05.02.1946
Sameinað þing: 24. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (3662)

67. mál, húsaleiga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Mér hefur skilizt það af ræðu hv. 2. þm. Eyf., að það, sem hann væri mest á móti í þessu máli, væri ósamræmið í húsaleigu í gömlum og nýjum húsum og að þeir, sem ættu gömul hús, gætu ekki ráðið leigunni í þeim, sem hins vegar eigendum nýrra húsa væri frjálst. Nú hefur af Alþfl. hálfu verið borið fram frv. um jöfnunarsjóð á húsaleigu, og var með því ætlunin að koma í veg fyrir þetta óréttlæti, sem hann talaði um. Af einhverjum ástæðum fékk þessi till. ekki samþykki meiri hluta Alþ., en til eru ef til vill önnur ráð, sem gætu komið í veg fyrir þetta ósamræmi hér og tekin hafa verið upp hjá öðrum þjóðum, svo sem Englendingum og Ameríkönum. Þau eru í því fólgin að setja hámarksverð á húsaleigu og á þau hús, sem ganga kaupum og sölum. Tek ég þetta fram til þess að benda á það, að aðrar þjóðir hafa einnig orðið varar við þetta fyrirbrigði um misræmi á húsaleigu, sem hv. 2. þm. Eyf. var að geta um. Hins vegar er ekki hægt að segja það, að hér hafi allt verið látið valsa laust á stríðsárunum. Verðlagsnefnd hefur verið hér starfandi stríðsárin, og hefur verið sett hámarksverð á fjölda vörutegunda, þar eð það hefur verið talin nauðsyn af þjóðfélagslegum ástæðum að setja nokkrar hömlur á menn varðandi verðlagningu á vörum, til þess að þeir gætu ekki notað sér þann möguleika ,til að græða, sem stríðið gaf þeim með aukinni kaupgetu almennings.

Út af ræðu hv. þm. Barð. (GJ) er ekki þörf á að fjölyrða. Ég vil aðeins leiðrétta það, að ég hafi verið með undanbrögð um að láta rannsaka þetta mál. Ég vil benda á það, að ég taldi, að í því ráðuneyti, sem ég hef stjórn á, væru ekki starfskraftar, sem ég gæti haft tiltæka til þess að láta rannsókn fara fram og með nægum hraða. Því fer fjarri, að ég vilji draga rannsóknina, heldur vil ég þvert á móti, að henni sé hraðað. Og ef hv. þm. Barð. álítur, að ég vilji afnema húsaleigul., þá þyrfti engin rannsókn að fara fram. Annars skilst mér, að hv. þm. Barð. vilji helzt, að húseigendur, sem byggðu fyrir stríð, verði frjálsir um að ákveða leigjendum húsaleigu, svo að þeir geti komizt á svarta markaðinn eins og húseigendur nýbyggðu húsanna. En ég er í mjög miklum vafa um, að þetta sé lausnin á húsaleigumálunum, þátt vera megi, að það mundi leysa það ósamræmi, sem ríkir í húsaleigu í nýjum og gömlum húsum, þannig að allir geti komizt í „dansinn“, eins og hv. þm. Borgf. orðaði það, og ekki er víst, að það mundi leysa vandamál þjóðfélagsins í þessum efnum, þótt öllum yrði gefið jafnt tækifæri til þess að braska með hús. Það er vitanlegt, að þetta mál er mjög tengt dýrtíðarmálum landsmanna, og væri hætt við því, ef húsabrask yrði enn almennara en nú er, að það yrði til þess að gera þau mál enn erfiðari viðureignar en þau eru nú, og skil ég ekki í því, að hv. þm. Barð. vilji óska eftir því, að gerðar yrðu ráðstafanir, sem torvelduðu lausn þessara mála.

Skal ég svo láta þessi orð nægja að sinni og vil ítreka það, að ef till. sú, er hér liggur fyrir; fær þá afgreiðslu, að þessi athugun á húsaleigul. á að fara fram, þá mun ég gera mitt til þess, að henni verði hraðað, en get hins vegar á engan hátt lofað fyrir fram um niðurstöðu á þessu máli, því að það fer allt eftir því, hvað niðurstaða rannsóknarinnar leiðir í ljós.

Ég vil svo biðja afsökunar á því, að ég verð að hverfa brott af þessum fundi, þar eð ég hef verið boðaður á fund með ríkisstjórninni.