05.02.1946
Sameinað þing: 24. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3657)

67. mál, húsaleiga

Garðar Þorsteinsson:

Þessi till., sem hér liggur fyrir um húsaleigul., hefur komið til allshn., þar sem ég á sæti. N. hefur ekki fundizt hægt að falla frá því að láta lögin halda gildi, þó að hún hins vegar hafi gert sér ljóst, að það er gengið á rétt þeirra manna, sem hafa lagt efni sín í húseignir og ætlað sér eða sínum að njóta þannig fjár síns. Það, sem mestu ræður, er, að hvorki húsaleigun. né aðrir hafa varnað því, að fólk flytti til bæjarins án þess að hafa rétt til þess samkv. húsaleigulögunum. Ég veit um fjölda af fólki, sem hefur fengið hér húsnæði án þess að hafa rétt til þess eftir húsaleigulögunum. Það, sem gerir menn óánægða með þessi lög, er ekki fyrst og fremst það að geta ekki sagt fólki upp, heldur misræmið. Ef tekin eru til dæmis tvö hús við Austurstræti, nr. 10 og 15, þá er leigan í öðru nærri fimm sinnum hærri en í hinu. Slíkt sem þetta veldur mikilli óánægju. Ég er viss um, að ef fundið væri ráð til að samræma þetta, mundi óánægjan út af þessum málum minnka til muna. Ég tek undir það með hv. þm. Barð. og tel það bæði hyggilegt og nauðsynlegt að skipa þessum málum sem fyrst. Ég tel það algert aukaatriði, hvort sú n., sem með þessi mál fer, er stjórnskipuð eða skipuð af Alþingi.

Ég get ekki fallizt á, að þetta mál sé látið bíða næsta þings, heldur sýnist mér nauðsynlegt, að fram úr því verði ráðið ekki síðar en 3 mánuðum fyrir 1. okt. n. k., og er það bæði vegna þeirra, sem leigja út, og leigutaka. Ég er ekki viss um, að stjórnskipuð nefnd eða þingskipuð nefnd finni lausn á þessu máli, ég held fremur, að hlutaðeigendur sjálfir, t. d. fulltrúar frá fasteignaeigendum og aðrir frá leigutökum, mundu helzt finna lausn á málinu.