30.10.1945
Sameinað þing: 4. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3676)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Sá hv. þm., sem talaði hér næst á undan, hefur tekið fram ýmislegt, sem í minn huga hafði flogið meðan hv. flm. mælti fyrir þessu máli, og get ég þess vegna stytt mjög mál mitt, enda á málið að fara í n., þar sem ég á sæti.

Ég verð að taka undir það með hv. 7. þm. Reykv., að ég hefði talið mjög æskilegt, að mál þetta hefði hlotið athugun þeirrar stofnunar, sem á var minnzt bæði af hv. flm. og hv. 7. þm. Reykv., sem sé reikningaskrifstofunnar. A. m. k. getur maður sagt það um þessa rannsókn, að hún yrði nokkuð til fróðleiks, þó að ekki sé með vissu fyrirfram hægt að segja, hvaða áhrif að öðru leyti hún mundi hafa. Ég tók eftir því að vísu, að hv. flm. vildi leggja mikið upp úr því, að slík rannsókn um afkomu útvegsins væri til staðar, þegar borin væri saman lífsafkoma manna á landi hér í einstökum atvinnuvegum, og hann taldi það hafa verið mjög óheppilegt, að niðurstaða slíkrar rannsóknar sem hér er farið fram á, þ. e. a. s. hvað útgerðarmenn og sjómenn bæru úr býtum, hafi ekki legið fyrir, þegar 6 manna n. álitið var samið. Ég hlýt að skilja þetta þannig, að hv. þm. sé nú kominn á þá skoðun, sem raunar hann er ekki einn um, að þetta 6 manna n. álit hafi ekki alls kostar verið byggt á réttum forsendum, því að í ræðu hans kom það sterkt fram, að hann telur, að það hafi vantað upplýsingar um afkomu sjómanna, og — eftir annarri röksemdafærslu hans að dæma virðist hann vera þeirrar skoðunar, að sex manna n. álitið hafi stefnt allt of hátt hvað snertir útreikning á afurðum bænda, m. a. vegna þess, að skort hafi upplýsingar um afkomu sjómanna. Hv. þm. segir. líka í grg. fyrir þessu máli, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur orðið til stórtjóns, að ekki hafa legið fyrir glöggar skýrslur um afkomu sjávarútvegsins og áhrif verðbólgunnar á sjávarútveginn á undanförnum árum.“

Ég fæ ekki vel séð, hvar hægt er að benda á, að skortur þessara upplýsinga, sem. hv. flm. fiskar eftir, hafi getað orðið til stórtjóns nema þar, sem hv. þm. minntist á, þegar samið var sex manna nefndar álitið. Það má sjálfsagt gera ráð fyrir því, að það hafi orðið sjávarútveginum til mjög mikils tjóns, hversu sex manna nefndar álitið varð, til að stórhækka vísitöluna og þar með allan kostnað við útgerðina, eins og hv. flm. raunar virðist benda á í þessari till. Það virðist því vera þungamiðja málsmeðferðarinnar hjá þessum hv. þm., að vegna þess að menn yfirleitt og einkum og sér í lagi 6 manna n. gerðu sér aðrar og hærri hugmyndir um afkomu sjávarútvegsins en rétt var, er hún komst að niðurstöðu um, hvaða verð ætti að vera á afurðum bænda, þá hafi það orðið til stórtjóns fyrir afkomu sjávarútvegsins. Nú hefur hv. 7. þm. Reykv. réttilega tekið fram, að hann hafi með höndum upplýsingar um, að 6 manna n. hafi ekki verið eins blönk í þessu efni og hv. flm. þessarar till. vill vera láta eða vill segja af ærlegu hjarta.

Ég tel, að þótt efni væru til einhvers kapphlaups af hálfu sjávarútvegsins við kröfur bænda, þá mundi það tæplega verða, eins og nú er komið málum, til mikils góðs að fara út í það, hvorki fyrir sjávarútveginn né alþjóð yfirleitt.

Þegar hv. flm. talar um, að það verði að finna út, hvaða verð sjávarútvegurinn verði að fá fyrir, afurðir sínar, þá veit hann ekki síður en ég, að öllu slíku má stilla upp sem dæmi á pappír, en hins vegar vitum við það báðir, að það eru aðstæður, sem við höfum næsta lítið vald á, sem oft ákveða þetta verðlag og kostnaðinn að mestu leyti. Hitt bætir ekki úr, þegar fram koma ósanngjarnar kröfur, eins og 6 manna nefndar kröfurnar og aðrar jafnóviturlegar, sem við ættum að hafa getu og vilja til að ráða við, vegna þess að það eru hlutir, sem tilheyra innanlandsástandinu. En þegar vit og vilja skortir í þeim efnum, þá er þar líka í götu þrándur, sem er kannske ekki eins erfiður og ástand á útlendum markaði, en þó erfiður viðureignar.

Að því leyti er þetta snertir ástand undanfarinna stríðsára og útreikninga á afkomu og verðlagi hjá þessari sérstöku atvinnugrein, sem um er að ræða, þá skal ég að vísu játa, að athugun þessi getur, eins og ég sagði áðan, verið fróðleg, en mest hefur hún sögulegt gildi, en lítið á henni að byggja fyrir framtíðina, því að hér er um að ræða tímabil, þar sem verðlagið hefur verið miklu hærra en gerist á friðartímum, og þess er tæplega að vænta, að slíkt verðlag verði í framtíðinni á þeim vörum. Hitt er annað mál, að að því leyti sem þetta mál stefnir að því marki að koma á samvinnu milli allra stétta í þessu landi til að koma niður verðbólgunni, þá er það tilraun, sem er vel athugunar verð, um það getum við verið alveg sammála, en hvort þessi athugun út af fyrir sig leiðir til fyllri lausnar í því máli, um það hygg ég, að hv. flm. geti verið mér sammála, að það út af fyrir sig liggur ekki fyrir. Hitt er mögulegt, að ef einhver ný 6 manna n. settist niður til að reikna út framfærslukostnað og verð fyrir sjávarútveginn, að þá kæmu þaðan sanngjarnari verðákvörðunartill. en komu frá 6 manna n. landbúnaðarins.

Mér finnst yfir höfuð rétt fram tekið hjá hv. 7. þm. Reykv., að hér sé verkefni, sem eigi að vinna af þeim aðila, sem Alþ. ætlaðist til, þegar sett var í l., að Fiskifélag Íslands léti sérstaka færa menn hafa með höndum athugun á reikningsfærslu og reikningsskilum sjávarútvegsins. Ég álít því réttast, að slík stofnun taki að sér það verkefni, sem hér er um að ræða, eins og komið hefur fram í samþykktum Alþ. og hv. 7. þm. Reykv. benti á og var raunar viðurkennt af hv. flm., að ætti að vera.