20.02.1946
Neðri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (3654)

13. mál, botnvörpu- og dragnótaveiðar í Faxaflóa

Lúðvík Jósefsson:

Ég vildi aðeins segja, að mér er vitanlega ekki kunnugt um, og á heldur ekki að svara fyrir hæstv. atvmrh., hvernig stendur á því, að reikningaskrifstofan hefur ekki unnið eins og ætti að vera, eftir því sem hv. 2. þm. S.-M. er að upplýsa. Ég efast um það, að sú stofnun, sem átti að annast þetta starf, hafi fengið aukafjárveitingu til skrifstofunnar. Og ég veit, að hv. 2. þm. S.-M. sjálfur, engu síður en ég og fleiri, sem að því stóðu að semja þessi l. um reikningaskrifstofuna, hafi ákveðið ágreiningslaust þá upphæð, sem ákveðin var til rekstrar skrifstofunnar, og ég dreg í efa, að hún hafi haft full not af þessu fé. Það er misskilningur að halda því fram, að flutningur þessarar till. hafi hraðað því, að reikningaskrifstofan tæki til starfa. Þetta frv. hafði á engan hátt nein áhrif á starfsemi þessarar skrifstofu. En það er gefið mál, að skrifstofan þarf að halda saman ýmsum upplýsingum varðandi rekstur útgerðarinnar í landinu, óháð þessari till. Ég mótmæli, að það einstæða aflaleysi á síldveiðunum í sumar, sá sérstaki atburður, sem þá gerðist, að hann sé á nokkurn hátt eðlilegt að taka til sönnunar um það, að útgerðin í landinu beri sig ekki, þó að svo hafi farið í sumar, að síldveiðin brást með öllu.

Hv. þm. talaði um byrjun nýrrar kreppulánastarfsemi við útgerðina og að þannig færi fyrir öðrum útgerðarmönnum eins og fór á síldveiðunum í sumar. Þó að þetta óhapp hafi skeð í sumar, þá hefur síldarútgerðin skilað verulega miklum hagnaði hin síðustu árin, og hvernig sem dýrtíðinni er annars varið, þá getur alltaf orðið hallarekstur, ef engin veiði er í aðra hönd.

Það er vitanlega kostulegt, ef mark væri á tekið, að tala um það, að þær aðstæður, sem útgerðin í landinu á nú við að búa, séu mér að kenna. Ég hef ekki ráðið svo miklu undanfarin ár. Ég hygg, að hv. þm. hafi ráðið meiru en ég um afkomu útgerðarinnar undanfarin ár, og ég hygg, að á því stutta tímabili, sem ég hef kunnað að ráða einhverju um afkomu útgerðarinnar s. l. eitt ár, þá hallist ekki á hjá útgerðinni það ár miðað við útkomuna þann tíma, þegar hv. 2. þm. S.-M. réð lögum og lofum.