20.02.1946
Neðri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (3685)

13. mál, botnvörpu- og dragnótaveiðar í Faxaflóa

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það var alveg óþarfi fyrir hv. frsm., þm. Vestm., hvað mig snerti, að vera að lesa hér upp álit fiskifræðingsins, þegar af þeirri ástæðu, að ég hef séð það álit, og auk þess er þetta prentað upp í nál. því, sem hv. frsm. hefur skrifað: — Ég þarf svo engu við það að bæta, sem ég hef sagt um það, að þessi skoðun, sem fram kemur í þessu hjá fiskifræðingnum, er í ósamræmi við hans fyrri skoðun í þessu máli. Og þó að hann sé fræðimaður á þessu sviði, þá höfum við leikmennirnir fullan rétt á því líka að dæma um hans álit að þessu leyti. — Þess vegna var þessi lestur hv. frsm. óþarfur. Mér var þetta álit kunnugt áður.

Hv. frsm. heldur enn fram þeirri kórvillu, að samþykkt þessa frv. mundi ekki færa okkur nær því marki að fá Faxaflóa algerlega friðaðan fyrir þessum veiðum. En þar eru algerlega skiptar skoðanir hjá honum annars vegar og mér og sjómönnum þessa lands yfirleitt hins vegar. Náttúrlega verður það ofan á í þessu máli, sem meirihlutafylgi hefur hér á hæstv. Alþ. Og ég vona í lengstu lög, svo mikilsvert sem þetta mál er fyrir okkur, að það sjónarmið, sem að mínum dómi og sjómannastéttarinnar yfirleitt er hagkvæmara fyrir land og lýð, verði ofan á við afgreiðslu þessa máls hér á hæstv. Alþ. — Nú er vitað, að sá stærsti aðili, sem við þurfum að eiga við í þessu tilliti, Englendingar, þeir ættu öðrum fremur að skilja, hvað við leggjum mikið upp úr því að fá Faxaflóa alfriðaðan fyrir þessum veiðum, ef við fórnum þessum hagsmunum, sem botnvörpu- og dragnótaveiði í Faxaflóa er, til þess að reyna að komast nær því marki að fá hann í því efni alfriðaðan, þar sem þeir hafa einmitt farið sjálfir alveg inn á sömu braut að því er snertir sérstök fiskisvæði hjá þeim. Þeir eru bundnir af alþjóðalögum um landhelgina, eins og við, og gátu þess vegna ekki gert ráðstafnir um að friða svæði utan landhelginnar nema fyrir sínum þegnum. Og það gerðu þeir, eins og hv. frsm. drap á hér, í gær. Þeir friðuðu Moray-flóa fyrir sínum eigin mönnum. Þess vegna á friðun Faxaflóa fyrir veiðum Íslendinga að geta verið sterk rök gagnvart Englendingum, sem gert hafa slíkt hið sama hjá sér gagnvart sínum eigin mönnum. Og ef okkur tekst að fá þá til að skilja okkar mál í þessu efni, ef till. mínar verða samþ., þá ættu þeir, sökum sinnar fortíðar í hliðstæðu efni hjá sér, að skilja, hvað um er að vera hér af okkar hálfu, og svo taka málið til úrslita út frá því. Þetta efast ég ekkert um.

Ég skal svo ekki níðast á þolinmæði hæstv. forseta meira en ég þegar hef gert viðkomandi ræðutíma hér. En ég vona, að gifta lands vors sé það mikil, að það verði ekki skammsýnin, sem fær að ráða í þessu máli, er til úrslitanna kemur, — það er málstaður skammsýninnar, sem hv. frsm., þm. Vestm., hefur haldið hér uppi, — heldur verði það innsýnin inn í framtíðina, sem markar afstöðu manna hér á hæstv. Alþ. til þessa máls.