29.04.1946
Sameinað þing: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (3609)

Þinglausnir og þingrof

forseti (JPálm):

Ég vil leyfa mér að gefa yfirlit yfir störf Alþingis þess, er nú er að ljúka störfum. Þingið hefur staðið frá 1. okt. til 21. des. 1945 og frá 1. febr. til 29. apríl 1946, eða alls 170 daga.

Á þessu þingi hafa verið haldnir alls 293 fundir, í Nd. 129, í Ed. 119 og í Sþ. 45.

I. Lagafrv. á þinginu hafa komið fram:

1.

Stjórnarfrv.:

a.

Lögð fyrir neðri deild

10

b.

Lögð fyrir efri deild

6

c.

Lögð fyrir sameinað þing.

2

18

2.

Þingmannafrv.:

á.

Borin fram í neðri deild :

100

b.

Borin fram í efri deild.

39

139

157

Þar af:

a.

Afgreidd sem lög:

Stjórnarfrv.

16

Þingmannafrv.

65

All s

81

lög.

b,

Afgr. með rökst. dagskrá:

Þingmannafrv.

11

c.

Ekki útrædd :

Stjórnarfrv

2

Þingmannafrv.

63

Alls

157

II.

Þingsályktunartillögur, allar bornar

fram í sameinuðu þingi :

84

Þar af :

a.

Ályktanir Alþingis

25

b.

Felldar

2

c.

Afgr. með rökst. dagskrá.

2

d.

Vísað til ríkisstjórnarinnar

6

e.

Ekki útræddar.

49

Alls

84

III.

Fyrirspurnir:

a.

Bornar fram í neðri deild

5

b.

Bornar fram í efri deild.

3

8

a.

Svarað

5

b.

Ekki svarað

3

Mál til meðferðar í þinginu alls

249

Tala prentaðra þskj. 1024.

Þetta þing hefur orðið talsvert lengra en gert var ráð fyrir í byrjun. En þegar við lítum til baka, getur enginn undrazt, þótt svo hafi farið. Ber það til, að þingið hefur haft til meðferðar fleiri mál og stærri en flest ef ekki öll þing önnur, og það hefur afgr. svo merkilega, víðtæka og margbreytilega löggjöf, að ekkert þing áður kemst þar til samanburðar. Mun og löggjöf þessa þings gripa inn í allar greinar okkar þjóðlífs, eigi aðeins um stundarsakir, heldur og um langa framtíð, og það á þá leið, að allir landsmenn munu lengi minnast þessa þings sem athafnasamrar og merkilegrar samkomu.

Öll störf þingsins hafa markazt af einni stefnu, og það er meiri bjartsýni, stórhugur og frjálslyndi en nokkru sinni áður. Sumir munu telja, að fyrirhyggjan hafi eigi verið að sama skapi, en um slíkt verða jafnan skiptar skoðanir. Grundvöllur þeirrar stefnu, sem starfsemi þessa þings hefur byggzt á, er sá að nota fjármagn þjóðarinnar í framlögum og lánveitingum til þess að koma atvinnuvegunum til sjós og lands í hið fullkomnasta horf með allri þeirri véltækni, sem nýjustu vísindi eiga völ á, og að hinu leytinu að jafna aðstöðumun þjóðfélagsþegnanna og bæta kjör þeirra svo sem unnt er.

Til sönnunar um þá viðleitni, sem byggist á þessu sjónarmiði, vil ég nefna þessi hin helztu stórmál, sem þetta Alþingi hefur afgreitt:

Við afgreiðslu fjárlaganna, sem jafnan eru aðalmál hvers reglulegs Alþ., voru ákveðnar stærri fjárhæðir til verklegra framkvæmda en nokkru sinni fyrr. Til vega- og brúargerða eru ætlaðar rúmar 20 millj. króna, til vitamála og hafnarbóta 6,6 millj. kr. í beinum framlögum, auk 2 millj. kr. á heimildagrein.

Til landbúnaðarmála eru ætlaðar 10,5 millj. kr. Til sjávarútvegsmála tæp 1 millj. kr. og iðnaðarmála rúmlega 1 millj. kr.

Af þeim málum, sem varða landbúnað og sveitahag, skal ég aðeins nefna þessi hin merkustu:

Tel ég þar fyrst hin almennu raforkulög, sem gefa tækifæri til að koma hinum dýrmætustu þægindum um allar byggðir þessa lands og gilda tugi milljóna í framlögum og lánsfé á næstu árum.

Í öðru lagi lög um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, sem tryggja 50 millj. króna til ræktunar og bygginga í sveitum á næstu 10 árum, með 2% vöxtum og 42 ára afborgun, og um leið ákveða 10–20 millj. kr. greiðslu í vaxtamismun frá ríkissjóði.

Í þriðja lagi eru lög um verðlagningu landbúnaðarafurða mjög þýðingarmikið mál.

Í fjórða lagi afnám 17. gr. jarðræktarlaganna. Einnig má geta þess, að auk þess sem fjárl. ákveða yfir 20 millj. kr. til samgöngubóta, eins og áður er sagt, hafa aðrar og meiri ráðstafanir verið gerðar til framgangs þeim málum. Er þar stærsta ákvörðunin sú, að byggja skuli á næstu 7 árum steyptan veg frá Reykjavík austur að hinu frjósama Suðurlandsundirlendi.

Meðal þýðingarmikilla samgöngumála má og nefna lög um kaup á 3 nýjum strandferðaskipum. Allar samgöngubætur varða hag hinna strjálu byggða meira en flest annað.

Þá má að síðustu nefna sem þýðingarmikið landbúnaðarmál þá ákvörðun Alþ. að styðja fjárskipti í Suður-Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu, sem telja má, að marki stefnu á þessu sviði.

Á sviði sjávarútvegsmála eru ákvarðanir þessa Alþ. enn stórfelldari en það, sem þegar hefur verið nefnt. Vil ég þar fyrst nefna lög um togarakaup ríkisins, sem ákveða kaup 30 nýtízku togara. — Í öðru lagi lögin um stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands, sem tryggja útveginum 100 millj. kr. í lánum með mjög lágum vöxtum. — Í þriðja lagi lög um skipakaup ríkisins, er tryggja mikinn hóp af fullkomnum vélskipum til síldar- og fiskveiða. — Í fjórða lagi lög um síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins. Og síðast en ekki sízt hin almennu hafnarlög, sem er mjög þýðingarmikil og áhrifasterk löggjöf til aukinnar tryggingar hafnar- og lendingarbótum kringum allt land, enda er það m. a. til marks um það, að þessi l. hafi mikla þýðingu, að með þeim eru úr gildi felld 60–70 ófullkomin lög á þessu sviði.

Enn fremur má nefna, að á þessu þingi hafa verið samþ. lög um landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum, sem verða mun merkileg framkvæmd, og einnig tvenn lög um atvinnu við siglingar og lög um beitumál. Einnig ný lög um nýjar síldarverksmiðjur og tunnuverksmiðju.

Öll þessi lög munu hafa svo mikil áhrif fyrir atvinnuvegi okkar og atvinnulíf, að engin sambærileg dæmi eru áður til.

Á sviði mannréttinda og mannúðarmála eru lögin um almannatryggingar, sem þetta þing hefur samþ., stærra spor en áður hefur verið um að ræða í okkar þjóðfélagi. Skapar þessi löggjöf mjög mikið öryggi fyrir gamalt fólk og lasburða og alla aðra, sem standa illa að vígi í þjóðfélaginu. Er það víst, að allir þeir landsmenn, sem góðs njóta af þessari merku löggjöf munu gleyma því, þó að þetta þing hafi verið nokkrum vikum lengra en ella, hennar vegna, og blessa þá, er hana settu.

Í menntamálum hefur þetta þing verið sérstaklega athafnasamt. Það hefur sett 5 lög um menntamál :

1. Um skólakerfi og fræðsluskyldu,

2. — fræðslu barna,

3. — gagnfræðanám

4. — húsmæðrafræðslu,

5. — menntaskóla.

Með þessum lögum er allt fræðslukerfi þjóðarinnar bætt og samræmt og meiri tækifæri gefin til handa æskufólkinu en áður hefur verið um að tala.

Mörg önnur merk og þýðingarmikil lög hefur þetta þing sett. Vil ég sérstaklega nefna til viðbótar því, sem ég hef áður talið:

1. Lög um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum.

2. Lög um nýbyggingar í Höfðakaupstað.

3. Lög um virkjun Sogsins.

4. Lög um þátttöku Íslands í stofnun gjaldeyrissjóðs og alþjóðabanka.

5. Lög um byggingu gistihúss í Reykjavík.

6. Lög um iðnlánasjóð.

Mörg önnur merk lög og þál. hefur þetta Alþ. afgreitt. Miðar allt það, sem þegar er talið, að því að marka tímamót í þjóðfélagi okkar.

Þetta þing lýkur nú störfum í sumarbyrjun. Ég vil óska öllum landsmönnum gleði og farsældar á hinu nýja sumri. Ég óska, að hið nýja sumar verði bjart og hlýtt í venjulegum skilningi og einnig hinum, að þær sumarvonir, sem starfsemi þessa Alþ. hefur vakið, rætist og lifi.

Háttv. alþm. og hæstv. ríkisstjórn og öllum starfsmönnum Alþ. þakka ég vinsamlega og góða samvinnu við mig sem forseta og óska þeim öllum gifturíkrar starfsemi í þágu þjóðarinnar og persónulegrar hamingju.