Skaftafellssýslu, og bæirnir, sem fyrir austan eru, eru svo að segja alveg einangraðir. Það er því tvennt, sem vinnst með að gera þessa brú, því að hún bætir ekki aðeins úr samgönguþörf innanhéraðs og tengir saman þessar sveitir, heldur verður þetta mikil samgöngubót fyrir sveitirnar austan Skeiðarársands eða Austur-Skaftafellssýslu, þar sem það lengir að mun þann veg, sem þá yrði fær bifreiðum eða alla leið að Skeiðarársandi, og mér virðist, að þótt víða sé mikil nauðsyn brúargerða, þá verði þó að ganga fyrir þær brýr, sem tengja saman stórar sveitir og eru á aðalvegi, þar sem þær eru ekki aðeins úrlausn fyrir eina sveit, heldur landsbúa í heild til að greiða fyrir samgöngum kringum landið. Þetta er í þriðja skiptið, sem ég flyt till. um brú á Djúpá. Það er sagt, að ekki sé fullreynt fyrr en í þriðja sinn, og vona ég, að Alþ. og hv. alþm. reynist nú vel í þriðja sinn við þessa till., svo að ekki þurfi oftar að leita á náðir þ., þar sem aðalráðunautur ríkisstj. og Alþ. um vegamál og brúargerðir hefur lagt til, að á þessu ári verði brúaðar þessar ár, og mér er næstum óskiljanlegt, að fjvn. skuli hafa tekið fram fyrir hendurnar á honum um þetta, þó að hún hafi annars að mestu leyti fylgt till. hans, eins og rétt er að gera.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti þess, að hv. alþm. sýni fullan skilning í þessu efni, sem ég hef borið upp við Alþ. að fá leiðréttingu á með þessari tiltölulega mjög litlu hækkun til míns kjördæmis, sem ég þori að fullyrða, að er mjög hófleg samanborið við það, sem aðrir gera í þessu efni, sérstaklega þegar, tekið er tillit til þess, hvaða fjárveitingar eru þangað samanborið við fjölda annarra kjördæma, og þá sé talið sjálfsagt að leiðrétta það, og ég tel, að hóflega sé í það farið af minni hendi, þar sem ég hef ekki farið fram á meira en hér er gert.