19.02.1946
Neðri deild: 70. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (3632)

12. mál, fiskimálasjóður o.fl.

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósefsson) :

Ég vildi aðeins segja nokkur orð í tilefni af því, sem fram hefur komið í grg. hv. minni hl. Ég vil taka það fram til viðbótar því, sem ég sagði hér áðan, að það er mesti misskilningur að halda því fram að það frv., sem hér liggur fyrir, breyti að nokkru verulegu leyti þeim starfsgrundvelli, sem nú er þegar fyrir hendi samkvæmt gildandi l. um fiskimálasjóð og fiskimálanefnd. Hv. 2. þm. S.-M. taldi upp ýmis þýðingarmikil verkefni, sem fyrir lægju, og það er fullkomin skylda, sem hvílir nú á fiskimálasjóði og fiskimálanefnd, að reyna að leysa þessi vandamál, og það er unnið að því. Og það er áreiðanlegt, að ef af fiskimálasjóði yrði nú létt að verulegu leyti því að þurfa að eyða megininu af fé sínu til beinna lánsstarfa, með því að fiskveiðasjóður yrði gerður, færari um að lána, þá er áreiðanlegt, að fiskimálasjóður mundi fá stóraukna möguleika til þess að snúa sér að þessum rannsóknarefnum í þarfir sjávarútvegsins, t. d. rannsóknum á nýjum veiðiaðferðum, leit að nýjum fiskimiðum o. s. frv. Það er engum vafa bundið, að fiskimálasjóður fengi stóraukna möguleika til þess að leggja fé í þetta, ef hann þyrfti ekki að eyða svo að milljónum króna skiptir í beina lánastarfsemi, í að byggja frystihús, eins og hann hefur þurft að gera. Ég vil því eindregið leggja til, að þessu frv., sem hér er borið fram frá sjútvn., verði vísað frá, því að ég sé í rauninni ekki nokkur ný verkefni fyrir fiskimálanefnd eða fiskimálasjóð. Fiskimálasjóður hefur heimild til þess að verja fé til alls þess, sem hér hefur verið á minnzt, og hefur undanfarið lagt í það fé.

Ég vil einnig geta þess, að það er heldur ekki svo, að það sé í raun og veru ráðh. einn, sem veiti fé úr fiskimálasjóði. Hv. 2. þm. S.-M. komst að orði á þá leið, að hann teldi heppilegt, að fleiri menn væru kvaddir til ráða um það, hvernig þessu fé yrði varið, en ráðherra einn. Eins og l. eru nú, þá er það fiskimálanefnd, sem gerir till. um það til ráðh., hvernig fé sjóðsins skuli varið. Mér er ekki kunnugt um, að nema aðeins einn einasti ráðh. hafi brugðið út af þessari venju og veitt fé úr sjóðnum án þess að ráðfæra sig við fiskimálanefnd, og ég held ég fari rétt með, að það hafi verið síðasti atvmrh., Vilhjálmur Þór, sem veitti upp á sitt eindæmi fé úr sjóðnum til ákveðins aðila. Ég held því, að þetta sé ástæðulaus ótti og að fyrirkomulag það yrði ekki til bóta, sem um ræðir í frv., að þriggja manna n. skuli sett til þess að ráðstafa sjóðnum öllum.

Mér finnst hv. flm. geti verið ánægður með það, að það á að fara fram athugun á því, hvernig megi bæta kjör sjóðsins með tilliti til eflingar fiskveiðasjóðs, og gæti látið sér nægja með það til næsta þings. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum verkefnum fyrir fiskimálanefnd eða fiskimálasjóð, þannig að engum getur orðið samþ. þessa frv. til gagns þess vegna.