15.11.1945
Efri deild: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (3697)

87. mál, vinnuskóli á Reykhólum

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti, Ég bar fram á síðara aukaþingi 1942 frv. um, að settur væri skóli á Reykhólum, og fékk hv. landbn. Ed. málið til meðferðar á því þingi. Þá þótti málið ekki nægilega undirbúið, og hv. landbn, afgr. það með rökst. dagskrá, sem hljóðaði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Í trausti þess, að fram verði látinn fara hið bráðasta ýtarlegur undirbúningur að lagasetningu um framtíðar-menningarstarfsemi á Reykhólum og á þann hátt fáist öruggur grundvöllur undir þá starfsemi, leiðir deildin hjá sér frekari afgreiðslu málsins nú og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“ Var þessi dagskrártill. samþ.

Á þessu sama þingi var borin fram till. til þál. um það, að það skyldi skipa n. til þess að undirbúa bæði löggjöf og till. um framtíðarafnot jarðarinnar Reykhóla. Þessi þáltill. var samþ. og n. skipuð, 5 manna n. Þessi n. skilaði síðan áliti, og var hún algerlega sammála um það, hvernig ráðstafað skyldi þessari eign, og lagði fram ákveðnar till. í því máli, sem voru í þá átt, að reisa skyldi á Reykhólum tilraunastöð í jarðrækt fyrir Vesturland. Fylgdi með ýtarleg grg. frá n., sem einnig lagði til, að ákveðinn hluti jarðarinnar skyldi hagnýttur undir skólabyggingu, þannig að þar skyldi komið á fót vinnuskóla, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Mþn., sem í þetta mál hafði verið kosin og gert þessar till., samdi frv. um það, og fylgdi því ýtarleg grg. frá n., svo og álit og till. Reykhólanefndarinnar og einnig lýsing jarðarinnar. Bar ég síðan fram frv. þetta á síðara þingi 1943, og er þetta frv., sem hér liggur fyrir, hluti af því frv. Þetta frv. á þinginu 1943 fékk ekki heldur afgreiðslu í þessari hv. d. þá. Hv. landbn. þessarar d. fékk málið þá enn til meðferðar og áleit málið enn ekki nógu vel undirbúið. Fékk landbn. um það umsögn fræðslumálastjóra, sem mælti mjög eindregið með því, að Reykhólar yrðu gerðir að skólasetri og tilraunastöð í jarðrækt, en taldi, að það þyrfti að athuga nokkru nánar, ýmis nýmæli, sem kæmu fram í frv. Einnig fékk n. málið Búnaðarfélagi Íslands til athugunar og umsagnar, og mælti stjórn félagsins eindregið með því að frv. yrði samþ. Að fengnum þessum upplýsingum fannst hv. landbn. þessarar hv. d. rétt, að málið yrði athugað enn betur. Afgreiddi hún því ekki frv., en lagði til, að málið yrði sent mþn. í skólamálum, sem einmitt það sumar sat að Laugarvatni til þess að athuga fræðslukerfi landsins. Málið var því afgr. frá þessari hv. d. með þál., þar sem mjög er tekið undir það, að þessu máli sé hrundið í framkvæmd, en lagt til, að málið fái nauðsynlegan undirbúning, til þess að komizt yrði hjá erfiðleikum síðar, meir í sambandi við þessar framkvæmdir. Þegar hér var komið, ræddi ég um þetta mál við mþn. í skólamálum. Henni hafði verið sent þetta mál til athugunar í janúar, samkv. ósk hv. Ed. Alþ. En þegar komið var fram í september sama ár, hafði n. enn ekki haft þann áhuga fyrir málinu, að hún hefði getað haldið saman skjölum, sem um þetta mál höfðu verið henni send, svo að hún varð að fá þessi skjöl á ný. Og sú n. afgr. málið frá sér þannig að segja, að hún gæti ekki sagt neitt um þetta mál að svo stöddu.

Mér þótti þessi afgreiðsla heldur léleg, eftir þann áhuga, sem hér hefur komið í ljós á hæstv. Alþ., og eftir að n. hafði fengið ótvíræðar fyrirskipanir um það að taka málið til athugunar og segja álit sitt, og eftir að sama n. hafði fengið öll skilríki frá Búnaðarfélaginu og þeim mönnum, sem hafa haft með þetta mál að gera, t. d. mþn., og getað kynnt sér eftir þessum gögnum ekki aðeins nauðsyn málsins, heldur og þann velvilja, sem ríkti hjá öllum öðrum aðilum, sem hafa snert á málinu. Þegar hér var komið, sá ég mér ekki annað fært en kljúfa málið eins og það var sett fram í upphafi og bera hér fram á Alþ. frv. til 1. um að koma á fót tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum, eins og Reykhólanefndin hafði lagt til. Þetta mál var svo borið hér fram og mætti velvilja þessarar hv. d., eins og frá upphafi, og var samþ. hér, að þessari stofnun skyldi komið á fót á Reykhólum. Svo miklu þótti þessari hv. d. það varða, að þessu máli yrði hrundið áfram, að hún taldi, að það mætti ekki bíða stundinni lengur.

Ég hef talið mér skylt að bera fram síðari hlutann, sem er hinn veigameiri hluti þessa máls, að komið sé upp þessum skóla, sem mþn. lagði til á sínum tíma, að yrði komið upp á. Reykhólum. Í þessu felast mjög mörg nýmæli, t. d. till. frá þm. S.-Þ. um mjög hátt framlag til þess að koma þessari hugmynd í framkvæmd einnig í sambandi við marga aðra skóla landsins.

Ég vil vænta þess, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, byrji ekki á því fljótræði að senda þetta. mál til mþn. í fræðslumálum, en hún starfar enn, því að það væri vitanlega sama og að molda málið enn, því að hún hefur sýnt, að hún hefur enga löngun til þess að koma þessum nýmælum í framkvæmd, og yrði það bara til þess að tefja málið að fara eftir tillögum manna í fræðslumálum, sem ekki vilja setja sig inn í þau gögn, sem þeim hafa verið send, og hirða ekki um, hvort þau týnast eða ekki, meðan ekki er búið að afgreiða málið. Ég vænti, að viðkomandi n. sýni málinu fullkominn skilning og afgr. það svo snemma, að það geti orðið að 1. á þessu þingi, því að vilji þingsins er áreiðanlega sá, að þetta mál nái fram að ganga.

Þetta mál hefur áður legið í landbn., og ég geri það ekkert að kappsmáli, hvort það fer í þá hv. n. eða t. d. menntmn., og mun lúta þar úrskurði hæstv. forseta, ef hann telur, að málið eigi frekar heima í menntmn. En hvor n. sem fær það til meðferðar, vænti ég, að það verði athugað vel og því hraðað svo, að það geti fengið afgreiðslu á þessu þingi í báðum deildum.