07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (3726)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Til þess að fyrirbyggja misskilning út af orðalagi þáltill. í sambandi við það, sem hv. 7. þm. Reykv. benti á, þar sem tekið er svo til orða, að lagt verði fram rökstutt álitum, hvaða verð þurfi að vera á sjávarafurðum til þess að gera megi ráð fyrir, að framleiðsla þeirra svari kostnaði og veiti þeim, er hana stunda, lífvænlega afkomu, — til þess að fyrirbyggja misskilning út af þessu orðalagi vil ég segja nokkur orð. — Hv. 7. þm. Reykv. benti á, að af þessu orðalagi mætti kannske draga þá ályktun, að það vekti fyrir þinginu, ef það samþ. þáltill., að það væri eins konar skylda fyrir þingið eða stjórnarvöldin að skaffa það verð, sem rannsókn sýndi, að útgerðin þyrfti að fá. Ég lýsi því yfir, að það er ekki þessi hugsanagangur, sem liggur á bak við flutning þáltill., sem hv. 7. þm. Reykv. gat sér til, heldur er þetta orðalag þannig vegna þess, að það verður að fá öruggan mælikvarða, ef meta á framleiðslukostnað sjávarútvegsins. Og það verður bezt séð, hvað framleiðsla sjávarafurða þolir mikinn kostnað, ef athugað er, hversu sjávarútvegurinn þarf hátt söluverð fyrir afurðirnar til þess að bera sig viðunanlega. Við rannsókn þarf að komast eftir, hvort söluverðið er of lágt ,til þess að útvegurinn beri sig sæmilega. Og ef það reyndist í þessu tilfelli of lágt, yrði síðar að gera till. um, hvað gera skyldi til þess að bæta úr þessu, sem hægt er að gera með ýmsu móti, eins og hv. þm. tók fram. En það dylst engum, sem þekkir til íslenzkra staðhátta, framleiðslu og viðskipta, að það sýnir sig, að kostnaður við útgerðina er í ýmsum tilfellum meiri en markaðir framleiðslunnar gefa í verðlagi. Og þá er ekki nema um eitt úrræði að ræða, að færa niður framleiðslukostnaðinn í samræmi við það, sem hægt er að fá fyrir afurðirnar. Og þess vegna er það einmitt, að í framhaldi af þessu umrædda orðalagi í þá1till., þar sem talað er um mælikvarða um verðið á sjávarafurðunum, að einnig er gert ráð fyrir, að rannsakað verði, hver áhrif dýrtíðaraukning stríðsáranna hefur haft á framleiðslukostnað sjávarafurða og afkomu útvegs- og fiskimanna og hver áhrif lækkun dýrtíðar í landinu mundi hafa á afkomu þeirra, er sjávarútveg stunda. Það er ekki vafi á því, að ósamræmið er þannig, að verðlagsþörf bátaútvegsins hefur verið meiri en fengizt hefur uppfyllt við sölu afurðanna.

Ég skal ekki fara út í það, þó að tilefni hafi gefizt til, að á undanförnum árum hafa menn misskilið ástæðurnar fyrir verðbreyt. á afurðum sjávarútvegsins, þannig að menn hafa gert ráð fyrir, að það væru einhverjir stórlaxar, sem gætu skaffað betra verð, ef þeir vildu, fyrir þessar vörur. Má vera, að hver mundi höggva skarð í annars garð, ef ætti að rekja það. En það er talsvert tíðkað hér, ef einhverjar verðlagsbreyt. verða á markaði, sem við notum, að þá hafa yfirvöldin tilhneigingu til að vilja láta þakka sér breyt., ef hún er til bóta, þó að það sé vafasamt, hve mikinn þátt stjórnarvöldin hafa átt í því. Og of langt hefur verið gengið í því af ýmsum að kenna sig við slíkt, því að það verður ákaflega mikið til þess að ýta undir þann misskilning, sem hv. 7. þm. Reykv. talaði um.

Ég vildi láta þessi orð falla, til þess að menn misskildu ekki orðalag þáltill.