18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

16. mál, fjárlög 1946

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Nú hefur verið útbýtt nokkrum till. til viðbótar. Sú fyrsta þeirra, sem ég mun minnast á, er á þskj. 366 undir II. lið, byggingarstyrkur til Hellnakirkju 14 þús. kr., sem ég ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum um, þar sem ég hef áður talað um till. á þessu þingi. Ég vil geta þess, að þetta er fámennur söfnuður, ekki nema 66 gjaldendur, en hefur ráðizt í það þrekvirki að koma upp kirkju fyrir 60 þús. kr., og er söfnuðinum gersamlega ofvaxið að standa undir því. — Á sama þskj., V. lið, flyt ég till. ásamt 3 öðrum þm. Það er út af því, hvernig úthlutað skuli styrkjum til skálda og listamanna. Samkv. till. frá fjvn. var því breytt þannig við 2. umr., að Alþ. skyldi aftur taka úthlutunina í sínar hendur, og skyldi kjósa til þess 4 menn. Þetta hefur þótt óheppilegt fyrirkomulag og þingið hefur reynt að koma þessu starfi af sér, fyrst yfir á menntamálaráð og nú upp á síðkastið hefur það falið Bandálagi íslenzkra listamanna úthlutunina. Fjvn. bar fram fyrir síðustu umr. till. um breyt. á þessu, án þess þó að ræða það einu orði við þá aðila, sem þetta snertir mest, Bandalag íslenzkra listamanna og deildir þess. Stjórn Bandalagsins hefur lýst yfir óánægju sinni og hefur ritað bréf til Alþ., sem ég vil leyfa mér að lesa upp með leyfi hæstv. forseta :

„Þar sem stjórn Bandalags íslenzkra listamanna hefur orðið þess áskynja, að fram séu komnar till. á Alþingi um gagngerðar breytingar á fyrirkomulagi við úthlutun listamannastyrkja, verður stjórn Bandalagsins að láta í ljós nokkra undrun yfir því, að ekkert skuli hafa verið við hana rætt um þetta mál. En ef hið háa Alþingi óskar eftir breytingum frá núverandi skipulagi, leyfum við okkur að gera eftirfarandi tillögur: Skipuð verði 5 manna nefnd, er hafi á hendi úthlutun styrkja til listamanna. Sé einn valinn af hverju þessara félaga: Félagi íslenzkra leikara, Félagi íslenzkra tónlistarmanna, Félagi íslenzkra myndlistarmanna og Rithöfundafélagi Íslands og hinn fimmti af menntamálaráði. Vonum við fastlega, að hið háa Alþingi virði þessar tillögur Bandalagsins.“

(SkG: Hvers vegna á að skilja annað rithöfundafélagið eftir?). Þessi uppástunga er byggð á því, að þau félög, sem eru í Bandalagi íslenzkra listamanna, tilnefni mann. En allir rithöfundar koma til greina við úthlutun styrksins. Það þarf ekki að tala meira um þetta mál, það hefur oft verið rætt hér í þinginu. En það er eins og sumir hv. þm. komist út úr jafnvægi þegar þessi mál eru rædd, og höfum við þegar heyrt vott þess á því framígripi, sem gert hefur verið. En ég tel það skipulag að fela Alþ. að úthluta þessu á ný ekki heppilegt. Það hefur að vísu áður verið fellt, að nokkrir listamenn væru teknir inn á 18. gr. og yrðu þar þá ævilangt. Hér er ekki um það að ræða, heldur úthlutun þess styrks, sem veittur er á 15. gr.

Næsta till., sem ég flyt ásamt 1. þm. Reykv., er á sama þskj., VI. liður. Hún er um að hækka nokkuð styrk til tónlistarskólans í Reykjavík. Við leggjum til, að styrkurinn hækki í 15 þús. kr. úr 10 þús. og verðlagsuppbót í samræmi við það. Skólinn hefur vaxið svo, að nú eru í skólanum 250 nemendur og 14 kennarar, svo að það er bersýnilegt, að þegar skólinn er orðinn svona stór; þá þarf hann mikið starfsfé. Er því ekki ósanngjarnlega í sakirnar farið með þessari till.

Á sama þskj. (þskj. 366) undir VIII. lið flyt ég smátill., sem ég vil skýra nánar frá. Í fjárlfrv. er gert ráð fyrir 15 þús. kr. fjárveitingu til styrktar- og sjúkrasjóða samkv. úthlutun félmrn. Áður fyrr var þetta sundurliðað í fjárl., en nú hefur verið fallið frá því og er ætlazt til þess, að félmrn. úthluti fé þessu. En nú hefur farið þannig um einn slíkan sjúkrasjóð, þ. e. hjúkrunarfélags Ólafsvíkurhrepps, að styrkur, sem veittur var til hans á fjárl. 1942 og 1943, hefur ekki fengizt greiddur enn þá. Er ástæðan sú, að um þetta leyti var héraðslæknirinn í Ólafsvík veikur og féll frá, og var því ekki unnt að skila þeim skýrslum til rn., sem ætlazt er til, að gert sé, áður en styrkur er greiddur. Ég hef þess vegna fengið rn. í hendur skýrslur um starfsemina á þessum árum, en þar kemur fram, að félagið hefur starfrækt þarna sjúkrastofu og einnig veitt nokkurn styrk til sjúklinga. En þegar skýrslum var skilað eftir lát héraðslæknisins, taldi ráðuneytið sér ekki fært að greiða þennan styrk, af því að þetta væri orðið svo gamalt. Hér er því aðeins um það að ræða að endurgreiða 300 kr. fyrir hvort árið, eða 600 kr. samtals.

Á sama þskj. undir XII á ég till., þar sem farið er fram á lífeyri til kennaraekkju. Fyrir nokkru féll frá Bergsveinn Haraldsson, kennari í Ólafsvíkur- og Fróðárhreppi. Lét hann eftir sig konu og sex börn. Hann hafði verið kennari síðan árið 1922, fyrst í Fróðárhreppi og síðan settur kennari í Ólafsvík, en fáeinum árum áður en hann féll frá, var staðan veitt öðrum umsækjanda af ástæðum, sem ég fer hér ekki út í. Af þessum ástæðum hefur svo til tekizt, að ekkja hans hefur, ekki rétt samkv. l. til greiðslna úr lífeyrissjóði barnakennara og hefur fengið úrskurð um það. Hins vegar hefur oft verið farin sú leið í slíkum tilfellum sem þessu að taka þetta upp í fjárl., eins og sjá má af 18. gr. fjárl. Till. mín er á þá leið, að ekkjan fái sama styrk og ef maður hennar hefði haft réttindi til lífeyrissjóðsins, þegar hann dó, eða kr. 200 fyrir hana og samkv. upplýsingum frá lífeyrissjóði kr. 850, sem greiddar eru með hverju barni innan 16 ára aldurs. Ég vænti þess, að þessi till. nái samþykki hv. þm., en ef talið er, að þetta sé of langt farið, flyt ég varatill. miðaða við, hvað ekkjan hefði fengið samkv. l., ef maður hennar hefði verið hættur störfum áður en hann dó. Ég hef í dag fengið bréf frá fræðslumálastjóra, þar sem hann mælir með því, að hæstv. Alþ. verði við þessari beiðni, m. ö. o., að ekkjan fái styrk frá Alþ. samsvarandi og ef hún hefði haft rétt til greiðslu úr lífeyrissjóði barnakennara, ef hann hefði verið starfandi kennari, þegar hann dó, en hann var hættur skömmu áður, m. a. vegna veikinda og sökum misréttis, sem hann taldi sig hafa verið beittan.

Loks flyt ég á sama þskj. brtt. XIV, sem undarlegt er, að skuli þurfa að flytja. Flyt ég hana ásamt hv. þm. Dal. (ÞÞ), og er hún um lífeyri handa Magnúsi Friðrikssyni hreppstjóra og konu hans. Ég þurfti einnig í fyrra að verja þessi hjón fyrir ágengni hv. fjvn., og nú aftur hefur lífeyrir þeirra verið lækkaður. Það hefur verið samningsbundið við þessi hjón, að þau fengju 3000 kr. í lífeyri. Hins vegar hafa að jafnaði verið greiddar uppbætur á þennan lífeyri eins og annað, síðan byrjað var á að greiða þær, og alveg í samræmi við þetta er fjárlfrv., en þar er grunnstyrkur áætlaður 3874 kr., að viðbættri verðlagsuppbót, en samkv. bréfi frá fjmrh. hefur sú venja verið viðhöfð við þessi hjón. Nú fékk hv. fjvn. það hins vegar samþ. við 2. umr. þessa máls að fá þennan lið skorinn niður, þannig að hjónin fá nú ekki verðlagsuppbót greidda á styrkinn. Flytjum við því till. um að færa þetta í sama horf og áður var í frv. og væntum þess, að hv. þm. fari ekki svo langt að lækka stórkostlega þennan lífeyri, sem hjónin hafa notið undanfarin ár. Að vísu skal ég viðurkenna, að það var ekki samningsbundið að greiða verðlagsuppbót, þegar gerðir voru samningar við þessi hjón, en þá var ekki heldur um slíkar uppbætur að ræða. En þessari reglu hefur verið haldið öll styrjaldarárin og er ætlazt til, að svo verði gert áfram eða meðan slíkar uppbætur eru greiddar.

Þá á ég tvær brtt. á þskj. 369. Aðra flyt ég ásamt 3 öðrum hv. þm. og er hún vegna Stefáns Einarssonar prófessors í Baltimore fyrir samningu kennslubókar í íslenzku á enska tungu. Er þetta mjög góð og þýðingarmikil bók og hefur hann, að því er mér hefur verið tjáð, ekki fengið nein laun fyrir þetta mikla verk sitt. Hefur hann nú skrifað hingað og farið fram á 1500$ viðurkenningu fyrir þetta, og flytjum við því till. um, að hann fái 10000 kr. í þessu skyni, og til vara 7000 kr.

Loks flyt ég III. brtt. á sama þskj. um 1000 kr. fjárveitingu til skrúðgarðs kvenfélagsins í Stykkishólmi. Hefur mér borizt bréf um þetta efni frá kvenfélaginu Hringnum þar, en það hefur unnið nokkur ár að því að koma upp þessum skrúðgarði, sem er hin mesta bæjarprýði, og er nú ætlunin að stækka hann að allverulegu leyti. Er hér um að ræða smávægilegan styrk og er þetta samsvarandi till. og hér hefur verið veitt til skrúðgarðs í Borgarnesi.

Ég vænti þess, að brtt. mínar fái góðar undirtektir hv. þm., og þeir sjái, að hér er um fullkomnar sanngirniskröfur að ræða, sérstaklega hvað snertir lífeyri kennaraekkjunnar og þeirra Staðarfellshjóna, Magnúsar Friðrikssonar og konu hans.