18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

16. mál, fjárlög 1946

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég á hér ekki skylt við nema fáar brtt., þ. e. ekki nema eina einustu, síðan fjárl. voru lögð fram, og hún er ekki um hærri upphæð en 2500 kr. Við síðustu umr. dró ég þessa brtt. til baka. Þessi brtt. er á þskj. nr. 322,XVII, um, að til Einars Sturlusonar verði veitt þessi upphæð til söngnáms erlendis. Þessi maður er við söngnám í Stokkhólmi, og hann hefur fengið meðmæli frá fróðustu mönnum í hans námsgrein, þeim dr. Jósep Hislop í Stokkhólmi og Páli Ísólfssyni. Og þar sem þetta eru bein meðmæli um það, að þessi maður sé verðugur þess, að honum sé liðsinnt til þess að afla sér þessarar þekkingar, þá vona ég, að því verði tekið vel af hv. þm., þegar kemur til atkvgr.

En úr því að ég stóð upp, vildi ég aðeins minnast á eina brtt., sem nú liggur hér fyrir, sem ég samkv. því, sem ég sagði áðan, er ekki flm. að, og ég er því alveg óbundinn um hana. Það er brtt. um að verja á næsta ári allt að 3700000 kr. úr ríkissjóði til lagningar Suðurlandsvegar. Það er nú hægara að ræða um þetta en að finna þau rök, frá hvaða sjónarmiði sem er, sem enginn geti hallað á. Ég segi fyrir mitt leyti, að þótt ég eigi óskylt við þessa brtt., — þá er það vegna afstöðu minnar til þeirra stöðva, sem þarna á að leggja brú á milli með framlögunum — þó að ég eigi ekki skylt við þessa brtt., þá er mér ómögulegt annað en að greiða atkv. með henni. En hins vil ég geta, að ég álít þá aðferð, sem valin er til þess að bera fram brtt, um, að þetta verði fellt inn í fjárl. nú, vafasama. Og sérstaklega þau rök, sem flutt voru fyrir þessari brtt. af hv. fyrri flm. hennar, álít ég vafasöm og dálítið brosleg. Þau rök voru fyrst og fremst, að það væri nauðsynlegt að bæta þessar samgöngur, og það vil ég vitanlega undirstrika með honum. En svo kom hv. fyrri flm. inn á það, að lántaka væri ekki hentug og ætti tæpast við, og hins vegar, að óvíst væri um getu ríkissjóðs á komandi árum. Það segir hv. þm. að vísu rétt, því að hvað vitum við, hvernig efnahagur ríkissjóðs stendur og geta hans til stórframlaga á næstu árum? En ef það er einu sinni lögð áherzla á það, að þessi framkvæmd, sem mun samkv. áætlun kosta allmikið fé, sé höfuðnauðsyn, þá verðum við líka að leiða rökin áfram í samræmi við það, að til þess að tryggja, að þetta verði framkvæmt, þá sýnist ekki úr vegi, ef svo færi á þessu áætlaða tímabili, 6 árum, sem milliþn. í þessu máli gerir ráð fyrir, að þessi framkvæmd verði gerð á, að þröngt yrði í búi hjá ríkissjóði um slík framlög, sem þarna koma til greina, að heimila ríkissjóði að taka lán í þessu skyni. Það skiptir ekki litlu máli, til hverra hluta lántökur eru heimilaðar, hvort það er til framkvæmda hinna mestu nauðsynjamála eða til þess, sem teljast má mjög vafasamt eða kannske óþarft. — Það er sagt sitt af hverjum ýmissa hv. þm. um það, hve hátt þetta framlag sé, sem hér er lagt til, að heimilað verði. En því meiri sem nauðsyn er þessa máls, því meiri áherzlu verður að leggja á fjárframlög til þess og því síður má koma fyrir, að framkvæmdin strandi á féleysi. Nú er því þannig háttað um þessar framkvæmdir, að kostnaðurinn er að mestu leyti miðaður við að borga fyrir framkvæmdir, sem unnar eru með okkar heimaorku. Þetta er vegagerð með íslenzku starfsafli, þó að vísu eitthvað þurfi að kaupa af stórvirkum verkfærum til þessara framkvæmda. Frv. það, sem er í hv. Ed., vil ég ekki ræða hér í sambandi við fjárlagaumr., því að það kemur ekki fjárl. við, nema í sambandi við aðferð, sem stungið er upp á í þessu máli. En ég vil endurtaka það, að þar sem brtt. þessi lýtur að beinum fjárframlögum úr ríkissjóði, án tillits til lögfestingar á frv., sem fyrir liggur í hv. Ed., þá get ég ekki annað en greitt till. atkv., í hvaða formi sem er, um framlag til þessara framkvæmda, þó að mér þyki formið að einhverju leyti beyglað, sem till. kemur fram í. En frá því sjónarmiði, að allt vill sem bezt lag hafa, vil ég benda á, að bindingur í þessu máli þarf að vera sem traustastur og öruggastur. Og ég álít hann öruggastan með því að lögfesta heildarfyrirkomulag framkvæmda þessara, sem í á að ráðast, því að ég hygg, að það mætti betur fara en að karpa um þetta mál ár eftir ár á hverju fjárlagaþingi, meðan þessi framkvæmd stendur yfir. Og frá sjónarmiði velunnara málsins er það mjög æskilegt að geta verið laus við slíkt karp með því að reka saman ramma að framkvæmdum málsins í einu lagi og heimila fjáröflun til þess, sem stendur ekki að öllu leyti og fellur eftir því, hvernig efnahagur ríkissjóðs er á hverju ári á komandi árum.

Ég vildi taka þetta fram um afstöðu mína strax, af því að mér þykir það réttara en að gera það aðeins, þegar ég væntanlega mun segja álit mitt um till. við atkvgr.