18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

16. mál, fjárlög 1946

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það eru ekki nema örfá orð. Við erum tiltölulega fáir í þessum sal nú, og því yfir fáum að tala og fáa að sannfæra, þótt takast kynni að mega með ræðuhöldum hér.

Ég á hér tvær brtt. Aðra þeirra flyt ég einn, en hina með nokkrum öðrum hv. þm. Fyrri brtt., sem er á þskj. nr. 362,II, er um að hækka framlag til Bitruvegar úr 200 þús. kr. í 500 þús. kr., og til vara upp í 300 þús. Þessi brtt. kann ýmsum að þykja fara fram á nokkuð mikla hækkun. En ég vil segja þessu máli til skýringar, sem ég reyndar hef gert við hv. fjvn., að hér er um veg a.ð ræða, sem er aðkallandi nauðsyn að fá lagðan nú þegar eða sem allra fyrst, fyrir heilt byggðarlag. Það hafa orðið þau mistök, sem þýðir ekki um að sakast, að vegurinn inn í Strandasýslu hefur verið lagður yfir Steinadalsheiði, og reynslan hefur sýnt, að snjóþyngsli eru þar svo mikil, að vegurinn er ekki fær bifreiðum nema tvo eða þrjá — oft ekki fulla þrjá mánuði ársins. En vegurinn yfir Bitruháls mundi vera snjóléttur og greiðfær fyrir bifreiðar mikinn hluta ársins. Og sama máli gegnir um þennan veg eftir endilangri sýslunni, hann mundi allur vera greiðfær fyrir bifreiðar, vegna þess, hve snjólétt þar er á ströndinni. En snjóþyngslin eru mest á Steinadalsheiði, þar sem vegurinn er nú. Þegar þess er gætt, að sáralítið fé hefur verið lagt til Strandasýslu og öll áherzlan hefur verið lögð á að gera heildarátak um að leggja þennan eina veg, og þegar litið er einnig til þess, að á öllum þingmálafundum hefur verið þannig frá þessu máli gengið svo að segja í hverjum einasta hreppi í sýslunni, að íbúar sýslunnar vildu láta fjárveitingar bíða til annarra nauðsynlegra framkvæmda sýslunnar, til þess að geta fengið heildarátak um veginn yfir Bitruháls til þess að fá sæmilegar samgöngur við aðra landshluta, þegar þessa er gætt, er hér ekki farið fram á mikið um fjárveitingu til sýslunnar. Og ég hef ekki farið fram á fjárveitingar til annarra hluta í samræmi við þessar samþykktir, sem gerðar hafa verið þar í sýslunni, þótt ekki hafi fengizt meðmæli hv. fjvn. fyrir meiru í þessu skyni en 200 þús. kr., og eru tæpast umtalsverðar aðrar fjárveitingar til Strandasýslu. Ég er þess vegna ekki í vafa um það, þó að ég reyndar viti, að hv. fjvn. hefur í mörg horn að líta, að ef litið er með fullri sanngirni á þörfina á þessum stað fyrir þennan veg, þá sjá menn, að það ber að veita meira framlag til hans en hv. fjvn. leggur til. Vegarstæði þarna hefur verið rannsakað tvívegis af bezta manni, sem vegamálastjóri hefur yfir að ráða, Jóhanni Hjörleifssyni, sem hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að bezt muni að leggja veginn yfir Bitruháls, og það væri því ekki með því verið að kasta peningum á glæ. Þegar þess er gætt, hve mikla þörf þarna er um að ræða og ekkert teljandi er lagt úr ríkissjóði til annarra framkvæmda í sýslunni, þá er það ekki nema sanngirnismál, þó að samþykkt fengist fyrir þessum 500 þús. kr., hvað þá heldur, ef varatill. væri samþ., 300 þús. kr. Það vonast ég til, að hv. þm. geti sannfært sig um með því að bera saman fjárveitingar til Strandasýslu og fjárveitingar, sem veittar eru til annarra héraða.

Viðkomandi hinni brtt., sem er á sama þskj. undir XI, vil ég segja það, að hún styðst einnig við fyllstu sanngirni. Rökin fyrir því að flytja og samþ. þessa brtt. byggjast beinlínis á áliti vegamálastjóra. Það er tillaga vegamálastjóra, að ef byggðar verði fleiri brýr á næsta ári en þær, sem nú eru komnar inn í fjárlfrv., eins og það liggur fyrir, þá álíti hann alla sanngirni mæla með því, að þessar brýr, sem við gerum hér till. um í þessari brtt., að byggðar verði, verði teknar næst. Þessum framlögum var ekki hægt að koma fram í hv. fjvn. og ekki heldur ákveðinni yfirlýsingu um að lofa því, að þessar brýr yrðu gerðar á árinu 1947 og teknar upp í fjárl. fyrir það ár. Ég skal ekki fara út í að ræða um, hvort meiri þörf sé á að byggja þær brýr, sem gert er ráð fyrir í þessari brtt., á Staðará í Steingrímsfirði, Djúpá í Fljótshverfi og Jökulsá í Fljótsdal, heldur en ýmsar brýr, sem teknar eru upp í fjárlagafrv. Á það ætla ég ekki að leggja dóm. En hitt liggur fyrir, að vegamálastjóri gerir till. um, að þessar brýr komi næst á eftir þeim, sem teknar hafa verið upp á fjárlagafrv. Og ég er alveg viss um, að þau rök, sem vegamálastjóri færir fram fyrir þessu áliti sínu, eru í fyllsta gildi. Því að ég hygg, að þessar brýr, sem um ræðir í þessari brtt., eigi engu síður rétt á sér en ýmsar þær brýr, sem teknar hafa verið í fjárlagafrv. Ég geri ráð fyrir, að hv. meðflm. mínir segi eitthvað um þessa brtt. að því er snertir Djúpá og Jökulsá. En ég vil bæta því við, að ég hef tekið það fram við hv. fjvn., að bæði Staðará og Selá, sem nauðsynlegt er að brúa báðar og sem fyrst, eru farartálmi fyrir mikinn hluta Strandasýslu um að komast til Hólmavíkur, og að þessar ár eru óbrúaðar, veldur því, að flytja verður fé á bátum yfir Steingrímsfjörð til þess að koma því til slátrunar. Og þráfaldlega verður að fara kaupstaðarferðir með því móti að fá sig ferjaðan yfir Steingrímsfjörð í staðinn fyrir að fara veginn yfir Kaldrananeshrepp. Þessi vatnsföll, Selá og Staðará, eru ákaflega hættuleg vatnsföll, svo sem oft hefur reynzt og skal ekki rakið hér í þessu máli. En það gegnir áreiðanlega sama máli um þessar tvær brýr aðrar, sem í þessari brtt. er farið fram á, að veitt verði fé til að brúa á næsta ári, eins og um Staðará, bæði Djúpá í Fljótshverfi og Jökulsá í Fljótsdal. Og það liggur náttúrlega ljóst fyrir, að nauðsynlegt er að brúa Jökulsá í Fljótsdal, vegna þess að hún er eitt af hættulegustu vatnsföllum landsins. Það hefur svo oft verið rætt um þetta á hæstv. Alþ., að það hlýtur að liggja ljóst fyrir hv. þm., hve aðkallandi nauðsyn er á að brúa þá á. Og í raun og veru getur enginn þm. um Austurland farið og litið þetta vatnsfall öðruvísi en að hálfblygðast sín fyrir það, að það skuli ekki vera búið að brúa þetta vatnsfall, þó að þörfin sé víða aðkallandi.