08.11.1945
Sameinað þing: 6. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (3732)

65. mál, vélar til raforkuvinnslu á sveitaheimilum

Flm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Þessari þáltill. fylgir allýtarleg grg. Þarf ég þess vegna ekki að fara mjög nákvæmlega út í þetta mál.

Það hefur verið mikið rætt um það á síðustu tímum, hver nauðsyn sé á nýsköpun hér á landi, eins og það hefur verið orðað, þ. e. því að taka hvers konar vélar og tæki í þjónustu landsmanna, bæði til lands og sjávar. Í grg. þáltill. er stuttlega drepið á það, á hvern veg bændastéttin hefur snúizt við þessu og að fyrir henni er þetta engin ný bóla, því að fjöldi manna í bændastétt hefur haft opin augu fyrir þessu allt frá því fyrir 1930. En á árunum eftir 1930 var hagur bændastéttarinnar þannig, að þrátt fyrir fullan vilja í þessa átt orkuðu menn í þeirri stétt því ekki að ráðast í framkvæmdir. En eftir að stríðið skall á og sérstaklega eftir 1940, þegar hagur bænda rýmkaðist, þannig að þeir urðu megnugir að gera eitthvað á þessu sviði, kom það til greina, að þeim var varnað þess að fá vélar og tæki, sem þeir nauðsynlega þurftu að fá. Innflutningshömlurnar, sérstaklega gagnvart innflutningi frá Ameríku, gerðu það að verkum, að á öllum stríðsárunum hafa legið fyrir stórkostlegar pantanir upp á hundruð þús. eða millj. króna frá bændum á ýmiss kanar vélum og tækjum frá útlöndum, sem ekki hefur verið fullnægt. Þetta virðist mér mönnum gleymast of oft, þegar rætt er um seinlæti bændastéttarinnar í því að koma sínum málum í það horf, sem þyrfti að vera og æskilegt væri. Á hinn bóginn horfir málið svo nú, að þetta getur farið að lagast að stríðinu loknu. Og bændur og félagssamtök bænda hafa notað tímann til undirbúnings, meðan ekki hefur verið hægt að hafast annað að í þessum efnum, og það hafa verið gerðar margvíslegar ráðstafanir til að greiða götu þess, að sem mestur árangur verði af þeim vélum, sem keyptar verða inn fyrir landbúnaðinn, bæði með félagslegu samstarfi og á annan hátt. Og hæstv. Alþ. hefur þar veitt sitt atfylgi og heimilað fé úr framkvæmdasjóði ríkisins til þess að greiða fyrir þessu, og á ég þar við framlag eftir l. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum. — Ég verð því að líta svo á, að bændur séu tiltölulega sæmilega á vegi staddir um undirbúning að sínum ræktunarstörfum.

Og ef úr greiðist um vélakost og bændur fá vélar þær, sem nú eru í pöntun, má heita, að málið horfi sæmilega við.

Allt öðru máli gegnir um þau störf, sem þurfa að vinnast á heimilunum. Að vísu hafa bændur ekki gleymt húsfreyjum sínum, því að ýmislegt hefur verið gert á því sviði að létta þeim störf. Má í því sambandi nefna bættan húsakost, vatnsleiðslur, skolpleiðslur, betri tæki til eldamennsku en þekktust áður o. fl., sem allt hefur mikil áhrif til að létta störf húsmæðranna. En þetta er alls ekki nóg. Því miður er því þannig háttað, þrátt fyrir auknar umbætur á heimilunum í þessum efnum, að vegna sívaxandi fólkseklu hafa húsfreyjurnar í sveitunum erfiðari störf en þær höfðu áður, meðan þær þó höfðu verri starfsskilyrði á heimilunum, því að nú verður húsfreyjan oft ein að vinna störfin, sem tvær eða þrjár manneskjur unnu á heimilinu áður. Þetta er vaxandi áhyggjuefni öllum, sem í sveitum búa. En að ekki hefur tekizt betur en enn er orðið að bæta úr þessu, stafar af því, að yfirleitt flest vinnusparandi tæki á heimilum eru knúin rafmagni. Og því miður eru fæst heimili í sveit, sem eiga kost á að hagnýta sér raforkuna, og geta þau hin sömu því ekki notað sér þessi vinnusparandi tæki, sem knúin eru raforku. Það eru að vísu allmörg heimili í sveit, sem hafa fallvötn, sem þau geta virkjað, og þau heimili eru líka langbezt sett. Eins og menn vita, er fram komið frv. um raforkumál, þar sem miðað er við háspennulínur og að rafmagn verði tekið frá þeim inn á sveitaheimilin. En það er öllum ljóst, að það er mál framtíðarinnar, en það er ekki hlutur, sem kemur allt í einu eða á fáum árum. Það mun verða um þau raforkumál eins og símalagningar og margar aðrar framkvæmdir, að það þarf mörg ár til þess að það raforkukerfi komist út um hinar dreifðu byggðir, og margir bændur verða því að bíða alllangan tíma, áður en þeir geta orðið þeirra fríðinda aðnjótandi að fá rafmagn frá háspennulínum. En afleiðing þess er sú, að ef eitthvað á fyrir heimilin að gera á þessu sviði, verður að leita annarra úrræða. Og mönnum hefur líka verið þetta ljóst. Það sýnir bezt hug manna og hvað menn vilja á sig leggja í þessum efnum, að nú á síðustu árum, eftir að innflutningur fór að rýmkast, þá hefur verið varið hundruðum þús. ef ekki millj. kr. í ýmsar tilraunir í þessa átt. Ég veit bara, að í Skagafjarðarsýslu einni saman er það engin smáupphæð, sem búið er að verja til kaupa á vindrafstöðvum. Og hér með þjóðveginum á leiðinni að norðan er fjöldi heimila, sem fengið hefur sér vindrafstöðvar. Aðrir hafa fengið sér benzínmótora til raforkuvinnslu. Allt er þetta fálm meira og minna. Vindrafstöðvarnar og annað slíkt er auglýst í blöðum og útvarpi daglega og menn mér liggur við að segja lokkaðir til að kaupa það. En menn hafa almennt enga þekkingu á því, hvað sé nothæft í þessum efnum, og enn síður nokkra reynslu. Það má þess vegna búast við, að fjöldi manna hafi keypt köttinn í sekknum. Og menn hafa orðið fyrir alls konar óhöppum af þessu. Og það, sem kannske er hörmulegast í þessum efnum, er það, að það eru fluttar inn mjög margar tegundir af þessum vélum, þannig að þegar svo þessi eða hin vélin bilar, hefur engin fyrirhyggja verið um það að afla varahluta til þessara véla. Afleiðingin af þessu hefur stundum orðið sú, að hlutaðeigendur hafa bókstaflega orðið að kasta vélunum. Þetta teljum við flm. þáltill., að ekki megi svo til ganga. Því er nú þannig háttað með okkur. bændur, að við höfum flestir eða allir mjög takmarkað fé til umráða, og á hinn bóginn eru verkefnin svo mörg framundan, sem við verðum að verja fé okkar til, að það er með öllu óforsvaranlegt að leggja stórfé í mjög vafasamar framkvæmdir. Þess vegna teljum við flm. till., að það sé sjálfsagður hlutur og að bændastétt landsins verði ekki annar meiri greiði gerður en sá, að fram fari ýtarleg rannsókn á því, á hvern hátt þörf bændastéttarinnar fyrir raforku verði bezt leyst á því millibilstímabili, sem líður þangað til raforka fæst inn á sveitaheimilin frá háspennuleiðslum, þ. e. hvernig bændur geti á þeim tíma fengið raforku. Og á ég við, að sú raforka verði með þeirri spennu, að allar leiðslur og allt, sem þar til heyrir, sé af þeirri gerð, að það komi að fullum notum, þegar háspennuleiðsla verður síðar lögð inn á sveitaheimilin. Af þessum ástæðum höfum við flutt þetta mál. Og þá töldum við jafnframt sjálfsagt að skora á ríkisstjórnina að tryggja með gjaldeyrisráðstöfunum, að bændur geti keypt þær vélar, er álitlegastar þættu til raforkuvinnslu fyrir sveitaheimilin, og enn fremur, þar sem þetta er mikils vert hagsmunamál fyrir heila stétt manna, að leitast við að tryggja, að bændastéttin geti fengið þessar vélar með sem hagfelldustum kjörum, og þá sérstaklega að gæta þess, að ekki verði greiddur hærri tollur af vélum þessum en öðrum vélum, sem landbúnaðurinn kaupir til sinna þarfa. — Þetta töldum við þó ekki nægilegt, heldur viljum við einnig leggja mikla áherzlu á, að jafnframt þessu verði gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að leiðbeina bændum um alla meðferð þessara hluta. Því að það er ekki nægilegt, að menn fái vélar, góðar og dýrar vélar, hitt er ekki síður nauðsynlegt, að menn kunni eitthvað með þær að fara og að þær séu þannig meðfarnar, að þær endist eðlilega og komi þannig bændum að fullum notum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en vonast eftir, að þessu máli verði vel tekið. Og að umr. lokinni óska ég eftir, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.