18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

16. mál, fjárlög 1946

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. nr. 362 till., sem er XXVII. brtt. þar og ég á sínum tíma var búinn að leggja fyrir hv. fjvn., en hefur ekki hlotið náð fyrir augum hennar, um að „til byggingar rannsóknarstofnunar fyrir fiskiðnfræði og fiskifræði á vegum Háskóla Íslands og á lóð hans“ verði varið á fjárl. 200 þús. kr., og til vara 100 þús. kr. Þessi stofnun, sem þarna er um að ræða, má segja, að sé ein hin allra nauðsynlegasta, sem fyrir okkur liggur nú að koma upp, ef. meiningin er að ráðast út í stórar atvinnulegar framkvæmdir. Með þessari stofnun er ætlazt til þess, að komið verði upp vísindalegum rannsóknum, sem sjávarútvegsiðnaður okkar geti hvílt á, með það fyrir augum, að hægt sé að tileinka íslenzkum atvinnuvegum allar þær nýjungar, sem beztar eru og þekktar eru erlendis. Það er vissulega útilokað, að við getum komið upp fullkomnum niðursuðuútbúnaði, fullkomnum hraðfrystiiðnaði og öðrum iðnaði sjávarútgerðarinnar, ef við höfum ekki rannsóknarstofnanir, sem veitt geti fiskiðnaðarfyrirtækjum þekkingu um niðurstöður, sem þær komast að í þessum efnum. Fiskifélag Íslands hefur á þessu sviði eins og öðrum sviðum hafið brautryðjandastarf. Það hefur rekið rannsóknarstofu undir stjórn Þórðar Þorbjarnarsonar, sem mun einn bezti fræðimaður okkar á þessu sviði. En bæði er, að sú stofnun hefur of litlu fé úr að spila til þessa, og eins er húsnæði það, sem þessi rannsóknarstofa á við að búa, gersamlega ófullnægjandi, þannig að sýnt er, að einnig þess vegna getur þessi stofnun ekki komið að því haldi, sem hún þarf, þegar lögð verður stund á það, sem við gerum okkur vonir um að verði sem fyrst, að komið verði upp fiskiðnaðarverksmiðjum hér á landi. Það er líka atriði, sem ekki er vert að horfa fram hjá, að það hafa komið upp vissar óánægjuraddir yfir því, að þessi félagsskapur skuli annast þessar rannsóknir, sem það gerir nú, og þessar raddir hafa komið frá ýmsum hlutum þeirra stétta, sem atvinnu sína og afkomu eiga undir því, að sjávarútveginum vegni sem bezt. Og þessar raddir hafa farið fram á það, að þessum rannsóknum verði sem mest komið á hendur ríkisins og þannig um þær búið, að sem minnstar deilur geti um þær orðið.

Nú liggur fyrir hæstv. Alþ. frv. til l. um atvinnudeild háskólans, sem samið er af mþn., sem hæstv. menntmrh. skipaði með það fyrir augum að koma á skipun, þar sem endanlega væri ákveðið fyrirkomulag atvinnudeildar háskólans, nefnilega að gera hana raunverulega að deild í Háskóla Íslands og jafnframt að stofna við þá deild fiskiðnaðardeild. Þrjár deildir eru nú starfandi í atvinnudeild háskólans, fiskideild, iðnaðardeild og landbúnaðardeild, en þar vantar fiskiðnaðardeild, sem er það allra nauðsynlegasta, eins og nú er, að undanteknum fiskirannsóknum, sem ekki verður gerður munur á, hvort nauðsynlegra er, fiskifræði eða fiskiðnfræði. Það eru nauðsynlegar greinar við háskólann, sem þörf er á að reka með miklum myndarbrag. Með þessu frv., sem ég gat um, er ætlazt til þess, að allar þessar vísindalegu rannsóknir í þágu atvinnuveganna verði reknar af Háskóla Íslands og undir stjórn hans. Vitanlega er hverri ríkisstj. í lófa lagið að sjá svo um, að þessar rannsóknir verði reknar með tilliti til þess, sem atvinnuvegirnir þarfnast á hverjum tíma, þannig að menn, sem þarna starfa, snúi sér að þeim verkefnum, sem brýnust þörf er á fyrir atvinnuvegina á hverjum tíma. En með því að setja þessar rannsóknir undir stjórn háskólans, þar með fiskiðnfræði, tel ég, að búið væri að ganga þannig frá þessum stofnunum, að ekki ættu að þurfa að vera neinar deilur um starfsemi þeirra. Þá eru þær einnig komnar út úr því að þurfa að koma með beiðnir til fjárveitingavaldsins á hverjum tíma, þar sem þær þá væru orðnar hluti af stofnun, sem hefur sjálfsforræði, sem ég býst við, að fáir kvarti undan viðkomandi háskólanum. Þegar frv. um fiskveiðasjóð var lagt fram, var samkomulag um það í ríkisstj. að setja í það bráðabirgðaákvæði með tilliti til stofnkostnaðar byggingar sem fyrirsjáanlegt er, að koma þarf upp fyrir þessa rannsóknarstarfsemi. Er það á þskj. 315. Þar er gert ráð fyrir, að frá 1. janúar 1946 til ársloka 1949 skuli gjald það, sem um ræðir í l. nr. 47 19. maí 1930, um fiskveiðasjóðsgjald, renna til þess að greiða stofnkostnað byggingar til fiskiðnrannsókna og fiskifræðirannsókna, sem reist verði á vegum Háskóla Íslands og á lóð hans. Árið 1943 var allt útflutningsgjaldið lagt til fiskveiðasjóðs, það er 1½% af verði útfluttra afurða skv. l. frá 1935, og mun vera tæpar 2 millj. kr., sem rennur nú á hverju ári til fiskveiðasjóðs. Þar með er fiskveiðasjóðsgjaldið, sem ákveðið var með l. frá 1930, orðið mjög veigalítið sem gjald til fiskveiðasjóðs, þar sem þar er ekki um að ræða nema 1½% af verði útfluttra fiskafurða, og þess vegna taldi ríkisstj. rétt, að þetta síðastnefnda gjald félli til þessarar fiskiðnaðardeildar í fjögur ár, til þess að koma henni upp, en síðan yrði gjaldið fellt niður. Þetta 1/8% gjald af útfluttum fiskafurðum gefur nú í tekjur kringum ¼ millj. kr., þannig að ef svipaður útflutningur yrði í næstu 4 ár og verið hefur nú undanfarið, ætti það að gefa af sér á þeim tíma röska eina millj. kr. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því, að fullkomið rannsóknahús verði reist á lóð háskólans, sem fellur vel inn í allar fyrirætlanir um skipulag á háskólalóðinni. Einnig er gert ráð fyrir, að reist verði tilraunaverksmiðja, sem ekki yrði reist á háskólalóðinni, vegna óþrifnaðar og ódauns, sem mundi fylgja slíkri verksmiðju, en hún mundi verða höfð sem næst háskólanum, að fært væri. Gert er ráð fyrir, að þessi bygging kosti 1½ millj. kr., þannig að með þessu fiskveiðasjóðsgjaldi, sem gert er ráð fyrir í frv., að renni til þessarar byggingar, og með því gjaldi, sem gert er ráð fyrir með brtt. við fjárl., þá erum við komnir langleiðina með að greiða stofnkostnað þessarar rannsóknarstofnunar. Og ég tel þetta vera svo brýnt nauðsynjamál, að það megi ómögulega svo fara, að þessi fjárl. verði afgr., án þess að þingið lýsi yfir samþykki sínu með þessu máli. Meðal allra fagmanna á þessu sviði, allra vísindamanna, sem starfað hafa að þessum rannsóknum hingað til hér á landi, og þeirra nýju manna á þessu sviði, sem eru að koma heim, er einróma álit um það, að þetta sé æskilegasta niðurstaðan, að koma upp einni fullkominni stofnun, sem ríkisvaldið annist og sé undir stjórn háskólans og rekin í sambandi við háskólann, sem annist þessar rannsóknir. Og þetta er sérstaklega lagt til með samkomulagi við Þórð Þorbjarnarson, sem hefur veitt forstöðu þessum rannsóknum á vegum Fiskifélags Íslands. Og ég geri ráð fyrir, að hann verði ráðinn forstjóri þessara rannsókna, þegar þeim verður komið á á vegum háskólans. Hann hefur samþykkt að taka að sér þá forstöðu, og öllum, sem vit hafa á þessum málum, ber saman um, að hann muni vera færastur allra Íslendinga til þess að stjórna slíkum rannsóknum. Þegar þetta mál var til athugunar hjá hv. fjvn., bað ég Árna Friðriksson fiskifræðing og Þórð Þorbjarnarson fiskiðnfræðing að semja grg. um þetta mál og leggja fram fyrir hv. fjvn., og það gerðu þeir með bréfi dags. 26. nóv. s. l. Í þessari grg. telur Þórður Þorbjarnarson upp verkefni þessarar rannsóknarstofnunar fyrir fiskiðnfræði, og ég tel rétt að lesa upp þessi verkefni, með leyfi hæstv. forseta, til þess að gera hv. þm. dálítið gleggri grein fyrir því, hvaða verkefni þarna á að leysa. Verkefnin eru þessi :

1. Tilraunir og rannsóknir í sambandi við niðursuðu, niðurlagningu og frystingu fiskafurða og geymslu þeirra.

2. Vítamínrannsóknir á þorskalýsi og öðrum afurðum, sem líklegt er, að í framtíðinni verði seldar á vítamíngrundvelli.

3. Rannsóknir á efnatöpum í lifrarbræðslum og síldarverksmiðjum. Í sambandi við þennan lið er fyrirhugað almennt eftirlit með lifrarbræðslum í landinu.

4. Rannsóknir á fúavörn veiðarfæra og tilraunir með mismunandi fúavarnarefni.

5. Tilraunir með hreinsun og herzlu síldarolíu og lýsistegunda og framleiðslu þorskolíu og vítamínkonsentrata úr þeim.

6. Tilraunir með framleiðslu verðmæta úr fiskslógi og öðrum úrgangi.

7. Aðstoð við mat á sjávarafurðum í samráði við stjórnarvöldin og á þann hátt, sem síðar kann að verða ákveðið.

8. Upplýsingastarfsemi og fræðileg aðstoð við byggingu og rekstur fiskiðnfyrirtækja.

Einn stærsti þáttur í starfi þessarar stofnunar verður að líkindum að rannsaka möguleika til þess að vinna ýmis verðmæt efni úr úrgangi úr framleiðslu sjávarútvegsins. Það er nú eitt mesta áhyggjuefni allra, sem um sjávarútvegsmál hugsa, hve miklu við verðum hér á landi að kasta af úrgangi sjávaraflans. Þetta gengur svo langt, að oft er þannig í verstöðvum, að óhjákvæmilegt er að kasta meiru en helmingi af því fiskmagni, sem borið er á land, af því að ekki er hægt að gera neitt verðmæti úr því. Það sér hver maður í hendi sinni, að þetta getur ekki gengið svo áfram. Þarna er kastað mjög verðmætum efnum, sem gætu, ef hagnýtt væru, gerbreytt afkomu fjölda fiskimanna, sem afla fisksins, og eins þeirra fyrirtækja, sem fyrir fiskveiðunum standa í hverju tilfelli. Það er svo nú, að ég býst við, að í sumum verstöðvum hvíli afkomumöguleikar margra manna á því og verði beinlínis undir því komnir, hvort betur tekst í framtíðinni en hingað til hefur verið að vinna úr þessu úrkasti fiskaflans.

Það kann að hafa blandazt inn í þetta mál hjá sumum, að með því að taka þessar rannsóknir úr höndum Fiskifélags Íslands og setja þær undir stjórn háskólans, eins og hér er ætlazt til, þá sé verið að vanþakka Fiskifélaginu, og þetta sé illa gert gagnvart því. Ég held, að þetta sé ákaflega mikill misskilningur, sem kemur fram í þessari skoðun. Fiskifélagið á fullar þakkir skilið fyrir það forustustarf, sem það hefur rekið á þessu sviði. En nú eru bara verkefnin orðin svo mikil og þjóðin á svo mikið undir þessum rannsóknum, hver einasti eigandi fiskiðnaðarfyrirtækja, hver einasti sjómaður, hver einasti útgerðarmaður og þjóðin í heild sinni líka, af því að þessar rannsóknir verða að vera undirstaða undir ýmsum þáttum eins aðalatvinnuvegar þjóðarinnar, sjávarútvegsins, að það er ekki hægt að láta sér nægja þá krafta og þá aðstöðu, sem Fiskifélagið getur haft til þessara rannsókna. Og við verðum að taka þessi mál fastari tökum en hægt er að gera með því að hafa þessi mál í höndum Fiskifélagsins. Og jafnframt því, að þetta verkefni væri tekið úr höndum þess félags, væri því þakkað það brautryðjandastarf, sem það hefur af hendi leyst í þessum efnum. Og af því starfi hefur leitt það, að við eigum nú sérfræðinga í þessum efnum, sem við vonum, að við fáum að njóta, þegar við getum búið þeim starfsskilyrði í háskólanum. Fiskifræðirannsóknirnar byrjuðu á vegum Fiskifélagsins, en þegar skilningur jókst á nauðsyn fiskirannsóknanna, kom það á daginn, að það var ofætlun Fiskifélaginu að annast þær rannsóknir, heldur þyrfti ríkið að taka þær að sér. Og það var gert með stofnun fiskideildar í atvinnudeild háskólans. Hefur hún mátt sín mikils síðan og mikið getað aukið fiskirannsóknarstarfsemi, þó að það sé alls ekki þannig, að við getum gert okkur ánægða með það. Árni Friðriksson fiskifræðingur er sannfærður um það, að einmitt sú breyting, sem varð á fyrirkomulagi fiskirannsóknanna, hafi orðið til þess að stórbæta alla aðstöðu til þessara rannsókna og auka möguleika þessara rannsókna til þess að koma þjóðinni og atvinnuvegum hennar að fullu gagni. Og bæði dr. Þórður Þorbjarnarson og Árni Friðriksson eru sammála um, að sama máli sé að gegna nú í sambandi við þær till., sem nú liggja fyrir um breyt. á fyrirkomulagi fiskiðnrannsóknanna, um að breyta því úr því að vera á vegum Fiskifélagsins í það að vera á vegum ríkisvaldsins og undir stjórn háskólans, sem tryggir það, að vísindamenn geti starfað rólegir að sínum viðfangsefnum, án allrar íhlutunar frá því framkvæmdarvaldi, sem oft vill verða nokkuð reikult í ráði vegna örra skipta á starfsmönnum þar. Það er sem sagt í stuttu máli almennt álit allra fagmanna okkar á þessu sviði, að þetta sé heppilegasta tilhögunin á fiskiðnrannsóknunum, og það er í einu og öllu orðið að ráði þeirra. Ég veit líka, að menntamenn okkar á öðrum sviðum, þar á meðal prófessorar háskólans, ég held allir, eru sammála um, að þetta muni vera æskilegasta lausnin á þessu mjög svo þýðingarmikla máli. Og ég held líka, að það sé mjög almennur skilningur hjá þessum menntamönnum okkar, sem ráða í Háskóla Íslands, um þá mjög svo miklu þýðingu, sem fiskiðnrannsóknir hafa fyrir sjávarútveginn, þann atvinnuveg, sem við ætlum nú að snúa okkur að með fullum krafti að byggja upp.

Ég vil þess vegna mega treysta því, að hv. þm. leggi þessu mjög svo þýðingarmikla máli lið sitt með því að samþ. þessa brtt. mína á þskj. 362, XXVII, um að leggja til byggingar rannsóknarstofnunar fyrir fiskiðnfræði og fiskifræði á vegum Háskóla Íslands 200 þús. kr. Og ef hv. þm. sumir telja þetta of mikla upphæð að veita nú, hef ég flutt varatill. um, að upphæðin verði 100 þús. kr.

Ég vil að lokum í þessu sambandi taka fram, að það er gert ráð fyrir að sameina í einu húsi rannsóknarstarfsemi og fiskifræði, og þegar hafa verið gerðar teikningar að þessu, að vísu ekki endanlegar teikningar, en byrjunarteikningar. Og að gert er ráð fyrir, að fiskideildin verði þarna líka, er af því, að húsrúm hennar í atvinnudeild háskólans er of lítið, sem er sérstaklega aftur af hinu, að sú önnur starfsemi, sem fer fram í atvinnudeildinni, vegna landbúnaðar og iðnaðar, svo og gerlarannsóknir og þess háttar og rannsóknir á byggingarefni, þetta allt býr við svo þröngt húsrúm, að nauðsyn er á því húsrúmi, sem atvinnudeildin hefur nú yfir að ráða, sem nú er notað fyrir fiskideildina, til annarrar rannsóknarstarfsemi, sem atvinnudeildin hefur með höndum og ég greindi. Og þótt ekki yrði ráðizt í að byggja þetta hús fyrir fiskiðnfræði, sem ég geri að till. minni, að verði einnig notað fyrir fiskideildina, þá verður óhjákvæmileg nauðsyn að byggja hús samt sem áður, ef víð viljum ekki láta fræðimenn okkar, sem við rannsóknir eiga að starfa í atvinnudeildinni, tefja hvern fyrir öðrum. Nú starfa þar oft 2–3 menn í sama herbergi, en við það verður ekki unað, heldur verður að skapa þeim þau starfsskilyrði, sem forsvaranlegt er að láta þá starfa við í þágu ríkisins. Ríkið verður að sjá þeim mönnum fyrir starfsskilyrðum, sem það ræður í þjónustu sína, ef nokkurt vit á að vera í því að ráða þá. Og þá verðum við að vera samtaka um að skapa þeim starfsskilyrði með því að byggja hús yfir þá starfsemi; sem þeim er falið að leysa af hendi, eftir því sem þörf krefur.

Þá hef ég flutt brtt. á þskj. 366,I, um framlag til hafnarmannvirkja fyrir Siglufjarðarkaupstað, þar sem ég legg til, að fyrir 100 þús. kr. komi 200 þús. kr. Þessi brtt. er flutt samkv. ósk bæjarstj. Siglufjarðarkaupstaðar, og sendi ég hana á sínum tíma til hv. fjvn. En hv. fjvn. sá sér ekki fært að mæla með meiri upphæð en 100 þús. kr. í þessu skyni. Ég vil taka fram, að þau verkefni, sem fyrir liggja í hafnarmálum Siglufjarðarkaupstaðar, eru aðallega dýpkun á innri höfninni og bygging geysimikils nýs lands innan við Siglufjarðareyri. Krikinn innan við Siglufjarðareyri er miðstöð síldarsöltunarinnar á Íslandi og hefur verið það, ég býst við óhætt að fullyrða, um 40 ár. Á þessu svæði hefur langsamlega mestur hluti íslenzku saltsíldarinnar verið saltaður. En þannig er ástatt, að á hverju ári grynnkar höfnin meira og meira vegna framburðar, sem berst með straumi inn í höfnina. Þannig er nú komið, að syðstu söltunarstöðvar innan við Eyrina eru nú lítt nothæfar vegna grynninga. Bryggjurnar verða vegna grynninganna óhæfilega langar og þrátt fyrir það komast ekki nema smábátar að þeim. Þetta hefur orðið og verður til þess að draga úr síldarsöltun þarna. En það er ekki vafi á því, að Siglufjörður liggur betur við síldarsöltun en nokkur annar staður á landinu. Siglufjarðarbær á tilveru sína því að þakka, að fjörðurinn er á miðju síldveiðisvæðinu, Það er ekki vegna þess, að síldveiðitækjum hefur verið komið upp á Siglufirði, að hann er miðstöð síldveiðanna, heldur af því, að hann er á miðju síldveiðisvæðinu, og það er það, sem skapað hefur byggð á Siglufirði. Þetta er ákaflega snjóþungur staður og miklir kuldar þar, en þrátt fyrir þetta hefur þetta orðið nokkuð stór bær, vegna þess hve hagstæðir þessir atvinnuhættir eru. (Forseti: Má ég spyrja hæstv. atvmrh., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni). Já, ég á mikið eftir. — [Fundarhlé]

Herra forseti. Ég ætlaði að skýra frá því, að þarna á Siglufirði er verið að byggja stóran hafnargarð, sem myndar stórt undirlendi, sem er mjög gott í eins þröngum firði og Siglufirði, og skapar það möguleika til að koma upp stórum söltunarstöðvum, betri en þeim, sem nú eru. Þær gömlu eru mjög slæmar. Þeim er hrófað upp og er mjög lítið um þær hirt. Nú er meiningin að ráðast í að byggja stóra nýtízku söltunarstöð, sem gæti gefið okkur möguleika til að salta síldina með miklu betri gæðum en við höfum gert hingað til. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því, að síldarsöltun verður einn þýðingarmesti þátturinn í sjávarútvegi okkar. Við höfum mikinn markað fyrir saltsíld, og það er svo, að alls staðar þar, sem íslenzk síld hefur komið á markað, hefur hún verið mjög eftirsótt, hún er viðurkennd gæðavara, sem allir vilja kaupa. Við höfum saltað þetta frá 2–3 þús. tunnur, en við eigum að geta aukið söltun okkar, ef við fáum þann útbúnað og þau tæki, sem við þurfum, upp í 7 þús. tunnur. Og það er gífurleg atvinna, sem þetta skapar, og aukinn þjóðarauður, sem af þessu mundi hljótast, ég tala ekki um, ef við gætum líka gengið frá þessari söltuðu síld okkar í dósir, útbúið hana á borðið til neytenda og þar með notað til þess íslenzkan vinnukraft. Þetta byggist mikið á því, að bæjarstjórn Siglufjarðar geti komið fram þessu áformi með nokkuð miklum hraða, og ég held, að það sé varlega í farið að biðja um 200 þús. kr. til þessarar hafnar og ekki sé annað hægt en að leggja það fram nú.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að hinu svo kallaða Rauðkumáli. Ég flyt till. á þskj. 362 ásamt 3. þm. öðrum, hv. 4. þm. Reykv. (StJSt), hv. 7. þm. Reykv. (SK) og hv. 1. þm. Eyf. (BSt). Hún hljóðar svo: „Að ábyrgjast vegna síldarverksmiðju Siglufjarðar, Rauðku, 2 millj. kr. lán til þess að greiða áfallinn byggingarkostnað og vegna stækkunar verksmiðjunnar upp í 10 þús. mála afköst fyrir næstu síldarvertíð, gegn þeim tryggingum, er ráðherra metur gildar.“ Þetta mál var mikið rætt hér haustið 1944, og er ekki nein sérstök ástæða til að rekja það neitt nú. Siglufjörður lagði út í að stækka verksmiðjuna vorið eða veturinn 1944, og var það meining þeirra í upphafi að stækka verksmiðjuna upp í 5 þús. mála afköst, eins og búið var að undirbúa 1939. Árið 1939 var Siglufjarðarkaupstaður búinn að útvega sér 1 millj. norskra kr. og auk þess ½ millj. kr. innlent lán til að koma þessari verksmiðju upp. En af einhverjum ástæðum varð ekkert úr framkvæmdum, til stórtjóns fyrir Siglufjörð og síldveiðarnar yfirleitt. Það er ekki nokkrum vafa bundið, að ef verksmiðjan hefði verið byggð þá, ætti Siglufjörður þessa verksmiðju skuldlausa og hún búin að færa bæjarbúum stórkostlega fjármuni til þess að hrinda í verk ýmsum bæjarframkvæmdum, auk þess sem hún hefði gert síldarútvegi okkar mikið gagn, því að síðan 1939 hafa komið fyrir löndunarstöðvanir vegna of lítilla afkasta, og stundum hefur orðið að moka síldinni í sjóinn, svo að hundruðum-mála skiptir. Það er því ekki nokkur minnsti vafi á því, að það var hinn mesti skaði fyrir Siglufjörð og sjávarútveginn yfirleitt, að ekki skyldi vera byggð þessi verksmiðja 1939.

Bæjarstjórnin fer fram á, að ríkisstj. ábyrgist 2 millj. kr. viðbótarlán til þess að auka verksmiðjuna. Sér hver maður, að það er minni áhætta fyrir ríkissjóð að veita 2 millj. kr. ábyrgð fyrir viðbótarláni upp á það, að afköstin aukist upp í 10 þús. mál, en sú ábyrgð, sem ríkið er að leggja þeirri verksmiðju, sem afkastar 5 þús. málum. Það er svo miklu meira en það, sem svarar þessari áhættu, að það er beinlínis hagkvæmt út frá sjónarmiði ríkissjóðs að veita þessa viðbótarábyrgð. Nú eru rökin, sem liggja til þess að byggja þessa verksmiðju, mjög mörg og sterk, og vil ég þá fyrst taka fram, að ef öll þau skip, sem nú eru í smíðum, þar með talin sænsku skipin, verða komin á veiðar fyrir næstu vertíð, — og ég býst við að svo verði, — þá erum við, þegar tillit er tekið til þeirrar aukningar, sem þegar er orðin, verr staddir eða a. m. k. ekki betur staddir með afköst verksmiðja okkar en við vorum á fyrri árum stríðsins. Það er verið að byggja 10 þús. mála verksmiðju á Siglufirði og 7 þús. mála verksmiðju á Skagaströnd. En ég er ekki alveg viss um, að verksmiðjan á Skagaströnd geti orðið til fyrir vertíðina, og byggist það á því, að staðið hefur á hafnarmannvirkjum þar, sökum óhagstæðs tíðarfars í sumar, og það mun gera miklu örðugra um uppskipun á vélum og efni til verksmiðjunnar. Ef svo fer, að ekki verður hægt að koma upp þessari verksmiðju á Skagaströnd fyrir næstu vertíð, þá erum við greinilega verr staddir en við vorum á fyrri árum stríðsins, þegar Íslendingar urðu að fyrirskipa veiðibann og skipin máttu sig ekki hreyfa úr höfn. Frá því almenna sjónarmiði er því Rauðka mjög kærkomin aukning á vélaafköstum verksmiðja okkar.

Ef maður tekur kostnaðarhliðina, þá vil ég taka fram, að þetta er alveg óvanalega ódýr verksmiðja, og verður hún í öllu falli nokkrum millj. kr. ódýrari en sú síldarverksmiðja, 10 þús. mála, sem verið er að byggja á Siglufirði nú. Og þess vegna hlýtur það að vera lítil áhætta fyrir ríkið, frá því sjónarmiði séð, því að hún kemur fyllilega til með að standa fyrir sínu. Allt, sem Siglufjarðarkaupstaður átti í verksmiðjunni, er komið inn í þetta, mjög mikið af efni, nokkuð af vélum, lóð og hús að hálfu leyti, af því að húsið er byggt upp þannig, að gamall grunnur var tekinn og steyptur og svo sett þak yfir. Annars er húsið það sama. Það, sem Siglufjarðarkaupstaður hefur þannig lagt inn í þetta, eru geysileg verðmæti. Við skulum hugsa okkur, að það fari eins illa og það getur frekast farið, — komi nýtt síldarleysisár og stórtap verði á þessari verksmiðju. Þá hefur ríkið þann kostinn að velja að yfirtaka verksmiðjuna. Þessi verksmiðja kostar, þegar maður leggur við rekstrartapið í sumar, ekki meira en í kringum 7½ millj. kr., en ég geri mér ekki vonir um, eftir því sem fyrir liggur, að síldarverksmiðja ríkisins, sem verið er að byggja á Siglufirði, verði undir 10 millj. kr., og byggist það á því, að þar hefur orðið að reisa hús frá grunni, þar var ekkert á að byggja. Ef illa fer fyrir Siglufjarðarbæ, stendur ríkið frammi fyrir því að yfirtaka þessa verksmiðju, sem er fyllilega sambærileg við þær verksmiðjur, sem ríkið á nú, og það er svo hagkvæmt, af því að þessi verksmiðja er í höfuðstað síldariðnaðarins og því ákaflega gott að reka hana í sambandi við Síldarverksmiðjur ríkisins. Þannig standa málin. Ef bæjarfélagið gefst upp á þessu fyrir einhverra hluta sakir, eru hæg heimatökin fyrir ríkið að yfirtaka verksmiðjuna. Og enginn efast um það, að þarna í verksmiðjunni er allt fyrsta flokks, enda hef ég ekki heyrt nokkurn mann bera brigður á það. Það hefur allt verið vandað til hins ýtrasta í þessari verksmiðju. Fjárskortur og önnur vandræði hafa ekki verið látin hafa áhrif á það. Nafn Snorra Stefánssonar er trygging fyrir gæðum verksmiðjunnar, og ber enginn brigður á sem þekkir hann persónulega. Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að Siglufjarðarkaupstaður gefst ekki upp. Ég er sannfærður um, að þessi verksmiðja verður honum til blessunar og kemur til með að borga sig niður. Hitt vildi ég aðeins benda á, að ef það fer eins illa og við getum hugsað okkur það verst, þá tekur ríkið þessa verksmiðju yfir, — og að hún er fyllilega sambærileg við ríkisverksmiðjurnar. Þetta er það atriði, sem ég vildi sérstaklega undirstrika.

Þetta mál var lagt fyrir fjvn. og er flutt hérna af mönnum úr öllum flokkum. Í bæjarstjórn Siglufjarðar var það samþ. með atkv. allra bæjarfulltrúanna. Á Siglufirði er þetta mál ofan við alla flokka og flutt þannig hérna í þinginu til þess að undirstrika, að þetta sé ekki flokksmál, heldur mál, sem allir Siglfirðingar standa að, og vænta þeir góðra undirtekta Alþ. Það kom einnig maður vegna undirbúnings þessa máls, Aage Schiöth lyfsali, sem er form. verksmiðjustjórnar Rauðku. Hefur hann lagt fram gögn og áætlun í þessu máli, er mun hafa verið lagt fyrir fjvn., til þess að hún gæti kynnt sér þetta mál. Því miður varð niðurstaðan hjá fjvn. sú, að hún taldi sér ekki fært að flytja málið, og af þeim sökum hef ég, ásamt meðflm. mínum, flutt þetta mál. Hæstv. fjmrh. (PM) bar fram ósk um, að ábyrgðarbeiðnir, sem oft hefur verið rætt um, að muni koma hér fram í sambandi við ýmis bæjarfélög, 8 millj. kr. ábyrgð á einum staðnum, 3 millj. kr. á öðrum staðnum, — verði teknar aftur, þar með talin þessi ábyrgð fyrir Siglufjarðarkaupstað. Þó viðurkennir hæstv. ráðh., að það standi sérstaklega á með Síldarverksmiðjur ríkisins. Og það er rétt, eins og ég tók fram, að þessi aukna ábyrgð fyrir Rauðku er beinlínis til að minnka , áhættu ríkisins, sem þegar er komið í stórar ábyrgðir fyrir þetta fyrirtæki. Þarna gegnir allt öðru máli, eins og hann réttilega benti á. Ég vil út af ósk hv. fjmrh., sem ég vil tæpast telja, að beint sé til mín og flm. þessarar till., vegna þess fyrirvara, sem hæstv. ráðh. gerði, — taka fram, að til þess að þessi verksmiðja geti staðið í 10 þús. mála afköstum fyrir næstu vertíð, má engan tíma missa til þess, sem þarf að smíða, að ég hygg. Það er ekki strax búið að því. Það þarf að kaupa skilvindur. Þær eru ekki til á lager og þarf að smíða þær sérstaklega. Þannig þolir málið enga bið, ef gengið er inn á þá braut að gefa Siglufjarðarkaupstað aðstöðu til að stækka verksmiðjuna. Þess vegna er það óhjákvæmileg nauðsyn að fá úr þessu skorið nú. Þegar fram í febrúar er komið, er það orðið of seint. Að fresta þessu máli er sama og að fella það. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, og með tilliti til þess fyrirvara, sem hæstv. fjmrh. gerði í ræðu sinni, vænti ég þess, að hann fallist á þá skoðun mína, að mér sé ekki fært að draga þessa till. aftur.

Siglufjarðarkaupstaður stendur í miklum skuldbindingum við ríkissjóð og ekkert bæjarfélag á landinu í hlutfalli við íbúafjölda stendur í eins miklum óbættum sökum við ríkissjóð, og það er ekki minnsti vafi á því, að hann hefur fulla löngun til að standa við þær skuldbindingar og höggva í þær stóru skuldir, sem ríkissjóður er í fyrir þennan kaupstað. Og það er ekki vegna þess, að kaupstaðurinn vilji ganga freklega fram til að heimta ábyrgðir handa sér, með þessu tiltölulega óverulega fjárframlagi til að stækka þessa verksmiðju, því að þá eru kaupstaðnum skapaðir miklu meiri möguleikar en áður til að geta losað ríkissjóð algerlega við þessar ábyrgðir. Það er þess vegna, sem .kaupstaðurinn gerir þessa kröfu, sem hver einasti bæjarbúi er sammála um að fara fram á í trausti þess, að Alþ. skilji, hvað fyrir Siglufirði og bæjarstjórn Siglufjarðar vakir. Það er ljóst, að ef Siglufjarðarkaupstaður hefði ekki orðið fyrir því óhappi á fyrsta rekstrarári verksmiðjunnar, að hin mikla síldarleysisvertíð skall yfir, svo að síldveiðin brást gersamlega, þá hefði hann getað framkvæmt þessa stækkun af eigin rammleik, en þessi skellur skaðar bæinn og verksmiðjuna um meira en það, sem nemur tapinu, því að hann hefur gert lánsstofnanirnar svo hræddar, að þær vilja helzt ekkert fyrir síldarútveginn gera. Og meðal annars mun sá bankinn, sem helzt á að sinna þessum málum, Útvegsbankinn, eiga svo mikið bundið fé í síldarútgerðarfyrirtækjum frá síðustu vertíð, sem hann hefur ekki getað fengið borgað vegna þess, hvernig vertíðin fór. Og það er þess vegna óeðlilegt að gefa Siglufjarðarkaupstað ekki tækifæri til að koma upp fullkominni verksmiðju, þegar þörfin fyrir verksmiðju er svo mikil fyrir þjóðina í heild eins og raun er á, þrátt fyrir það að þetta óhapp hefur orðið, sem alltaf má gera ráð fyrir í sjávarútveginum. Með tilliti til þess, sem ég hef sagt um þessa Rauðkuábyrgð, leyfi ég mér að vænta þess, að hv. þm. sýni Siglufjarðarkaupstað fulla sanngirni í þessu máli og veiti þá ábyrgð, sem farið er fram á.