18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

16. mál, fjárlög 1946

Eysteinn Jónsson:

Það hefði kannske verið ástæða til að minnast almennt á málið, en það ætlaði ég ekki að gera og vísa því til þess, sem ég hef áður sagt þar um. Ég hafði ekki ætlað mér að gera till. annarra þm. að umtalsefni, en vil þó segja nokkur orð út frá þeirri ræðu, sem hæstv. atvmrh. (ÁkJ) flutti hér áðan. Í þessu stórmáli, sem áður hefur verið hér til meðferðar, er ýmislegt, sem þyrfti frekari upplýsinga við, t. d. þetta, hve mikið af lánum hafi verið boðið út á Siglufirði, heima fyrir, til viðbótar þeirri ábyrgð, sem hér var veitt í fyrra, og vil ég skjóta því hér fram, að ég hefði talið skynsamlegra af hæstv. ráðh. að flytja varatill. við þetta mál. Gera má ráð fyrir, að þeim, sem vilja styðja að því, að afköst Rauðku væru aukin upp í 10 þús. mál, hafi ekki þótt þessi ábyrgð vera um of til að koma þessu í framkvæmd, og að síðar mætti athuga, hverjar bætur yrðu að því og hvort bærinn gæti haldið verksmiðjunni.

Við þm. S.-M. eigum hér till. saman, varðandi vegi og brýr. Það er fyrst og fremst til að brúa Geitdalsá og Múlaá í Skriðdal. Þessar ár skipta þessum sveitum í tvennt og eru örðugar viðfangs. Það hefur lengi verið sótt um að fá þær brúaðar, en ekki tekizt, og flytjum við nú einu sinni enn till. um, að það verði gert. — Hofsá í Álftafirði klýfur sveitina í sundur. Sjaldan er þar bílfært, en leiðin er afar fjölfarin frá Hornafirði og austur um land. Þeir eru margir, sem fella sig ekki við að koma til Hornafjarðar og geta ekki haldið ferðinni áfram á landi. En til þess að það sé mögulegt eru vegir og brýr stórt og veigamikið atriði, sem verður að bæta úr. Það telst svo til, að til þessarar brúar hafi verið farið fram á flestar fjárveitingar til þessa, en án árangurs.

Vegatill. eru þrjár. Fyrst er Skógavegur. Það er vegur, sem liggur af aðalveginum til Hallormsstaðar. Honum er ábótavant og er ekki eins góður og hann þyrfti að vera á jafnfjölfarinni leið. Fjvn. ætlar til hans 10 þús. kr. Það er lítið hægt að gera fyrir þær, og hefur verið farið fram á 30 þús. kr. — Annar vegurinn er Fagradalsbraut, þ. e. vegurinn til Reyðarfjarðar. Það er eins og allir vita gamall akvegur, sem hefur verið vel við haldið, en er mjög lágur og er því ófær mikinn hluta vetrarins oft og tíðum, en ef hann væri hækkaður, mundi verða að því veruleg bót og Héraðið verða í sambandi við aðalhöfnina. Það er farið fram á 100 þús. kr. í þessu skyni í samráði við vegamálastjóra. — Sá þriðji er Berufjarðarvegurinn. Lagt er til, að framlag til hans hækki úr 15 þús. kr. í 25 þús. kr.

Loks er það till., sem ég er fyrsti flm. að, en aðrir Austfjarðaþm. flytja með mér. Hún er um það að heimila ríkisstj. að verja allt að 500 þús. kr. til að byggja varðskip, er annist landhelgisgæzlu og björgunarstörf fyrir Austfjörðum. Keyptir hafa verið bátar fyrir landhelgisgæzlu og björgunarstörf. Ég er hræddur um, að þeir verði aldrei til björgunarstarfa, svo að ekki sé meira sagt. Við þessir flm. hefðum að sjálfsögðu getað fallizt á að láta þetta mál vera í höndum ríkisstj., en þegar við sáum, að hér er haldið fram við 3. umr. till. um smíði á bát fyrir Vestfirði, þá er ekki lengur hægt að krefjast þess af okkur, að við höfumst ekkert að, og því höfum við flutt þessa till. Við þykjumst geta fært glögg rök fyrir því, að það sé ekki síður brýn nauðsyn á því að hafa hentugan varðbát og björgunarbát á Austfjörðum en á Vestfjörðum. Þess vegna er till. komin fram. Það er tilraun af okkar hendi til að gæta þess, að okkar hlutur verði ekki eftir í sambandi við þetta mál.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um till., og get ég látið niður falla að ræða um önnur atriði í sambandi við þessi mál.