30.10.1945
Sameinað þing: 4. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3677)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. hefur tekið fram nokkuð af því, sem ég vildi sagt hafa, og skal ég ekki við það bæta. En hv. 7. þm. Reykv. sagði og lagði á það áherzlu, að 6 manna n. álitið væri rangt og rangt vegna þess, að tekjur bænda væru reiknaðar of hátt miðað við tekjur verkamanna, og bar hann fyrir sig, að hann hefði talað við marga menn í sjávarþorpum, sem hefðu sagt þetta, og þess vegna væri hann viss um, að þetta væri svona. Nú skulum við líta á, hvernig hv. 7. þm. Reykv. annars vegar fær þessa staðhæfingu, og hins vegar, hvernig Þorsteinn Þorsteinsson hagstofustjóri fékk sína niðurstöðu. Hv. 7. þm. Reykv. vill halda því fram, að niðurstaða Þorsteins hagstofustjóra hafi verið alröng, en það, sem Pétur og Páll hafa sagt honum, hafi verið rétt. Og þó er Þorsteinn hagstofustjóri, eins og hv. þm. raunar veit, einn af þeim mönnum, sem sízt vildu láta nafn sitt fylgja niðurstöðu, sem hann er ekki viss um, að sé rétt. Hann fær tvo unga menn, er nú vinna hjá nýbyggingarráði, til þess að fara í skattaframtöl verkamanna og taka þær tekjur, sem þeir sjálfir hafa talið sér til tekna, og það er tekið reglulega tíunda hvert framtal verkamanna. Af þessu er svo tekið meðaltal, en landsmeðaltalið síðan af hinum meðaltölunum og þá tekið tillit til fjölda verkamanna á hverjum stað. Og nú getur hv. 7. þm. Reykv. sagt, að allir þeir verkamenn, sem hafa talið fram tekjur sínar og hvers skýrslur hafa verið lagðar til grundvallar meðaltali á þann hátt, sem áður segir, af Þorsteini hagstofustjóra, hafi talið rangt fram á þann hátt að telja tekjurnar of háar. Það er svo sem ekki verið að draga undan, heldur eru tekjurnar tíundaðar of hátt, segir hv. 7. þm. Reykv., og því sé kaup bændanna of hátt. Svona er þessi niðurstaða fengin. Hann ber m. ö. o. á brýn annaðhvort af tvennu, að allir þeir verkamenn, sem farið hefur verið í gegnum framtöl hjá, hafi talið rangt fram og reiknað tekjur sínar of háar, eða þessir tveir ungu menn hafi falsað tölurnar, þegar þeir fóru að vinna úr þeim, eða kannske misritað. Hvort hann vill heldur vera láta, veit ég ekki, en ég segi, að hvorugt sé rétt hjá honum. Þegar 6 manna n. álitið var gefið út, var byggt á meðaltali á verkamannakaupi um allt land, og ef hann fer í skýrslur, getur hann séð, að það eru mjög misjafnar tölur, sem koma frá einstökum stöðum, svo að það er allt annað mál, hvað meðaltalið er á hverjum einstökum stað, en hvað landsmeðaltalið er. Það er því sleggjudómur að bera Þorsteini hagstofustjóra það á brýn og þeim, sem unnu að þessu, að þeir hafi gefið út rangar upplýsingar. Slíkt er óleyfilegt í alla staði.