02.04.1946
Neðri deild: 100. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (3736)

63. mál, vegalagabreyting

Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. þeirri von, að ekki sé að búast við fleiri kveinstöfum eða kærum frá hv. flm. frv. og brtt. út af þeirri till., sem n. hefur gert, þá vildi ég taka nú til máls, til þess með örfáum orðum að víkja að því, sem komið hefur fram hjá hv. þm. Og þá er nú fyrst þess að geta út af aths. hv. þm. V.-Húnv., að það er ekki eins mikilfenglegt og hann kannske hefur viljað láta líta út, hversu n. hefur haft langan tíma til þess að hafa málið til meðferðar. Aðalatriðið ætti að vera það, hvort n. hefur komizt að niðurstöðu, sem þegar á allt er litið, er hugsanlegt, að væri affarasælust. Það er rétt, þetta er eitt þeirra mála, sem komu fram snemma á þessu þ., en fá ekki afgreiðslu, og er það í raun og veru skiljanlegt, því að sum málin eru þannig vaxin, að þeim hefur eftir samkomulagi verið ráðið þannig, að þeir, sem hafa völdin og ráðin í sínum höndum, hafa talað sig saman um það, að þau skyldu ekki ganga fram á þessu þ., heldur skyldu þau bíða og þá athuguð betur fyrir næsta þing. Og einmitt með það fyrir augum þá er það, eins og hv. þm. V.-Húnv. og allir, sem tekið hafa til máls, hljóta að skilja, í rauninni eðlilegt í þessu máli, þrátt fyrir það, þó að hv. þm. Borgf. teldi, að það væri óvenjulegt, að það er ekki lengur stætt á því að lögfesta út í hvippinn og hvappinn í stóru máli, þannig að það sé tilviljun ein, sem ræður, hvað sé samþ. og hvað ekki og hvaða vegir séu teknir inn í þjóðvegatölu eða ekki, því að slíkt fer oft og einatt eftir því, hversu þm. eru ötulir að fylgja till. sínum fram, en svo eru önnur héruð, sem ekki standa eins vel að vígi í þessum efnum. En þó að farið hafi verið inn á þessa braut að undanförnu, þá er ekki þar með sagt, að þetta sé bezta leiðin. Ég álít ekkert á móti því a. m. k., að öðru hverju sé valin önnur leið en þessi, og væri þá líka miklu eðlilegra, að l. væru endurskoðuð og það gert við og við, mætti t. d. segja á 10 ára fresti, en nú höfum við búið við þessa löggjöf í 12 ár, og mætti vel við hlíta, að hún væri endurskoðuð í heild. Og er þá því til að svara út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, að ekki hefðu komið fram kröfur frá héruðum um breytingar, að þær háfa komið, bæði frv. eða till. um það, og það er ekki gerlegt að gera þar upp á milli nema fara þá leið, að allt, sem till. eru gerðar, um, verði tekið í l. Það má kannske segja, að það sé réttlæti í því, að þeir verði útundan, sem ekki koma till. sínum á framfæri, hvort sem þær till. í raun og veru skipta meira eða minna máli, því að það er ekki hægt að segja, að það sé allt jafnaðkallandi með vegi þessa lands. Svo mega menn vita það, að það, sem ekki kemst í gegn þetta árið, það er tekið síðar. En svo er það, sem menn vara sig ekki á, að það er ekki sopið kálið, þó að í ausuna sé komið, og þó að vegir séu komnir í þjóðvegatölu, þá er ekki þar með sagt, að þeir vegir séu í raun og veru komnir. Nú eru nýbyggingar mjög erfiðar og varla hugsanlegar nema þar, sem aðalumferðin er, og þá síður þar, sem sýsluvegasjóðirnir eru. Það er sem sé ekki víst, eins og hv. þm. Borgf. virðist ætla, að öllu sé borgið á sama ári og samþ. er brtt. um einhverja vegi og að þá séu vegirnir, komnir og þess vegna sé mjög áríðandi fyrir héruðin að tryggja það að fá þær till. samþ. Það veit hv. þm. Borgf. manna bezt, að það er fjarri því, að málin gangi svo til, því miður, gæti maður sagt. En þó að ekki hafi komið kröfur, úr héruðum um endurskoðun, þá er það ekki vitað nema í einstaka tilfelli, en það er ekki síður ástæða til að ætla, að þörf sé á endurskoðun fyrir því. Það þarf án efa að endurskoða vegalöggjöfina og samræma hana við margvíslegar breyttar aðstæður. Hv. þm. vita, að frá héruðum eða fulltrúum þeirra koma alls engar brtt. nema um það að koma vegum í þjóðvegatölu.

Þá vil ég víkja aðeins að ræðu hv. þm. N.-Þ. Það er rétt skilið hjá honum, að það er meiningin, að það frv., sem hann talaði um, þó að það sé ekki til umr. núna, hljóti sömu afgreiðslu og sú dagskrá, sem hér er farið fram á að verði samþ., sem sé, að öll þessi mál komi til gagngerðrar endurskoðunar hjá vegamálastjórninni. Og vegamálastjóri býst við, að hægt verði að taka málið til athugunar það snemma, að það geti komið fyrir á næsta Alþ. sem hefst síðari hluta þessa árs, sem sé ekki miklu lengra fram á við en hv. þm. V.-Húnv. taldi, að n. hefði haft það aftur á við til meðferðar.

Hv. þm. geta séð, að vegamálastjóri skrifar ekki bréf sitt fyrr en 19. febr. 1946, og þegar þar á eftir afgr. n. málið, 28. febrúar s. l., og það hefur legið í salti hér á bak við og það er að vísu ekki n. að kenna, en ég veit að það var aðeins með tilliti til þess, að málið var komið í það horf, að mjög erfitt yrði að afgr. það og væri því rétt að láta önnur mál, sem meira eru aðkallandi, ganga fyrir. Og hygg ég þá, að sé ekkert um að sakast.

Ég vil taka það fram út af því, sem hv. þm. N.-Þ, sagði frekar um málið, að það er ekki leyft að taka sýsluvegasjóðsgjaldið og hreppavegagjaldið í áætlun þeirra stofnana, það er skylt. Það er að vísu rétt, að þetta gjald er til málamynda eins og það er, en þá vaknar upp spurningin um það, hvort ekki væri rétt að hækka gjaldið á þann veg, að það miðaðist við vísitölu eða þá kaupgreiðslu á hverjum stað í opinberri vinnu. Þá er að athuga, hvort svona gjöld eigi að eiga sér stað, eins og t. d. kirkjugjaldið. Prestsgjaldið er farið, nú er það aðeins kirkjugjaldið. Þar er einnig heimilað að nota heppilegri leið, sem sé niðurjöfnunaraðferðina. Og því þá að halda þessu tjaldi, þegar opin er réttlátari leið til þess að haga gjöldum á, landsmenn, þannig að þau séu tekin þar, sem eru beztar ástæðurnar til þess? En þetta er atriði, sem þarf að taka til gagngerðrar athugunar. Og þess vegna er ekki að ræða um hækkun, þó að það sé tekið hér með, enda var að heyra á ræðu hv. þm. N.-Þ., að hann sætti sig við þá afgreiðslu. En þessum gjöldum, sýsluvegasjóðsgjaldinu og hreppavegasjóðsgjaldinu, er að vísu í hreppum jafnað niður með útsvörum. Sýsluvegasjóðsgjaldið er miðað við kaupgreiðslu verkfærra karlmanna, en að öðru leyti er sýsluvegasjóðsgjaldinu jafnað niður ekki með útsvörum, heldur með aðferð, sem er jafngild. En sýslufélögin geta ekki lagt á útsvör.

Mér fyndist nú eðlilegt og mannlegt, að hv. þm., sem talað hafa, tækju fram, að þeir hefðu heldur kosið, að till. þeirra hefðu fengið framgang á þessu þingi. En eins og ég sagði áðan, vona ég, að fleiri tillögumenn standi ekki upp til þess að lýsa þessu yfir. Og ég býst við, að menn sjái, að tilgangurinn með till. n. er sá einn að koma þessu máli á hreinan, réttan og heilbrigðan grundvöll, en alls ekki að sporna við því, að réttlátar till, og kröfur úr héruðum nái framgangi.