02.04.1946
Neðri deild: 100. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (3731)

63. mál, vegalagabreyting

Pétur Ottesen:

Ég flyt hér eina brtt. við vegalögin á þskj. 100, og liggur hún í hópi margra slíkra till. Það er vitanlega ekki ástæða til að ræða hana fremur en aðrar, fyrr en séð er, hvort hin rökst. dagskrá samgmn. verður samþ. eða ekki. En með henni er gengið inn á aðra braut en við höfum á verið við breyt. á l. n. undanfarandi þingum. Á undanförnum árum, þegar till. hafa verið bornar fram um breyt. á vegal., þess efnis að taka ýmsa vegi upp í tölu þjóðvega, þá hefur það þ., sem till. hefur komið fram á, oftast talið sér fært að taka hana og fleiri, ef verið hafa, til greina, þ. e. með þeirri afgreiðslu að samþ. þær eða fella. Venjan hefur verið að senda till. til vegamálastjóra og fá umsögn hans um hverja till., sem hann hefur metið eftir þekkingu sinni á hlutaðeigandi stöðum, hverjum og einum. Þessi hefur verið eðlilegur gangur málanna. Þegar svo álit vegamálastjóra hefur verið komið fram, hefur, samgmn. borið fram allar brtt., er hún hefur athugað þær, en mælt með þeim, er henni finnst sjálfsagðast, að hafi framgang, með hliðsjón af því áliti. Ég hefði talið eðlilegast, að sú yrði og hér afgreiðsla þessa máls. Kemur það líka fram hjá vegamálastjóra, en hann segir svo í umsögn sinni:

„Ef háttvirtar samgöngumálanefndir vilja fara inn á þá braut að taka inn nýja þjóðvegakafla á þessu þingi, gætu að mínu áliti nokkrir kaflar komið til greina, en . . .“, o. s. frv.

Hér segir vegamálastjóri berum orðum, að hann sé reiðubúinn að mæla með upptöku ýmissa akfærra vega í þjóðvegatölu, en meðmæli hans þess efnis, „að ekki verði að þessu sinni horfið að því ráði“, hafa orðið ofan á. En það er nýtt hér að slá á frest öllum breyt. á vegal., sem felast í framkomnum till. Hv. frsm. hefur nú reifað málið og lét þess getið, að svo hagaði til um ýmis önnur ákvæði í núgildandi l., að ástæða væri til, að þau einnig yrðu tekin til athugunar.

Hins vegar bendir það til þess, að það virðist ekki mjög ábótavant á þessum efnum, þar sem hingað hafa ekki borizt utan af landi neinar sérstakar óskir í þessa átt, en aftur á móti lögð á það hvaðanæva mikil áherzla að koma á þeim breyt., að nýir vegir verði teknir inn í þjóðvegatölu. Þess vegna skilst mér, að þeir, sem eiga að búa við þessa löggjöf, finni ekki til vansmíði á henni að öðru leyti en því, sem felst í þeim breyt., sem liggja fyrir till. um.

Það er rétt, sem hv. þm. tók fram, að á þessu þ. hefur hækkað nokkuð framlag til sýsluvegasjóða, þannig að það hámark, sem áður var, hefur verið fært mikið upp, þannig að hækkun framlagsins frá sýslunum mætir einnig auknu framlagi frá ríkissjóði.

Hv. frsm. vék að því, að e. t. v. væri ætlazt til þess við athugun á þessum l. að hafa það til hliðsjónar eða gera þar nokkurn mun á þeim héruðum, þar sem væru sýsluvegasjóðir, og hinum, þar sem þeir væru ekki, og að minna fé yrði e. t. v. veitt til þeirra héraða, sem hefðu sína sýsluvegasjóði. Mér skilst þá, að það yrðu frekar teknar til greina óskir um þjóðvegi frá þeim sýslum, þar sem ekki eru sýsluvegasjóðir. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að það stendur öllum opið að gera í hverri sýslu samþykktir um slíka sýsluvegasjóði og njóta þeirra hlunninda, sem í þeim felast. Þannig að það er eingöngu aðstaðan heima í héruðum, sem veldur því, að þeirra fríðinda er ekki notið, sem sýsluvegasjóðurinn hefur að geyma. Mér virðist þess vegna, að við endurskoðun þessarar löggjafar sé ekki ástæða til þess að leggja þennan aðstöðumun sérstaklega til grundvallar í þeim till., sem vegamálastjóri kann að gera til ríkisstj. og ríkisstj. kann svo ef til vill að flytja í lagafrumvarpsformi inn á næsta Alþ.

Ég harma það, að hér skuli nú vera vikið út af þeirri braut, sem fylgt hefur verið að undanförnu, að verða við sanngjörnum óskum utan af landsbyggðinni um það að bæta nokkrum vegum við í þjóðvegatölu, því að á bak við þær óskir stendur ákaflega brýn þörf þeirra héraða, sem að þeim óskum standa. Ég sé á bréfi vegamálastjóra, að hann hefur skýrt n. frá því, hvernig er ástatt um þessa hluti í héruðunum, hve mikið af vegum þar séu þjóðvegir, hve mikið sýsluvegir og jafnvel hreppsvegir, og ég ætla, að aðstaða í þessum efnum sé mjög mismunandi, þannig að sum héruð búi að mestu leyti við þjóðvegi, og ríkið ber mestan hluta kostnaðarins af slíkum vegum. Önnur héruð hafa að mjög miklu leyti staðið sjálf undir sínum vegaframkvæmdum, og það er vitanlega sanngirniskrafa á þeim mannréttindatímum, sem við lifum nú á, að það sé tekið tillit til þeirra óska að láta jafna nokkuð þann aðstöðumun.

Ég veit náttúrlega ekki um frestun á þessu máli. Ég geri ráð fyrir, þar sem n. stendur óskipt um þetta mál, að þá muni verða samþ., að því verði frestað. Það er gangur mála hér, yfirleitt, þó að ég viti ekki, hvað kann að bregða út af eða hvort það verður orðið við óskum þeim, sem í dagskránni felast, og þá hvernig þær till. verða, sem spretta upp af því, ef dagskráin verður samþ. og málinu slegið á frest. Hins vegar er það vitað, að þeim, sem bíða eftir aðgerðum í þessum aðkallandi málum, er allur frestur og óvissa um endalok þeirra þung í skauti. Og það er mikill hnekkir fyrir viðkomandi héruð, að nú skuli hafa verið snúizt við þessum óskum gagnstætt því venjulega, að þessir vegir, sem hvíla mjög þungt á viðkomandi héruðum, skuli ekki nú verða teknir í þjóðvegatölu.