07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (3711)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Allshn. hefur látið uppi álit sitt á þskj. 367 um þá till., sem hér um ræðir á þskj. 55. Þegar n. fékk þessa till. til meðferðar, leitaði hún að sjálfsögðu álits þeirra næstu aðila, sem unnt var að kveðja til ráðuneytis varðandi þetta mál, og var það þá fyrst og fremst fiskiþingið, sem átti setu um þetta leyti, og svo farmanna- og fiskimannasambandið. Fiskiþingið eða Fiskifélagið fyrir þess hönd svaraði 5. des. og vísaði til ályktunar, sem fiskiþingið hafði gert áður en till. þessi frá Alþ. var send þeim til umsagnar. En álit fiskiþingsins að öðru leyti fer mjög í sömu átt og þáltill. Ályktunin, sem þar var gerð, hljóðar þannig: „Fiskiþingið felur stjórn Fiskifélagsins að hlutast til um, að reiknað sé út, svo fljótt sem verða má, hve mikið verðlag og framleiðslukostnaður hinna ýmsu sjávarafurða hafi breytzt síðan á árinu 1939.“ Loks var því yfirlýst af fiskiþingsins hálfu í svari til allshn., að það teldi það til bóta, að till. á þskj. 55 yrði samþ. á Alþ., það mundi flýta fyrir þeirri rannsókn á kostnaði við útgerðina, sem fiskiþingið sjálft var þegar búið að gera ályktun um, að framkvæmd yrði. Farmanna- og fiskimannasambandið mælti einnig með því í bréfi sínu 3. des., að þessi till. yrði samþ. Í allshn. voru menn yfirleitt þeirrar skoðunar, að leggja till. lið, en einróma álit var það, að úr því að tvær till. sín frá hvorri stofnun, önnur frá Alþ. og hin frá fiskiþinginu, væru fram komnar, þá mundi að sjálfsögðu sú till., sem fram kom á Alþ., verða samþ., og því væri ekki nema rétt, að þessi rannsókn yrði framkvæmd þannig, að það yrði ein rannsókn, sem færi fram á vegum Fiskifélagsins og með íhlutun ríkisstj., eftir ábendingu hins háa Alþ. Fiskiþingið hefur sjálft vísað leiðina í þessu efni í samþ. sinnar till., þar sem það bendir á, að til hliðsjónar við þessa útreikninga verði hafðir reikningar frá reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, og minnir á það, að sú skrifstofa starfi á vegum Fiskifélagsins. Þess vegna þótti allshn. það hlýða að fallast á þá skoðun, sem þarna kemur fram, með því að Fiskifélagið á að hafa bezta aðstöðu til að afla þeirra gagna, sem við þarf, hvort sem þau eru frá reikningaskrifstofu sjávarútvegsins eða frá hinum ýmsu deildum Fiskifélagsins víðs vegar um land.

Að þessu athuguðu lagði n. til, eins og segir í nál. á þskj. 367, að till. yrði samþ. með lítils háttar breyt., sem er í samræmi við það, sem ég nú hef sagt um afskipti Fiskifélagsins af málinu. Mundi þá till., ef brtt. allshn. verður samþ., byrja þannig: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni í samráði við Fiskifélag Íslands að láta fara fram o. s. frv., — í stað þess að áður var þetta orðað þannig: Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram o. s. frv.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja að svo komnu máli, en legg til, að þáltill. verði samþ. með þeirri breyt., sem allshn. hefur hér á gert.