29.04.1946
Sameinað þing: 45. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2188 í B-deild Alþingistíðinda. (3612)

Þinglausnir og þingrof

Forseti Íslands (Sveinn Björnsson) :

Í ríkisráði í dag var gefið út svolátandi forsetabréf :

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Störfum Alþingis, 64. löggjafarþings, er nú að verða lokið, og mun ég því slíta Alþingi í dag, mánudaginn 29. apríl 1946.

En jafnframt mæli ég svo fyrir, að Alþingi, sem nú situr, skuli rofið frá þeim degi að telja, er almennar kosningar til Alþingis fara fram á þessu ári.

Ritað í Reykjavík, 29. apríl 1946.

Sveinn Björnsson.

Ólafur Thors.

Forsetabréf um þinglausnir og þingrof.“

Samkvæmt bréfi því, er ég hef nú lesið, fara fram í lok júnímánaðar næst komandi almennar kosningar til Alþingis, og verður þetta þing væntanlega hið síðasta á þessu kjörtímabili. Með því að þetta reglulega Alþingi hefur nú lokið störfum, segi ég þinginu slitið.

Um leið og ég óska þingmönnum velfarnaðar, vil ég biðja þá að minnast fósturjarðar vorrar, Íslands, með því að rísa úr sætum.

Þingmenn risu úr sætum sínum, og forsrh., Ólafur Thors, mælti: Lifi Ísland! — Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrra hrópi.