21.03.1946
Efri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (3716)

87. mál, vinnuskóli á Reykhólum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) :

Ég hef á þskj. 459 skýrt nokkurn veginn þann skoðanamun, sem er á milli mín og meiri hl. n. í þessu máli. Meiri hl. leggur til að fella frv., og þó að hann minni á það, að það sé gott að fá tilraunastöð á Reykhólum, þá er því að svara, að hæstv. Alþ. hefur veitt fé til þessa og málið mun halda áfram þrátt fyrir það þó að það fái þessar viðtökur nú. Og ég held, að hv. 1. þm. Reykv. hafi ekki fyllilega áttað sig á því, að einmitt í þessu máli kemur glögglega fram sá ágalli, sem er á því frv., sem næst áður var hér til umr. Þar er verið að hugsa um að búa til ákveðið kerfi, þar sem allt á að falla inn í, en slíkt kerfi hlýtur að draga úr og fjötra allan frumleik á þessu sviði, því að eftir, að slíkt kerfi hefur verið búið til, sem er alveg þrælbundið, þá hafa menn, sem dettur eitthvað nýtt og gott í hug, ekki tækifæri til þess að koma því áleiðis.

Að þessu frv. hafa unnið tveir áhugamenn, hv. þm. Barð., sem er flm. frv. og mikill athafnamaður í útgerð, verzlunarmálum o. fl. og hefur mikla reynslu um praktíska hluti, og hann hefur fengið í félag með sér mann, sem frekar flestum öðrum kennurum hefur sýnt skapandi hæfileika. Þeir hafa gert þarna þá frumdrætti, sem ég efast ekki um, að einhvern tíma seinna munu þykja þess virði að vera eftirsóttir. Það má telja frv. nýjung í fræðslumálum sveitanna, að nú skuli aftur vera tekið upp form bændaskóla Torfa í Ólafsdal, sem betur gafst en annað hefur gefizt, og hafa sömu kennsluaðferðir við bændaefnin að sínu leyti eins og við húsmæðraefnin, þ. e. a. s., að þegar þær koma á húsmæðraskólana, þá er þeim kennt að vinna með fullkomnari tækjum og aðferðum en þær hafa séð heima, og svo er ofurlítil bókleg kennsla með. Þetta hefur gefizt afar vel. Eins og ég veit, að hv. 1. þm. Reykv. er vel kunnugt, þá er aðsóknin afar mikil að þessum skólum, t. d. að húsmæðraskólanum á Laugum, sem ekki tekur nema 20 nemendur. Það lágu fyrir um 100 umsóknir, og þá var hætt að taka á móti umsóknum. Einnig er það svo að húsmæðraskólanum í Dalasýslu, sem hefur miklu lélegri húsakost en húsmæðraskólinn á Laugum og verið hefur að ýmsu leyti verr settur, hann hefur orðið að synja inngöngu 60 nemendum á ári. Þetta sýnir fyrst og fremst gildi þessara frjálsu skóla, sem mæla með sér sjálfir, þannig að kvenfólkið í landinu hefur sagt: Á þessa skóla viljum við fara. Aftur á móti gengur það ekki eins vel með marga aðra skóla, t. d. bændaskólana. Nú er vel til þeirra vandað, góður húsakostur, yfirleitt góðir kennarar, en þeir hafa fengið ákveðið kerfi innflutt, sem hefur ekki gefizt okkur betur en raun ber vitni, og mun vera margt líkt með því og kerfi því, sem nú er verið að tala um að lögleiða, sem er léleg uppsuða eftir erlendum fyrirmyndum eftir stríð fyrir börn í stórborgum. Þessar erlendu fyrirmyndir, sem hér er verið að lepja upp og setja í frv., kallar svo hv. 1. þm. Reykv. kerfi.

Í okkar bændaskóla var tekið erlent kerfi sem átti alls ekki við hér hjá okkur, og það er bezt, að ég skýri það fyrir hv. 1. þm. Reykv. Það var þannig, að laust fyrir aldamótin hófust handa mjög duglegir menn með verulegan áhuga og sögðu sem svo, að í dönskum bændaskólum væri aðallega bókleg kennsla, og þeir skyldu fara eins að. En þeir gættu ekki að því, að í Danmörku er ekki sá sveitastrákur til, ef hann á annað borð ætlar sér, að stunda búskap, sem ekki fer á bújarðir til þess að læra vinnu, og þessir menn eru útlærðir í daglegum störfum, þegar þeir fara á búnaðarskólana. Hér á landi vantar vinnutækni, en af því að við fórum inn á þá braut með þessa nýju fræðslu að apa eftir útlendingum, fórum eftir því, sem þar var leyft, eins og t. d. í Danmörku, þar sem bókleg fræðsla er aðallega í skólum, þá hefur það komið í ljós, að þetta er hinn mesti misskilningur. Og svo segja bændaefnin: Við erum ekki með á nótunum, okkur langar til að læra það, sem við getum flutt með okkur heim í búið.

Ef á að útskýra muninn á bændaskólum þessa lands og húsmæðraskólunum, þá er hann mikill, og kvenfólkinu hefur tekizt miklu betur með sitt kerfi, ef á að orða það svo. Þess vegna er ég með frv. hv. þm. Barð., því að þar er gerð alvarleg tilraun með litlum kostnaði til þess að vita, hvort ekki sé hægt að komast inn á annan grundvöll í okkar skólamálum en gert hefur verið. Mér dettur í hug, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr 2. gr. frv. á þskj. 134 um verklegt nám pilta. Þar segir:

„Í verknámsdeild karla skal kenna hagnýtustu aðferðir, sem þekktar eru á hverjum tíma í fyrirmyndarbúskap á smærri býlum og undir þeim skilyrðum, sem nemendur eru líklegir til að búa við síðar. Auk þessara almennu landbúnaðarstarfa skal einnig kenna einföldustu undirstöðuatriði í trésmíði, sementssteypu, samsetning og sundurlimun búvéla, meðferð þeirra og hirðingu. Skal kennslunni hagað þannig, að nemendur geti að lokinni skólavist talizt búhagir og sjálfum sér nógir um flest það, er lýtur að viðhaldi og notkun þeirra áhalda, sem notuð eru við búskapinn. Nota skal við kennsluna vélar og áhöld af þeirri gerð, sem henta má hverju heimili að eiga og ekki væri ofviða að kaupa.“

Hv. þm. Barð. hefur verið ljóst, að þetta er það, sem ber fyrst og fremst að heimta af búnaðarskóla. Og reynslan hefur sýnt, að sá búnaðarskóli, sem mest hefur verið vandað til og hefur t. d. fjós fyrir 80 gripi, hefur ekki verið þess umkominn að veita nemendum sínum þá fræðslu, sem kæmi þeim að notum, því að ekkert bændaefni hefur slíka aðstöðu. Þannig er það með Hvanneyrarskólann. Enn fremur vil ég fræða hv. þm. á því, að fram að þessu hefur ekki föðurlandið séð sér fært að koma upp sæmilegri vinnustofu á Hólum og á Hvanneyri, eftir 50 ára tíma, og þess vegna gæti það verið til fyrirmyndar, ef slík vinnustofa sem hér er gert ráð fyrir kæmist upp.

Þá vil ég leyfa mér að skjóta því til hv. flm., ef hann þarf að bera þetta fram í endurbættri mynd, sem ég vona, að þurfi ekki, að þá álít ég, að ætti að taka það fram, sem ég álít, að hafi fallið niður, en það er hirðing búfjár, og það mundi áreiðanlega koma til þess, ef settur yrði upp skóli. Þá álít ég, að ekki sé þörf á að setja ákvæði um kvennaskóla í frv., heldur má segja, að með sérstökum l. megi koma honum fyrir þar.

Það, sem ég fer fram á og ég býst við, að hv. flm. sætti sig við, er að það sé gerð þessi tilraun til þess að koma upp þessum skóla, sem kenni landbúnað og það, sem að honum lýtur, eins og lýst er í frv., en að í þessum 1. sé ekkert ákvæði um kvennaskóla.

Ég legg til, að þetta frv. verði samþ. með þeim breyt., sem á því eru gerðar á þskj. 459.