01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (3758)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt samkvæmt ósk hreppsnefndar Búðahrepps og eindregnum áskorunum hreppsbúa um, að lögreglustjóri verði settur þar. Eins og sjá má í grg., eru rökin fyrir þessu svipuð og yfirleitt, þegar þorp af þessari stærð vilja fá lögreglustjóra. En auk þess vildi ég benda á það, að hreppurinn er nú orðinn allfjölmennur og þangað leita oft allmörg erlend og innlend skip, og er þess vegna orðin þar talsverð tollafgreiðsla, og skiptir í því efni allmiklu, að ríkið hafi þarna fulltrúa sinn. Svo er sú almenna röksemd, að þegar þorp er orðið svona stórt, reynist erfitt að fá mann til þess að gegna oddvitastarfi í hjáverkum. Hreppsnefndin vildi einmitt, að maður sá, er fengi þetta, gæti einnig haft með höndum oddvitastörf.

Eins og segir í grg., fylgja með meðmæli sýslumannsins á Eskifirði. Hann hefur einmitt rekið sig á það í starfi sínu, að eins og samgöngum er háttað þarna, er erfitt fyrir hann að gegna þarna lögreglustjórastörfum. Lögreglumál verða oft að útkljást mjög fljótt, en þarna getur það hæglega tafizt allverulega.

Ég tel svo ekki fleiri orða þörf um þetta, en vitna til grg. og hinnar einróma skoðunar, sem ríkir um þetta í hreppnum. — Ég vænti þess svo, að málinu verði vísað til allshn. eða félmn., eftir því sem hæstv. forseti telur réttara.