14.03.1946
Neðri deild: 87. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (3769)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það er eins ástatt með mig og hv. þm. Snæf., að ég gat því miður ekki mætt á þeim fundi allshn., sem fjallaði um þetta mál og afgr. það. Mér þykir því rétt að skýra frá því á sama hátt og þessi hv. þm., að þær brtt., sem fyrir liggja í nál. um þetta mál, eru ekki frá mér frekar en honum.

Ég skal alveg sérstaklega taka fram frá minni hálfu, að ég álít mjög brýna nauðsyn orðna til þess að setja sérstaka löggjöf um stjórn og lögreglustjórn kauptúna, sem orðin eru allstór, en hafa þó ekki fengið kaupstaðarréttindi. En þau kauptún eru æði mörg orðin hér á landi. Eins og rakið hefur verið í umr. var farin sú leið á sínum tíma að setja löggjöf um sérstakan lögreglustjóra í nokkrum stórum kauptúnum landsins. Þróunin hefur haldið áfram í þessu efni, og þar sem upprunalega voru sett 1. um lögreglustjóra í Ólafsfirði og á Akranesi, þá þótti það skipulag ekki vel henta. Var því horfið að því ráði á báðum þessum stöðum með vaxandi fólksfjölda að gera þá að sérstökum kaupstöðum. Af því leiddi af sjálfu sér, að lögreglustjórarnir, sem áður voru, urðu bæjarfógetar og fengu það valdssvið og starfssvið, sem bæjarfógetum í kaupstöðum yfirleitt er ætlað eftir íslenzkum lögum. En þeir staðir, sem hafa sérstakan lögreglustjóra án þess að vera kaupstaðir, eru Keflavík og Bolungavík, eins og bent hefur verið á í umr. Ég veit ekki með vissu, hvort lögreglustjórinn í Keflavík er einnig oddviti (Rödd: Hann er það enn þá). Ég hygg, að í ráði sé, að í Keflavík verði valinn sérstakur oddviti. — Það er alveg réttilega fram tekið í grg. frv. um sérstakan lögreglustjóra í Búðahreppi og eins í grg. um sérstakan lögreglustjóra í Dalvík, sem flutt er í Ed., að það er orðið nokkrum vandkvæðum bundið að halda uppi heppilegri framkvæmdastjórn í þorpum, sem orðin eru 7–800 manns, og erfitt að hafa oddvitastörf sem hjáverk. En eins og tekið hefur verið fram af hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Snæf. og enda 6. landsk. líka, fellur það ekki alltaf saman, að hentugt þyki að hafa sama mann fyrir lögreglustjóra og hreppsnefndaroddvita á staðnum. Það mun hafa verið fyrst í 1. um sérstakan lögreglustjóra á Akranesi, að hann skyldi vera oddviti líka. Þetta reyndist í framkvæmdinni á þann veg, að hv. þm. Borgf. varð seinna til að bera fram brtt. á Alþ. um, að þetta starf þyrfti ekki að vera skylda, heldur frjálst val. Eru röksemdir hv. 6. landsk. alveg réttar, að óeðlilegt sé, að lögreglustjóri, sem kann að hafa sínar ákveðnu stjórnmálaskoðanir, eins og almennt er um menn í embættum, sé skyldaður til þess að vera samtímis oddviti á staðnum, bar sem meiri hluti manna kann að vera á móti honum í stjórnmálaskoðunum. Ég álít ekki fært að hníga að því ráði að binda þetta saman í þessum hreppum, lögreglustjórnina og oddvitastarfið, enda hefur þessi aðferð ekki reynzt of vel. En ég vil taka skýrt fram út af því, sem hv. 6. landsk. sagði, að ég tel, að búast mætti við, öfugt við það, sem hann sagði, að ef þetta yrði samþ. um Búðahrepp og Dalvík, kæmi full skriða á eftir. Ég nefni staði eins og Sauðárkrók, þar sem íbúarnir eru þúsund manns og hafa verið að íhuga, hvort þeir eigi að snúa sér til Alþ. um sérstakan lögreglustjóra eða óska eftir kaupstaðarréttindum. En það vantar mjög tilfinnanlega löggjöf um þau kauptún og sjávarþorp, sem orðin eru allstór upp undir þúsund manns, en telja sér þó ekki hentugt né löggjafinn viðeigandi, að þau séu gerð að sérstökum kaupstöðum. Þessi kauptún eru þar stödd á vegi, að þau eru ekki sambærileg við venjulegar reglur um lögreglustjórn og sveitarstjórn. Ég tel því nauðsynlegt að útbúa sérstaka löggjöf um þetta efni. En ég vil taka það fram út af því, sem hér liggur fyrir, að ef til þess kemur að greiða atkv. um brtt. meiri hl. allshn., mundi ég greiða þeim atkv. út af fyrir sig, því að mér finnst mjög líkt ástatt um Búðahrepp og Dalvík. Mannfjöldi er mjög svipaður, um 700–800 manns. Ég hygg Dalvík vera í enn þá örari vexti, þar er nú að koma fullkomin höfn. Og ef Búðahreppur fengi sérstakan lögreglustjóra, álít ég ekki hægt að standa á móti kröfu Dalvíkurbúa. Ef því brtt. koma til atkv., mun ég greiða atkv. með þeim, þó að ég síðan verði á móti frv. öllu saman, af því að ég teldi ekki heppilegt á þessu stigi málsins, að slíkt frv. næði fram að ganga. Mér er ekki ljúft að fella þetta frv., af því að sterk rök eru fyrir því, að eitthvað verði bætt úr vanda þeim, sem þessi kauptún eru stödd í um stjórn og lögreglustjórn. Höfum við hv. þm. Snæf. leyft okkur að bera fram rökst. dagskrá til afgreiðslu málsins. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp:

„Neðri deild Alþingis telur brýna nauðsyn á, að hið fyrsta verði sett nú löggjöf um stjórn kauptúna og um Lögreglustjórn í kauptúnum, og í trausti þess, að ríkisstjórnin láti undirbúa slíka löggjöf hið allra bráðasta, telur deildin ekki ástæðu til að afgreiða frv. til l. um lögreglustjóra í Búðahreppi og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta þessa rökst. dagskrá.