14.03.1946
Neðri deild: 87. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (3765)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hv. allshn. hefur gert nokkrar brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir um lögreglustjóra í Búðahreppi í Fáskrúðsfirði, og eru brtt. þær, að mér skilst, þess efnis, að teknar verði upp í frv. sams konar heimildir, um skipun lögreglustjóra fyrir Dalvík og gert er ráð fyrir í frv. viðkomandi Búðahreppi í Fáskrúðsfirði. Ég fyrir mitt leyti hef ekkert við það að athuga. Ég álít, að það sé full þörf á því fyrir Dalvík að fá lögreglustjóra, eins og fram hefur reyndar komið í hv. Ed., þar sem flutt hefur verið frv. um það efni. Og ég sé því ekki, að neitt sé við það að athuga, þó að eitt frv. verði gert úr þessum tveimur, þannig að þessi tvö mál fái afgreiðslu sameiginlega.

En í tilefni af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér um málið, kvaddi ég mér hljóðs. Hæstv. dómsmrh. virðist vera andvígur því, að frv. þetta nái fram að ganga, a. m. k. í því formi, sem það er flutt. Og mér skilst á honum, að hann teldi aðalannmarkann við þetta frv. það, að ekki skuli vera jafnframt ákveðið, þegar, lögreglustjóri er skipaður á þessum stöðum, að hann skuli einnig gegna oddvitastörfum í hreppnum. En á þá lausn gæti ég engan veginn fallizt. Það finnst mér í mesta máta óeðlilegt að skylda nokkra hreppsnefnd í landinu, þar sem lögreglustjórastarf hefur verið ákveðið, til þess að hafa lögreglustjóra sem sinn oddvita, kannske þvert ofan í vilja meiri hluta viðkomandi hreppsnefndar. Hins vegar hefur þótt heppilegt að geta sameinað þessi störf, þegar viðkomandi hreppsnefnd hefur getað á það fallizt. — Hæstv. dómsmrh. minntist á það, að á tveimur stöðum, þar sem skipaður hafi verið lögreglustjóri, sem sé á Akranesi og í Ólafsfirði, þar hafi þetta farið á þann hátt, að lögreglustjóri gegni ekki jafnframt bæjarstjórastarfi, en við þessu álít ég ekkert vera að segja. Ég álít, að það sé tvímælalaust nauðsynlegt á jafnstórum stöðum og þessum tveimur, að í bæjarstjórastarfinu sé maður, sem getur gefið sig við því að öllu leyti og þurfi ekki að gegna jafnframt bæjarfógetastarfi á þeim stað. Ég álít, að á þessum stöðum hafi málin þróazt á þá lund, að það sé eðlilegt, að tveir menn annist þessi störf, en ekki sé eðlilegt að sameina störfin, og við því sé ekkert að segja, — alveg eins og ég álít hitt vera eðlilegt og fullkomlega ástæðu til þess í Fáskrúðsfirði, á Dalvík og í Bolungavík, að þar séu þessi störf sameinuð, ef viðkomandi hreppsnefndir geta fallizt á það. — Það er misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., sem mér fannst koma fram í ræðu hans, að halda því fram, að eina röksemdin fyrir því, að óskað er eftir að skipaður verði lögreglustjóri á þessum stað, í Búðahreppi í Fáskrúðsfirði, sé sú, að ætlazt sé til þess, að lögreglustjórinn þar eigi að gegna oddvitastarfi líka. Í Búðahreppi í Fáskrúðsfirði hefur það komið glögglega í ljós, að það er beinlínis þörf á því, að þar sé starfandi lögreglustjóri, því að það er auðvelt að sýna fram á, að það er þörf á því fyrir ríkið, beinlínis vegna hagsmuna ríkisins. Þarna er um að ræða, að innheimta þurfi talsverðar ríkissjóðstekjur, sem ekki er hægt að telja, að sé mögulegt fyrir sýslumann, sem býr á Eskifirði, að annast. Fáskrúðsfjörður liggur þannig, að skip, sem koma erlendis frá, fá þar fyrst afgreiðslu og þurfa þar tollafgreiðslu. Og sýslumaðurinn verður að skipa mann fyrir sig á þessum stað til þessa starfa, ef skipin eiga ekki að tefjast, því að hann á ekki gott með að fara til Fáskrúðsfjarðar til þess að vinna þessi verk nógu tímanlega þegar skip koma. Auk þess er það svo í 700–800 manna þorpi, að iðulega ber að höndum slík lögreglumál, að ekki er hægt að skjóta þeim á frest, nema illa fari, og því er einnig nauðsyn á, að ríkið hafi þarna lögreglustjóra. Og það er þetta, sem hreppsnefnd og hreppsbúar á þessum stað hafa fundið, og þess vegna óskað eftir að fá lögreglustjóra skipaðan þar. En hins vegar vill hreppsn. á þessum stað gjarnan hafa það með í ákvæðum 1. um þetta, að lögreglustjóri, sem þarna hefði kannske tæplega fullu starfi að gegna sem slíkur, hefði líka skyldu til þess að gegna oddvitastörfum fyrir hreppinn, ef hreppsnefndin óskaði þess, því að lögreglustjórastarf á svona stað getur á ýmsan hátt fallið vel saman við oddvitastarf. En þá kvöð fyrir hreppinn tel ég ekki, að hreppsbúar vildu ganga inn á, að vera skyldir til þess að láta þennan lögreglustjóra, sem skipaður mundi vera af ríkisstj., gegna oddvitastörfum í öllum tilfellum. Og ég er sannfærður um það, að hæstv. dómsmrh. kemst að raun um, að jafnvel þótt hann vilji setja almenna löggjöf til þess að leysa þessi mál fyrir kauptún landsins, þá verður aldrei hægt að setja það ákvæði inn í þá almennu löggjöf, að þar sem skipaður sé lögreglustjóri, skuli hann taka við og gegna oddvitastörfum fyrir viðkomandi hrepp og að þannig verði viðkomandi hreppsnefnd svipt rétti sínum til þess að velja oddvita í sveitarstjórnarmálefnum.

Það er ekki rétt með farið, að hv. Ed. hafi afgr. þetta Dalvíkurmál, um lögreglustjóra þar. Það hefur að vísu komið bar fram rökst. dagskrá í málinu, en það er síður en svo, að búið sé að samþ. þá rökst. dagskrártill. Og ég held, að það sé einmitt nokkur ástæða til að búast við, að hún muni ekki verða samþ. þar, enda sé ég ekkert athugavert við það, þó að farin verði svipuð leið í þessum málum nú fyrir þessa staði, sem rætt hefur verið um, eins og farin hefur verið fram til þessa, þannig að skipaðir verði lögreglustjórar á þessum tveimur stöðum, jafnvel þó að allsherjarlöggjöf verði sett um þessi málefni síðar, því að þá yrði hægt að láta l. um lögreglustjórastarfið í Búðahreppi í Fáskrúðsfirði og á Dalvík, alveg eins og fyrir Keflavík og Bolungavík, ganga inn í þá heildarlöggjöf, sem þá yrði sett. Og ef hæstv. dóms- og félmrh. telur, að hægt sé að setja almenna löggjöf um þessi mál á þeim grundvelli, sem hann hefur lýst, þá finnst mér, að hann geti unnið að því, að slík löggjöf kæmist á, þó að þetta frv., eins og það kemur frá allshn., sé samþ. hér á þessu þingi. — Ég vil því lýsa yfir því, að þó að allshn. hafi gert verulegar breyt. á frv. þessu frá því, sem það var flutt af hálfu okkar flm., þá getum við sætt okkur við, að það nái fram að ganga þannig. Hins vegar þætti okkur illt, ef þær breyt., sem hv. allshn. leggur til, að gerðar verði á frv., verða til þess að koma í veg fyrir, að frv. nái fram að ganga. En ég vil óska þess, að það komi greinilega fram frá hæstv. dóms- og félmrh., hvort hann getur betur sætt sig við samþykkt frv., ef það takmarkast við það, að aðeins verði skipaður lögreglustjóri í Búðahreppi í Fáskrúðsfirði, heldur en ef það er sett hér inn í, að einnig verði skipaður lögreglustjóri á Dalvík, því að þá er ekki ástæða til þess, ef hæstv. ráðh. finnst, að um annað kauptúnið eigi þetta fram að ganga, en ekki hitt, að samþ. breyt. á frv. En mér virðist réttmætt að verða við þeim óskum, að á Dalvík verði einnig skipaður lögreglustjóri.