02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (3752)

167. mál, rafveitulán fyrir Akureyrarkaupstap

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Á þingi því, er nú situr, hefur allmörgum till. um ríkisábyrgð á lánum fyrir rafveitur verið vísað til fjvn. Ég vil taka það fram, að enda þótt samkomulag hafi orðið í fjvn. um að fresta afgreiðslu þessara till., þar til séð væri, hvaða afdrif frv. til raforkulaga fengi, hefur till. þessi hlotið samþykki fjvn. Þótt till. þessi hafi nú verið afgr. í fjvn., er það ekki af því, að n. hafi sett Akureyri skör hærra en aðra ábyrgðarbeiðendur, heldur af því, að hér er ekki um það að ræða að veita nýja ríkisábyrgð, því að hér er aðeins farið fram á endurnýjaða ríkisábyrgð. — Árið 1938 tók Akureyrarbær danskt lán að upphæð 1.7 millj. kr. gegn 1. veðrétti í Laxárvirkjuninni, og fyrir láninu var fengin ríkisábyrgð. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur nú orðið mikil breyting á, því að nú er þess kostur að fá innlend lán og auk þess með betri vaxtaskilmálum. Akureyrarkaupstaður hefur því ákveðið að greiða upp danska lánið, sem er með 5% vöxtum, en taka innlent lán í Landsbankanum með 4% vöxtum. Það, sem Akureyrarbær fer fram á, er, að ríkisábyrgðin verði endurnýjuð fyrir hinu innlenda láni. Ríkisábyrgðin er miðuð við 1.7 millj. danskar krónur eftir því gengi, sem þá var. Fjvn. hefur rætt málið við hæstv. fjmrh., og ég held mér sé óhætt að fullyrða, að hann hefur ekkert við það að athuga, þótt þessi endurnýjun ríkisábyrgðarinnar fari fram, enda stendur 1. veðréttur fyrir þessu innlenda láni. En er Laxárvirkjunin var stækkuð, var tekin 2½ millj. kr. að láni gegn 2. veðrétti, og hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir, að sú aðferð verði viðhöfð hér, að Landsbankinn kaupi danska skuldabréfið og fái því 1. veðrétt og geri svo sérstakan samning við Akureyrarbæ um greiðslu lánsins. Og þar sem telja má Laxárvirkjunina mjög öruggt fyrirtæki með 6000 hestöfl, en skuldir eru tæpar 5 millj. kr., er ekki hægt að telja þetta áhættusama ríkisábyrgð. Og enn fremur má fullyrða, að rekstrarafkoman sé mjög örugg, enda þótt rafmagn á Akureyri sé lágt, og má fullyrða, að fyrirtækið sé fjárhagslega öruggt, — og þar sem 1. veðréttur verður fyrir innlenda láninu, er áhættulítið fyrir ríkið að taka að sér ábyrgðina. Fjvn. er sammála og mælir með, að till. þessi verði samþ. og ábyrgðin leyfð, enda mun Landsbankinn kaupa danska skuldabréfið. Lýk ég þá máli mínu með ósk um, að hv. þm. sé ljós þörf þessa máls.