19.02.1946
Neðri deild: 70. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (3644)

13. mál, botnvörpu- og dragnótaveiðar í Faxaflóa

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Það mátti að vísu búast við því, að hv. þm. Borgf. félli ekki að öllu leyti vel við sjútvn. vegna afgreiðslu þeirrar á frv. hans, sem fram kom, en þó verð ég að segja, að ég tel ákaflega hæpið af hv. þm. að taka till. n. á þann veg sem hann gerði. Hann vill stíga það spor í þessu máli að banna Íslendingum að veiða í Faxaflóa, og hann heldur, að þetta muni vekja þá alheimsathygli, að það knosi svo hjörtu þeirra útlendinga, sem þarna hafa hagsmuna að gæta, að þeir muni bæði taka eftir þessu og frekar fallast á að semja um allsherjar friðun. En þetta er náttúrlega aðeins spádómur hjá hv. þm., því að í þessu efni er ekki hægt að fullyrða neitt. En það, sem raunverulega mundi ske, er það, að hér yrði stigið spor til þess að gera íslenzka sjómenn réttminni en erlenda sjómenn á þessu svæði. Það er sá fugl, sem hv. þm. hefur í hendi sér, og aðrir, ef samþ. eru l. um þetta, en fuglarnir 10, sem hv. þm. vill ná í, þ. e. a. s. samþykkt útlendinga út á þetta frv., þeir eru í loftinu. Það er þess vegna ákaflega hæpið af hv. þm. að reiðast svo mjög sem hann gerði, þó að sjútvn. hafi ekki viljað gína við þessari flugu, sem hv. þm. hampar hér. Hann talaði mjög mikið um vilja sjómanna og vitnaði í samþykktir fiskiþingsins og annarra sínu máli til stuðnings. Það er nú sannast að segja, að í þessum veiðibannsmálum og öðru þá fer viljinn nokkuð eftir hagsmunum hvers og eins, og þó að vissulega sé hægt að benda á hóp sjómanna á Akranesi og í Keflavík og kannske í Reykjavík og viðar, sem mundu vilja krefjast þess, að allir íslenzkir togarar væru reknir burt úr Faxaflóa, þó að þar væri fullt af erlendum togurum, þá er líka til sjómannahópur, sem hefur nokkurra hagsmuna að gæta í þessu efni, en það er sá sjómannahópur, sem stundar togveiði á smærri og smærri skipum. Ég geri ráð fyrir, að sá sjómannahópur mundi a. m. k. finna til þess misréttis, sem efnt væri til, ef gengið væri inn á till. hv. þm. Borgf. Hv. þm. vitnaði í samþykktir, sem hafa verið sendar Landssambandi íslenzkra útvegsmanna frá aðilum hér við flóann, sem aðspurðir voru um álit þeirra í þessu máli. Ég hef nú í höndum t. d. umsögn Keflvíkinga, sem ekki bera togarahagsmuni sérstaklega fyrir brjósti. Hún er á þá leið, að því er lýst, að umr. hafi fallið í þá átt, að sjálfsagt væri að vinna að þessu máli og fá samþykktir þar um, svo framarlega sem aðrar þjóðir stæðu einnig að þeim, og það er einmitt þetta, sem sjútvn. hafði gerzt svo djörf að hafa skoðun um í þessu máli. Hún vill vinna og styðja að allsherjar friðun, og fyrir það fær hún þessar helliskammir hjá hv. þm. Borgf., eins og raun ber vitni um nú þegar hann gerði aths. sínar við umr. þessa máls. En Keflvíkingarnir, sem hv. þm. vitnaði til, þeir eru sömu skoðunar, þeir vilja banna veiði þarna, svo framarlega sem aðrar þjóðir gera það líka. Þeir eru fylgjandi allsherjar friðun eins og Alþ. og eins og sjútvn. hefur lagt til. Svo er hér samþykkt, sem hv. þm. vísaði einnig til máli sínu til stuðnings, frá Gerðum í Garði, og þar er hvorki meira né minna en lýst eindregnum stuðningi við þessi mál, en með þeirri viðbót, að sú nýja landhelgislína, sem á að banna Íslendingum að veiða og á að gilda fyrir Íslendinga eina, hún á eftir þeirra manna hugmynd að vera dregin frá Geirfuglaskeri til Öndverðaness. Ég bendi á þetta síðasta sem dæmi um þann æsing og það athugaleysi, sem getur hlaupið í menn, þegar svona samþykktir eru gerðar að hálfgerðu hitamáli, án þess eiginlega að nokkur skynsemi komist þar að. Hvað halda menn nú t. d., að það yrði lengi þolað, að íslenzkum togurum og togbátum væri bannað að veiða með botnvörpu innan línu, sem dregin væri frá Geirfuglaskeri til Öndverðaness, á sama tíma og ekkert væri hægt að amast við útlendingum, sem þar stunduðu veiðar? Hv. þm. gagnrýndi mjög umsögn fiskifræðingsins Árna Friðrikssonar. Ég er ekki hér til þess og þarf ekki að vera neinn málsvari fyrir þann ágæta mann. Hann hefur sýnt í skrifum sínum um þetta mál og aðgerðum sínum gagnvart friðuninni, að hann vill vinna að því af alhug að fá Faxaflóa friðaðan, og það er í sjálfu sér alveg óþarft að væna hann um nokkur óheilindi í því máli. Hv. þm. minntist á, að hann hefði skipt um skoðun, hann hefði breytt skoðun sinni, en svo fer stundum mætum mönnum, því að án þess ég taki undir það, að skoðanaskipti hafi orðið hjá Árna Friðrikssyni, getur vel farið svo, að menn skipti um skoðun og breyti skoðun sinni við nánari athugun málanna, því að það er ekki öllum léð að hitta strax í fyrstu umferð hárréttan punkt í hverju máli, þó að það sé kannske hv. þm. Borgf. gefið.

Fiskifræðingurinn bendir réttilega á, að ekki þýði að banna Íslendingum þetta einum, ef það nái ekki líka til útlendinga, og er því hálfur tilgangurinn með frv. hv. þm. Borgf. farinn. Þetta er það, sem greinir á milli hv. þm. Borgf. og sjútvn. Það eru allir sammála um, að friðun sé nauðsynleg, en við í sjútvn. viljum ekki, að Íslendingar búi við verri rétt í sínu eigin landi en útlendingar. Hv. þm. getur hellt úr skálum reiði sinnar yfir þá, sem eru í sjútvn., sagt að þeir séu ófærir um þingsetu, og haft í hótunum um, að sjómenn verði að sjá tímanna tákn. Það eru til þeir menn, sem ávallt líta á lögbönn sem beztu leiðina til að fá einhverju framgengt. En hér hafa fræðimenn farið út á aðra braut, að fá Faxaflóa friðaðan á þeim grundvelli, að það borgi sig fyrir alla, þegar tímar líða. En hv. þm. er ekki ánægður með þetta, hann er banntrúarmaður, og nú vill hann banna Íslendingum fyrst og fremst veiði við Faxaflóa. Í umsögn Atvinnudeildar háskólans er bent á tvær leiðir til þess að friða ungviðin, önnur er sú að banna algerlega veiðar, en hin er að hlífa ungviðunum með ákveðinni möskvastærð. En þessi ráðstöfun kemur aðeins að notum, ef fleiri þjóðir taka þátt í þessu en Íslendingar, en hún er í því fólgin að lögbjóða lágmarksstærð á möskvum í botnvörpum og dragnótum, sem og lágmarksstærð á þeim fiski, sem flytja má í land og selja.

Svo segir fiskifræðingurinn enn fremur:

„Mörgum er það ljóst, að þessar ráðstafanir eru ekki fullnægjandi, þegar til lengdar lætur, og þess vegna hafa verið gerðar athuganir á því, hvort ekki væri heppilegt að friða ákveðin svæði, sem eru þýðingarmikil fyrir uppvöxt ungviðis, og eitt af þessum svæðum er Faxaflói. Á hinn bóginn verður slík friðun ekki framkvæmd, svo að gagni komi, nema með alþjóðasamþykktum, því að tilganginum með friðuninni verður ekki náð, ef sumar þjóðir fá að fiska á svæðinu, en aðrar ekki.“

Þannig segist fiskifræðingnum frá. Það má búast við því, að ef fallizt yrði á þetta frv. og byrjað á því að banna Íslendingum að veiða með dragnótum og botnvörpum í Faxaflóa og þar með rýma betur fyrir útlendingum á þessum slóðum, þá færu fleiri þingmenn að hugsa um flóa og firði, sem liggja að þeirra kjördæmum. Og þar sem líta verður á, að Faxaflói sé aðeins eitt af dýrmætum svæðum, þá gætu fleiri farið fram á hið sama og hv. þm. Borgf. Hv. þm. mundi e. t. v. segja gott og vel og líka þeim mun betur, því víðar sem þetta er bannað Íslendingum, en þó að hann og fleiri séu á þessari skoðun, þá ætla ég, að sumum Íslendingum þætti gengið á sinn rétt, er fram í sækti og árin liðu án þess þeir fengju að fiska á þessum slóðum.

Mér fannst engin þörf fyrir hv. þm. að reiðast svo sjútvn. sem hann sýnilega gerði. Það er vitað, að þessi hv. þm. flutti þáltill. fyrr á þessu þingi um að fá Alþingi til að skora á ríkisstj. að fá því framgengt, að Faxaflói yrði talinn innan íslenzkrar landhelgi. Þessi till. var samþ., en hv. þm. telur sig samt þurfa að ýta á þetta mál á þann hátt sem um ræðir í þessu frv. — Það er gott að fylgja málum sínum af kappi og afsakanlegt, þótt úr því verði ofurkapp að áliti sumra, en mér finnst heldur langt gengið að dæma menn úr leik, ef þeir vilja ekki fallast algerlega á þær leiðir, sem þm. vilja hafa við í hvert sinn. Og hv. þm. hefði mátt áfellast sjútvn., ef hún hefði farið að mismuna veiðimönnum á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, og það algerlega út í bláinn, án þess að hafa nokkra skynsamlega ástæðu fyrir því, að þetta færði landið nær takmarki allsherjar friðunar. Ég býst við af þeirri reynslu, sem landsmenn hafa af veiðiskap útlendinga, að þeir, sem að þeim standa, mundu láta sér fátt um finnast, hvað Íslendingar bönnuðu sínum eigin mönnum. Og þetta sárbeitta vopn, sem hv. þm. talaði um, yrði ekki hárbeittur hnífur gegn útlendingum, en þeir mundu bara verða ánægðir, að þeirra skip fengju að vera í friði.

Hitt er miklu líklegra, að rökstutt álit, samfara athugunum og rannsóknum vísindamanna, og áhrif frá ráðstefnum slíkra manna til að ræða vandamál fiskveiðanna yfir höfuð leiddi til þeirrar skoðunar, að það væri til hagsbóta fyrir alla aðila að friða ákveðin svæði, þar sem athuganir hafa sýnt, að fiskur héldi sig og alist upp á. Þessi skoðun hefur smátt og smátt rutt sér til rúms, og hefur enginn einkarétt á henni, að rétt sé að friða ákveðin svæði, en sú skoðun, sem styðst við slík rök, kann e. t. v. að eiga langt í land til þess að eigin hagsmunir séu látnir þoka. Ég segi, að það kunni að vera, ég fullyrði ekkert, en þó er líklegt, að þessi stefna fái frekar byr undir vængi í framtíðinni en nú hefur verið, því að hafrannsóknir breiðast óðfluga út og eru teknar upp á svæðum, sem ekki hafa verið rannsökuð áður, og fleiri þjóðir bætast ávallt við, sem vinna að rannsóknum á eðli hafsins og dýrunum, sem í því lifa. Og það er eftirtektarvert, að Norðmenn, sem hafa nú eftir ófriðinn í mörg horn að líta, hafa nú hafið hafrannsóknir sínar af fullum krafti að nýju. Við Íslendingar höfum, sökum smæðar okkar og getuleysis, ekki getað tekið virkan þátt í þessu fyrr en á allra síðustu árum, að Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson hafa getið sér góðan orðstír í þessum rannsóknum. Það eru til dæmi um það, að svæði hafa verið bönnuð þegnum þjóðarinnar sjálfrar, t. d. Morey-fjörður við England, og hefur komizt þar sú hefð á, að útlendingar hafa séð sinn kost vænstan að skýla ekki ólöglegum veiðum þarna með fánum sínum. En aðstaðan hér við Faxaflóa er allt önnur, við yrðum að sætta okkur við það, þótt flóinn yrði trollaður upp, því að við höfum engar ástæður til að sigrast á útlendum skipum, sem vildu veiða þarna, og yrðum því bara að treysta á, að borin yrði virðing fyrir þessari löggjöf.

Þá talaði hv. þm. um ályktanir fiskiþingsins. Ég hef litið yfir langa röð af ályktunum frá fiskiþinginu, en ekki séð sérstaka ályktun um þetta, en ein ályktun var þar gerð um 5 mílna landhelgi. Stjórn Fiskifélagsins mælti með frv. hv. þm. Borgf. án þess að færa nokkur rök fyrir því. En ályktanir fiskiþingsins snerta marga hluti, og ég hef ekki veitt því eftirtekt, að hv. þm. hafi tekið upp margar af þeim ályktunum eða gert þær að sínu máli.

Ég tel æskilegt, að hv. þm. vildi láta vera að láta í ljós álit sitt á nýsköpun sinni, nýsköpun, sem miðar að því að gera rétt Íslendinga sjálfra minni en rétt útlendinga við strendur landsins. En henni vil ég ekki fylgja. Hann má virða sem hann vill í þessu máli og tala það, sem honum þóknast, í minn garð persónulega. En stofnun sú, sem ég hef með að gera, á hér engan hlut í. Ég vil eindregið mæla hana undan áaustri hv. þm. í þessu máli. Ég tel, að hv. deild megi vera sannfærð um, að einróma álit sjútvn., sem vill vísa málinu frá með forsendum, sé ekki sprottið af því, að sjútvn. vilji ekki af heilum hug, að Faxaflói verði friðaður.

Í fyrsta lagi veit hún, að það er miklu meira en borin von, að samþykkt frv. mundi hafa þau áhrif, sem hv. þm. vill vera láta. Í öðru lagi yrði út af slíkri samþykkt óánægja a. m. k. sumra fiskimanna. Í þriðja lagi fellst hún á skoðun Árna Friðrikssonar fiskifræðings, að af slíku banni yrði meira fjárhagslegt tjón en bætast mundi upp með friðun veiðisvæðisins. Veiðar útlendinga efldust, eyðileggingin yxi. Skaðinn á miðunum yrði alveg eins mikill af togaraveiðum útlendinga og okkar sjálfra.

Þess vegna föllumst við ekki á frv. hv. þm. En við viljum skora á ríkisstjórnina að gangast fyrir því, að viðurkenning fáist fyrir allsherjarfriðun. Við tökum undir ósk Alþingis að samþykkja frv. í þeirri stefnu. Ég held því fram, að sjútvn. styðji að framgangi friðunarinnar, þegar þess er gætt, alveg eins og hv. þm. og þó með meiri forsjá og skynsemi. Hv. þm. hét á hv. deild að fella samþykkt nefndarinnar og samþykkja frv. Svo er um þetta mál sem önnur, að það fer eins og verkast vill, hvernig því reiðir af. Nefndin leggur fram sína tillögu og heitir hvorki á menn til fylgis við hana né særir þá á neinn veg í þessu máli. Hv. þm. munu vafalaust kunna bezt við að beita sannfæringu sinni hér sem endranær.

Ég vil benda á, að nefndin hefur fært full rök fyrir áliti sínu þessu frv. viðvíkjandi. Annars má lesa um sjónarmið nefndarinnar á þskj.