14.03.1946
Neðri deild: 87. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (3767)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Gunnar Thoroddsen:

Eins og nál. ber með sér, voru aðeins þrír nm. allshn. staddir á fundi, þegar mál þetta var afgreitt. Annar þeirra, sem fjarstaddir voru, var ég, og verð ég að taka það fram, í sambandi við, að sagt er á þskj., sem till. þriggja nm. eru prentaðar á, að þær séu frá allshn., að ég stend ekki að þeim till. og mun ekki geta fylgt þeim né heldur frv. í heild.

Ég viðurkenni það fyllilega, eins og hér hefur líka komið fram, að það eru ákaflega miklir erfiðleikar hjá hinum mannfleiri hreppum hér á landi og þá alveg sérstaklega kauptúnum, vegna þess, hve oddvitastörf eru þar umfangsmikil. Þau eru hins vegar höfð sem aukastörf og geta ekki verið annað með þeim launakjörum, sem nú hafa verið ákveðin til embættismanna. Ég viðurkenni því fyllilega þörfina fyrir þessi kauptún og stærri hreppa til þess að fá fasta starfsmenn til þess að gegna þessum oddvitastörfum. Önnur röksemd, sem mælir með þessu frv. og öðrum slíkum, kann einnig að vera sú, að barna kunni kannske stundum að vera róstusamt í sambandi við samkomur og þess háttar og þá náttúrlega gott að hafa lögreglustjóra við höndina í stað þess að þurfa um lengri veg að sækja til sýslumanns. En til þess að bæta úr þessum erfiðleikum, er þessi hugsanlega leið að skipa lögreglustjóra á þessum stöðum. Og þessir lögreglustjórar eiga svo að fara með ýmis störf, sumpart lögreglustjórastörf og sumpart dómgæzlustörf, og þeim á að vera skylt að fara með oddvitastörf, ef viðkomandi hreppsnefnd óskar, þess. Þessi leið hefur verið farin á ýmsum stöðum og byrjað á henni á Akranesi, að ég ætla 1929. Síðan var það sama ákveðið fyrir Keflavík og Bolungavík og Ólafsfjörð. Nú hefur hins vegar verið breytt um á Akranesi og stofnað bæjarstjóra- og bæjarfógetaembætti þar, en lögreglustjóri er enn í Keflavík og Bolungavík.

Ég hygg, að því megi slá föstu, að ef gengið verður lengra á þessari braut, eins og farið er nú fram á fyrir Búðahrepp í Fáskrúðsfirði og Dalvík, þá mundi fjöldi kauptúna koma í kjölfarið. Frá tveimur kauptúnum í mínu kjördæmi hafa t. d. komið tilmæli um að fá lögreglustjóra. Ég hef hins vegar ekki talið mér fært að flytja frv. um það.

Hér er farið fram á að stofna alldýr embætti, og ég held, eins og málið liggur fyrir, að óhjákvæmilegt sé, að fram fari athugun á því, hvernig leysa eigi úr þessum erfiðleikum kauptúnanna, sem rætt hefur verið um hér, áður en samþ. er frv. eins og þetta. Og ég er sammála þeirri afgreiðslu á þessu máli eins og sams konar mál fyrir Dalvík fékk í hv. Ed. nýlega, með rökst. dagskrá, sem ég ætla, að hæstv. dómsmrh. flytji hér.

Ég vil nú með örfáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég get ekki fylgt því, að gengið verði lengra en orðið er á þeirri braut að hafa sérstaka lögreglustjóra í kauptúnum. Í fyrsta lagi er kostnaðarhlið málsins fyrir ríkissjóð. Það er ákaflega alvarlegt atriði, ef nú koma kröfur frá fjölda kauptúna á landinu, sem færa má jafnsanngjörn rök fyrir, að þurfi lögreglustjóra eins og færð eru fyrir þessu frv. um lögreglustjóra fyrir Búðahrepp í Fáskrúðsfirði og till. um lögreglustjóra á Dalvík. Og ég tel, að eftir að þessi tvö embætti kynnu að vera stofnuð, væri ekki stætt á því að mæla á móti því að hafa sérstakan lögreglustjóra í hinum kauptúnunum, sem fram kæmu þá frá kröfur um slíkt. Og í öðru lagi er bersýnilegt, að ef oddvitastarf fylgir ekki með starfi lögreglustjóra í þessum tilfellum, þá er þarna um of lítið starf að ræða fyrir einn mann. Þessir nýju embættismenn mundu því ekki fá nægilegt starf. Hins vegar er með frv. gert ráð fyrir, að hreppsnefndum sé í sjálfsvald sett, hvort þær vilji fela lögreglustjóra oddvitastörf eða ekki. Að því er snertir frv. sjálft, ef það á annað borð ætti að ganga fram, tel ég, að í þessu atriði þyrfti það verulegra umbóta við. Það er að vísu að þessu leyti alveg samhljóða þeim 1. tvennum, sem í gildi eru frá 1934, um lögreglustjóra í Keflavík og í Bolungavík. En mér virðist þeim l. vera ákaflega áfátt að því er snertir ákvörðun um verkefni lögreglustjóra. Í 1. gr. þeirra l. segir, að ríkisstj. skipi embættisgengan lögfræðing til þess að hafa á hendi þessi störf. Mér er spurn : Hvers vegna hafa hv. flm. þessa frv. þetta öðruvísi en er í 1. þessum, sem ég nefndi, frá 1934? Þar er það skilyrði, að þetta séu embættisgengir lögfræðingar, sem skipa eigi í þessi störf, og ég ætla, að með því sé átt við það, að þeir geti farið í dómaraembætti. Hér í þessu frv. virðast því vera gerðar vægari kröfur til þessara manna, sem ætlazt er til, að séu dómarar, heldur en í hinum l. frá 1934. Og mér er líka spurn, hvort þeir ætlist til, að þessir lögfræðingar falli undir ákvæði einkamálalaganna frá 1936, sem gera allstrangar kröfur til dómara, m. a. um aldur og vissa 3 ára reynslu o. fl. þess háttar. Eftir orðalagi frv. virðast gerðar vægar kröfur til þessara dómara miðað við vandasamt starf þeirra. — Hvað snertir verkefni þeirra, er þessi upptaling ákaflega handahófskennd. Þar segir, að þeir hafi m. a. fógetavald. Mér er spurn: Hvers vegna eiga þessir menn, sem framkvæma fjárnám, lögtök, útburð og innsetningargerðir, ekki að hafa á hendi uppboð líka, dómsvald í lögreglumálum, hvers vegna ekki rannsóknarvald, þegar þeir hafa það sem lögreglustjórar?

Nú hefur legið fyrir þinginu frv. áður fyrr — og trúlegt, að það verði lagt fyrir bráðlega — um meðferð opinberra mála, og þá er ætlazt til að afnema greinarmuninn á lögreglumálum og sakamálum. Þá er mér spurn, hvort þessir menn ættu að fara eingöngu með lögreglumál eða með öll opinber mál. Er það þá talsvert stór málaflokkur, sem þeir hafa dómsvald í. Samkvæmt einkamálalöggjöfinni er ætlazt til, að þeir hafi dómsvald í barnsfaðernismálum, hjúskaparmálum og öðrum slíkum. Ég skal ekki segja, hvort þetta frv. mundi verða túlkað með l. frá 1936, þannig að lögreglustjóri hefði líka þær heimildir, en það er trúlegt. En með tilliti til þess, að þessir lögreglustjórar mundu hafa talsvert með dómarastarf að gera, er fráleitt að gera minni kröfur til þeirra en annarra dómenda.

Loks vil ég taka fram, út af 3. gr., að þar er ætlazt til, að lögreglustjóri, sem fer með oddvitastörf, fái aukaþóknun úr sveitarsjóði fyrir utan sín embættislaun. Ég tel þetta fráleitt. Lögreglustjórar eru vel launaðir samkv. launalögum og ættu að geta gegnt oddvitastörfum einnig án sérstakrar aukaþóknunar.

Af því að ég var ekki staddur á fundi allshn. þegar mál þetta var afgr., vil ég láta þessar aths. koma fram. Undirstrika þó enn, að ég viðurkenni fyllilega þá miklu örðugleika þessara stóru hreppa og kauptúna í sambandi við oddvitastörfin og að brýn þörf er að athuga sem fyrst, hverjar, leiðir eru heppilegastar. Hins vegar tel ég ekki þessa leið, að stofna ný lögreglustjóraembætti, eðlilega né færa fyrir ríkissjóð.