07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3723)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Þegar fyrri hluti umr. um þessa till. fór fram, olli það talsverðu harki eins og menn muna, og skal ég ekki fara að rekja neitt af því, sem þá kom fram. En ég vil lýsa yfir ánægju minni með þá afgreiðslu, sem allshn. þingsins leggur til á till., að hún verði samþ. með þeirri breyt., að þetta starf verði unnið í samráði við Fiskifélag Íslands. Það eina, sem ég sé ástæðu til að undirstrika í sambandi við afgreiðslu þessa máls, er það, hversu mikið tjón af því er orðið, að það hefur dregizt svo lengi, að ýtarleg rannsókn í þessu efni færi fram. Það hefði mátt bæta nokkuð úr því á þessu þingi með því að taka sig til og samþ. till. svipaða þessari þegar þing kom saman. Í stað þess að þreyta þann leik í kringum till., sem þá var gert, hefði verið hægt að vinna að þessari rannsókn framan af þessum vetri, og hefði ekki verið vanþörf á, að eitthvað frekar hefði legið fyrir í sambandi við vertíðarbyrjun en sýnt var. Má segja, að það þýði ekki um þetta að sakast, ekki sé hægt að gera við því, sem orðið er, en þess er þá að vænta, að málinu verði hraðað. Það er bersýnilegt af því, sem fram hefur komið síðan þessi till. var hér til umr. síðast, að það er ekki að ástæðulausu, að ýmsir hafa áhyggjur af því, hvernig ástatt er með sjávarútvegsmál. Í því sambandi gæti verið ástæða til að minnast á þær ráðstafanir, sem ýmsir hafa heyrt, að stj. hafi talið sig neydda til að gera í sambandi við vertíðarbyrjun. Ég ætlaði að nota þetta tækifæri til að gera fyrirspurn til hæstv. atvmrh. varðandi þau málefni, en sé, að hann er ekki hér staddur, heyri sagt, að hann sé á fundi annars staðar, eins og mjög er orðið tíðkað meðan þingfundir standa yfir, að ríkisstj. sé fjarverandi. Skal ég því ekki koma með þær fyrirspurnir í sambandi við þetta mál. En ég endurtek það, að atburðir hafa gerzt nú í sambandi við vertíðarbyrjun, sem bera þess vott, að það er full ástæða til þess að gera ýtarlega athugun á þessum málum, og hefði þurft að vera búið að gera stórkostlegar ráðstafanir til þess að laga grundvöllinn fyrir útgerðina frá því, sem hann er nú, því að mér skilst, að þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gert, séu eins konar bráðabirgðaráðstafanir til að koma í veg fyrir stöðvun útgerðarinnar nú alveg á næstunni. En eins og ég sagði áðan, þá hefur þingheimi ekki verið tilkynnt, hvers vegna þessar ráðstafanir hafa verið gerðar, ekki heldur í blöðum. En mér er þó kunnugt um það eftir öðrum leiðum, að þær ráðstafanir eru hugsaðar sem bráðabirgðaúrræði til þess að koma í veg fyrir samdrátt. Ég skal samt ekki gera þessa fyrirspurn til hæstv. atvmrh. í sambandi við þetta mál, það má alveg eins gera það utan dagskrár.

Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þá afgreiðslu, sem allshn. leggur til, eins og nú er komið.