05.11.1945
Sameinað þing: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (3681)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Í sjálfu sér væri ekki mikið tilefni til að halda þessum umr. áfram, ef hv. þm. Vestm. hefði ekki farið svo vitt um í síðari ræðu sinni. Mál þetta var í raun og veru nokkurn veginn útrætt þegar hv. þm. tók upp þann hátt að draga inn í það atriði, sem að vísu voru málinu skyld, en ég fyrir mitt leyti ætlaði ekki að blanda inn í málið þ. e. verðlags- og dýrtíðarmálin í landinu og ástæðurnar fyrir því, að svo er komið sem komið er. Ég tók fram í upphafi, að ég teldi ekki heppilegt að blanda þessu inn í þetta mál, því að hér skipti mestu máli að fá glögga vitneskju um það, hvar við stöndum nú í þessum efnum. En fyrst hv. þm. Vestm. vildi endilega ræða þetta mál þannig, að blanda inn í það öðrum atriðum, get ég gjarna gert honum það til þægðar að fara nánar út í það.

Eftir að ég hafði flutt mína fyrstu ræðu, hélt hv. þm. Vestm. því fram, að ég hefði sagt, að það væri mikið tjón fyrir sjávarútveginn, að þessi rannsókn hefði ekki farið fram fyrr, því að álit 6 manna n. hefði litið allt öðruvísi út, ef það hefði verið búið. Þetta sagði ég aldrei, og þetta er því hreinn tilbúningur hv. þm. Ég hef yfirleitt ekki sett þetta mál neitt í samband við 6 manna n. álitið. Þetta er tilbúningur, sem ég gæti bezt trúað, að hv. þm. væri nú sjálfur farinn að trúa og skilur því ekki, að ég skuli vera svo óbilgjarn að viðurkenna þetta ekki. Ég hélt ég hefði í síðustu ræðu minni rætt þetta atriði, svo að hv. þm. Vestm. hefði mátt vel við una. Ég sagði, að sjávarútvegurinn hefði beðið stórtjón af því, að þessi mál hefðu ekki verið rannsökuð ofan í kjölinn fyrr, því að þá hefðu sumir hv. þm., þar á meðal t. d. hv. þm. Vestm., hikað við að stíga svo dýrtíðardansinn undanfarin ár ásamt kommúnistum eins og þeir hafa gert. Þeir hefðu hikað við að gera það, ef þeim hefði verið ljóst, hvert stefnt var. Þetta sagði ég. Ég skal gjarna undirstrika þau 4–5 atriði, í sambandi við þetta mál, sem hv. þm. Vestm. hefur tekið upp. Hann sagði, að verðbólgan og kapphlaupið í dýrtíðarmálunum hefði byrjað við það, er landbúnaðarvörurnar voru teknar út úr gengislögunum að ófyrirsynju og vegna frekju þeirra, sem töldu sig málsvara bændastéttarinnar. Þetta er efnislega rétt haft eftir hv. þm. Árið 1940 var gengislögunum breytt þannig, að sú regla var tekin upp að borga alla vísitöluhækkun á allt kaupgjald og hætta að binda verðlag landbúnaðarvaranna. Þetta var gert vegna þess, að ekki þótti fært að binda verðlag landbúnaðarvara við framfærsluvísitölu í kaupstöðum, því að ekkert samræmi er milli þess, hvað framfærslukostnaður vex og hvað framleiðslukostnaður landbúnaðarvara vex. Og það hlaut að verða að hafa á þessum málum mismunandi mælikvarða. Og þótt hv. þm. Vestm. sé að taka þetta fram nú, til þess að draga athyglina frá því, hvernig komið er fyrir honum og öðrum, sem fylgt hafa þessari stefnu, þá er sannleikurinn sá, að hv. þm. Vestm. og fylgismenn hans fylgdu þessum ráðstöfunum, sem þeir telja, að séu undirrót dýrtíðarinnar í landinu. Karlmennskan er ekki meiri en þetta. Þeir vilja nú algerlega sverja sig frá því, sem þeir gerðu þá. Og til viðbótar því, sem hv. þm. Vestm. sagði og sérstaklega snertir hv. þm. Vestm., vil ég ítreka það, að hv. þm. hefur ekki aðeins samþ. l. um 6 manna n., heldur einnig allar þær greiðslur, sem greiddar hafa verið til landbúnaðarins í sambandi við dýrtíðarmálin og byggðar hafa verið á 6 manna n. álitinu. En nú sýnir hv. þm. manndóm sinn með því að ausa sér yfir alla, sem hafa fylgt því sama og hann. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. þm. verði tekinn alvarlega úr þessu. Þegar hv. þm. ræddi þetta mál, lét hann eins og það kæmi þessu máli við, hvernig mér hefði tekizt að stjórna málum landsins fyrir styrjöldina. Ég get svo sem gert honum það til þægðar að víkja örlítið að þessu efni.

Það vita allir, að fyrir styrjöldina áttu Íslendingar í mörg ár við mikla gjaldeyriserfiðleika að stríða. Þegar þetta lá fyrir, var um tvær leiðir að velja. Önnur leiðin var sú að takmarka innflutning á miður nauðsynlegum vörum, til þess að hægt væri að afla þess nauðsynlegasta til framleiðslunnar og nýrra tækja. Hin stefnan var aftur á móti sú að afnema öll innflutningshöft og leyfa hverjum að flytja inn það. sem hann vildi. Það hefði leitt til þess, að minna hefði verið flutt inn af nauðsynjum og yfirfærslur hlotið að stöðvast innan stutts tíma. Ég fylgdi fyrri stefnunni, en hv. þm. Vestm. þeirri síðari, þeirri, að leyfa mönnum að kaupa það, sem þá langaði til, hvort sem það var nauðsynlegt eða ónauðsynlegt. Hv. þm. Vestm. þóttist a. m. k. vilja þetta þá, vegna þess að hann hélt það vænlegt til að auka óánægju manna að geta bent á þetta eða hitt, sem einhverjum hefði verið bannað að kaupa, og kallaði þetta Eysteinskuna í framkvæmd. En ef hann hefði fengið að ráða eða hans stefna, þá hefði þessu ekki verið til að dreifa, þá hefðu allir fengið allt. Það er alveg rétt, að á árunum fyrir styrjöldina var innflutningur skorinn niður og margir fengu ekki að kaupa það, sem þeir óskuðu. En það er hægt að sanna það með hagskýrslum, að aldrei í sögu þjóðarinnar hefur verið flutt meira inn í landið af nýjum framleiðslutækjum. Hitt er svo annað mál, að menn hefðu gjarnan viljað fá meira. En það var ekki hægt að greiða það. Það er alveg sama, þótt hv. þm. Vestm. tönglist á þessu, þetta er staðreynd, og hún breytist ekki þrátt fyrir það, enda er það viðurkennt nú af öllum sanngjörnum mönnum í landinu, hvaða flokki sem þeir tilheyra. Með þessu móti varð hjá því komizt, að nokkurn tíma skorti í landinu brýnustu nauðsynjar, svo að heitið gæti, þrátt fyrir hinn óvenjulega gjaldeyrisskort. Og hv. þm. Vestm. má hafa sig allan við í nýsköpunarmálunum, ef hlutfallið á að verða betra á því tímabili, sem hann hefur með stjórn þessara mála að gera, og eru þó tímarnir ólíkir.

Nú er svo ástatt í veröldinni, að ýmsar þjóðir búa við gjaldeyrisskort. Til hvaða ráða hafa þær gripið? Hvað gera Bretar nú? Þeir hafa gripið til Eysteinskunnar. Þeir reka alveg nákvæmlega sömu pólitík og við fyrir styrjöldina. Og við þurfum meira að segja ekki að fara svo langt að vitna til Breta, það er hægt að vitna til þess, sem nær er. Það er hægt að vitna til þessara manna, sem hafa viljað leyfa öllum að kaupa það, sem þá hefur langað til. Hvað gerðu þeir á s. l. ári, þegar búið var að eyða 120–130 millj. kr. af dollarainneign okkar í Bandaríkjunum? Þeir, og þar á meðal hv. þm. Vestm., settu takmörkun á innflutning frá Ameríku. Og þeir gerðu þetta til þess, eftir því sem þeir segja, að tryggja það, að gjaldeyrinum verði varið til þess að kaupa vélar og annað efni, en verði ekki eytt fyrir ónauðsynlega vöru. Þeir hafa sem sagt gripið til Eysteinskunnar. Ég er ekki að deila á þá fyrir þetta. Ég er aðeins að sýna, hvernig hv. þm. Vestm. er staddur með þennan málflutning, og ég vil ráðleggja honum að fara sér hægar næst, þegar hann stendur upp.

Það var ekki fögur lýsing, sem hv. þm. Vestm. gaf í ræðu sinni á innbyrðis ástandinu í Sjálfstfl. Lýsingin var á þá leið, að þeir væru neyddir til að gera þetta og neyddir til að gera hitt. Svo stendur hv. þm. hér og fordæmir allt, sem Sjálfstfl. hefur gert á undanförnum árum. Sjálfstfl. var píndur til 1940 að samþ. að taka landbúnaðarvörurnar út úr vísitölunni. Sjálfstfl. var neyddur til að samþ. 6 manna n. álitið og allt annað framferði í sambandi við það. Og að lokum varð hv. þm. að ganga undir það jarðarmen að samþ. fjárframlög úr ríkissjóði til að ívilna með óhæfilegu móti einni stétt landsins, bændastéttinni. Þetta er fögur sjálfslýsing og fögur lýsing á þeim flokki, sem hv. þm. er í. Ætli hv. þm. hefði ekki verið nær að benda fyrr á þessa óhæfu, sem hann telur, að hér hafi verið framin. Og ætli það hefði ekki verið betra fyrir hv. þm. að þegja, úr því sem komið var. Hv. þm. sagði, að Framsfl. hefði neytt Sjálfstfl. til að samþ. gerðardómsl. Það væri fróðlegt, ef maður hefði við höndina lýsingu þá, sem þáv. fjmrh. Sjálfstfl. og núverandi forsrh. hans gáfu á því máli. Ef bera á saman þá lýsingu núv. hæstv. forsrh. og það, að hann hafi verið neyddur til þeirra framkvæmda, sannar það ekkert annað en hvað sá maður getur talað um hug sinn. Hann lýsti þessum aðgerðum ekki aðeins sem mikilli nauðsyn, heldur stimplaði hann alla menn óvini þjóðfélagsins, sem beittu sér á móti þessari leið. Þetta segir svo hv. þm. Vestm., að Sjálfstfl. hafi verið neyddur til að gera. Það skýtur nokkuð skökku við það, sem áður var látið í veðri vaka. Svo heldur hv. þm. Vestm. áfram lýsingunni og segir, að eftir að Framsfl. hafi verið búinn að neyða Sjálfstfl. til að ganga inn á gerðardómsl., þá hafi hann hlaupið út úr ríkisstj. og skilið Sjálfstfl. eftir einan með þessa óhæfu. Þetta er þokkaleg meðferð og fögur lýsing! Sem sagt, Framsfl. skildi Sjálfstfl. einan eftir við framkvæmd gerðardómslaganna. En hvað er nú rétt í þessu máli? Það er það, að Sjálfstfl. hafði a. m. k. ekki minni áhuga fyrir gerðardómsl. en Framsfl. Og hitt er vitað, að Sjálfstfl. sveik Framsfl., þegar hann tók upp kjördæmamálið gegn gefnu loforði, en það var málið, sem sundraði stjórnarsamvinnunni. Og þá var það, að Sjálfstfl. valdi þann kost að mynda stjórn með hlutleysi Alþfl. og kommúnista og gaf þeim það loforð að gera ekki neitt til þess að halda þá löggjöf, sem þeir voru nýbúnir að samþ. Ég veit satt að segja ekki, hvort betra er fyrir Sjálfstfl., að það sé satt, sem ég segi um þetta mál, eða það, sem hv. þm. Vestm. segir. Ég veit ekki, hvort er betra fyrir Sjálfstfl. að láta neyða sig til að breyta í öllu gegn betri vitund, eins og hv. þm. Vestm. fullyrðir, að hann hafi gert, eða hitt, að Sjálfstfl. hafi þó um tíma ætlað að sýna manndóm og viljað stöðva dýrtíðina, þótt hann gæfist upp við það. Ég legg ekki mikið upp úr því, hvort hv. þm. Vestm. vill telja sér trú um.

Ég sagði það áðan, að það hlyti að vera eitthvað sérstakt, sem ræki jafnskynsaman mann og hv. þm. Vestm. til að halda jafnfáránlega ræðu og þá, er hann flutti hér áðan í sambandi við þetta mál. Honum hlýtur að finnast hann vera staddur í einhverri sérstaklega slæmri klípu og grípur því til hinna fáránlegustu neyðarúrræða til að reyna að losa sig úr henni. Sannleikurinn er sá, að það er alltaf að koma greinilegar og greinilegar í ljós, hvert stefna sú, sem Sjálfstfl. hefur stutt og beitt sér fyrir, leiðir fyrir sjávarútveginn. Og hv. þm. getur hreint ekki á heilum sér tekið nú orðið yfir því, hvernig komið er í þessum málum, og telur það lífsnauðsyn að geta falsað söguna og velt allri sökinni yfir á aðra. Það er þetta, sem hv. þm. er að gera tilraun til að gera. Hv. þm. sér, að það er sannleikur, og það er ekki um það deilt lengur, að verðbólgan hvílir eins og myllusteinn um háls sjávarútvegsins, og þá reynir hann að koma því þannig fyrir, að myllusteinninn, sem bundinn hefur verið um háls sjávarútveginum, bindist ekki einnig um háls hv. þm. Vestm. Það er þetta, sem hv. þm. er að reyna, og vegna þessa ætla ég að rekja með örfáum orðum feril Sjálfstfl. í þessu efni til þess að sýna, hve ófimlega hv. þm. tekst að snúa staðreyndunum við.

Árið 1940 kröfðust framsóknarmenn, að sett yrði dýrtíðarlöggjöf, sem miðaði að því að stöðva dýrtíðina, sem þá var 141 stig. Þar var gert ráð fyrir, að stofnaður yrði dýrtíðarsjóður, sem skyldi síðan notaður til að taka af þær hækkanir á verðlagi, sem óumflýjanlegar voru. Sjálfstfl. stóð að þessu ásamt Framsfl., en reyndi þó að gera dýrtíðarsjóðinn sem aumastan með því að vera á móti sem flestum tekjuöflunarleiðum, sem fyrir hendi voru. Síðast fengust þó samþ. fyrir atbeina Framsfl. l., sem heimiluðu ríkisstj. að gera ráðstafanir í þessa átt. Ég gerði það að till. minni 1940, að þessi heimild yrði notuð, en ráðh. Sjálfstfl. stóðu gegn því, að þessi tilraun yrði gerð. En nú hefur orðið sú hlutverkaskipting, að þessir sömu menn standa fyrir niðurgreiðslum úr ríkissjóði vegna verðbólgunnar, þegar 10–20 sinnum meira fé þarf til að hafa sömu áhrif á dýrtíðina en þá. Þá hefði 1 millj. haft svipuð áhrif og 10–20 millj. nú. En þá stóðu ráðh. Sjálfstfl. í vegi fyrir, að þetta yrði gert. Og ráðh. Sjálfstfl. aftóku þetta vegna þess, að þeir sögðu, að meðan kaupgjald og afurðaverð í landinu væri óbundið og gæti því hækkað, gætu niðurgreiðslurnar orðið að engu. Ég sagði, að við skyldum bæta úr þessum ágöllum með því að fara sömu leið og farin er í öllum löndum í kringum okkur, setja 1. um, að ekki megi hækka kaupgjald og verðlag, og nota sjóðinn til niðurgreiðslna á aðfluttum vörum, sem óhjákvæmilega urðu að hækka. Sjálfstfl. tók því vel að kalla saman aukaþing 1941. Og þegar aukaþingið kom saman, vissi ég ekki annað en að forkólfar Sjálfstfl. væru stuðningsmenn þessarar löggjafar. En þegar til þings kom, þá rann Sjálfstfl. frá öllu saman og gengur á móti frv. og fellir það. Og það var þá, sem þjóðstjórnin sagði af sér, þótt hún tæki að sér að sitja til bráðabirgða til þess að forðast vetrarkosningar. Síðan var málið tekið aftur upp með gerðardómsl. 1941–42, og skyldu þau framkvæmd af Sjálfstfl. og Framsfl. sameiginlega. Síðan heldur slíku áfram. Eftir kosningarnar 1942 kemur ofurlítið hlé, sem fengið er með neyðarráðstöfunum. En hvað gerist þá? Þegar til þess kemur að gera það upp 1944, hvort menn vilja heldur stöðva dýrtíðina eða ekki, þá er það búnaðarþingið og forráðamenn Framsfl. og sumir af forráðamönnum Sjálfstfl., sem mæla með því, að verðlag landbúnaðarafurða lækki, gegn því, að aðrar stéttir geri ráðstafanir til þess að lækka framleiðslukostnaðinn í öðrum greinum. Þetta er boðið fram af hendi bænda. En hvað gerir Sjálfstfl. þá? Hann tekur þetta tilboð, sem búnaðarþingið gerði, og misnotar það blygðunarlaust til þess að kaupa menn inn í ríkisstj. með því loforði, að verðbólgan yrði ekki stöðvuð, heldur að þeir fengju kauphækkanir, sem hlaut að reisa nýja verðbólguöldu. Í þriðja eða fjórða sinn er það, að Sjálfstfl. bregzt í dýrtíðarmálunum. Það var sagt þá, að þessar nýju ráðstafanir mundu ekki hafa í för með sér hækkun á vísitölunni. Staðreyndirnar tala öðru máli. Við höfum séð nú í haust, að vísitalan hefur hækkað upp í 285 stig. Þess vegna er það engin furða, þótt hv. þm. Vestm. — og honum er vorkunn — sé að reyna að finna einhverjar afsakanir og reyni að klóra í bakkann fyrir það, sem hann hefur gert. En ég vil aðeins benda hv. þm. á það, að sá málflutningur, sem hann hafði hér áðan, gerir aðeins illt verra fyrir hann og hans flokk, sem hann telur sig tala fyrir.