18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

16. mál, fjárlög 1946

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þegar ég lauk við að tala fyrir brtt. á þskj. 362, gat ég þess, að von væri á annarri brtt., sem nú er komin fram á þskj. 366, sem ég flyt ásamt fleiri þm. og er 20. liður við 22. gr., þess efnis að heimila ríkisstj. að verja 1.8 millj. kr. til háspennulínu og héraðsveitu frá Selfossi til Þykkvabæjar og Hellu á Rangárvöllum. Þetta mál hefur verið til athugunar hjá ríkisstj. undanfarið og hefur hún orðið sammála um það. Hæstv. samgmrh., sem einnig er verkfræðingur og hefur beitt sér fyrir því, að hið nýja raforkufrv. hefur verið lagt hér fram á Alþ. og hér er farið fram á heimild til að framkvæma einn þátt þessarar löggjafar, sem má víst kalla svo, — hæstv. samgmrh. bað hv. 4. þm. Reykv. að vera flm. þessarar till., og ráðh. sósíalista hafa einnig veitt aðstoð og einnig eru flm. þessa máls hv. 11. landsk. og hv. 6. landsk. Hv. þm. Vestm. er 2. flm. þessarar till., en hann er einnig, eins og kunnugt er, formaður nýbyggingarráðs, en það hefur í hyggju ýmsar áætlanir'á Suðurlandsundirlendinu í næstu framtíð, og er því ekki undarlegt, þótt hv. þm. Vestm. sé flm. þessarar till. En nú er vitað mál, að ef einhverjar verklegar framkvæmdir eiga að vera framkvæmanlegar á Suðurlandsundirlendinu, þá verður fyrst að leggja þangað rafmagn. Og ég hef orð hæstv. samgmrh. fyrir því, að hann telur nauðsynlegt að hefjast handa sem allra fyrst, því að ótalin eru þau verkefni, sem bíða, og sé rafmagni veitt þangað, skapar það ótal möguleika. — Ég tel óþarfa að fara mörgum orðum um þetta frv., því að þær stoðir, sem að því standa, eru sérstaklega traustar, og veit ég, að meiri hl. þm. er máli þessu fylgjandi. Læt ég svo útrætt um það.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að svara því, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan í sambandi við gistihússbyggingu í Múlakoti. En ég vil þó alltaf pakka hv. þm. fyrir góða ábendingu, en raunar þurfti ég þess ekki með, því að ég vissi vel um sjóð þennan. En hér sem oftar vill það bera við, að sjóður þessi er lítill og margar umsóknir berast, og ekki er hægt að veita nema fáum, og oftast er það einnig lítið: Ég held, að sjóðurinn hafi nóg á sinni könnu, þó að hann yrði losaður við að veita örfá þúsund til Múlakots.

Hv. þm. Barð. vildi einnig neita því, að það væri rétt, sem ég sagði hér í dag, að hann hefði neitað að bera upp till. frá mér í fjvn., og munu fleiri hv. þm. einnig hafa sömu sögu að segja. Held ég fast við það, sem ég sagði í dag, að þessi hv. þm. neitaði að bera upp þessa umræddu till., og verð ég að segja það, að þetta eru störf, sem ég þekki ekki — a. m. k. var þetta ekki viðhaft, þegar ég starfaði í fjvn. Finnst mér algerlega ástæðulaust af hv. þm. að vera að neita þessu, þar sem hann hefur viðurkennt það fyrir utan umræðurnar.

Þá sagði hv. þm. Barð., að það ætti að lækka fjárframlagið til Krýsuvíkurvegar og færa það annað, en hann gleymdi að segja hvert. Hann gleymdi að segja, hvert það fé hefði verið flutt, sem vegamálastjóri sagði, að ætti að fara í Suðurlandsbrautina. Ég skal ekki halda uppi málþófi. En á þskj. 372 er till., þar sem lagt er til, að ríkisstj. sé gefin heimild til að draga úr framlögum til verklegra framkvæmda, sem ekki eru bundnar í öðrum lögum en fjárl , um allt að 30%, svo framarlega sem ríkisstj. telur, að vinnuafl dragist um of frá framleiðslustörfum. Það er vitanlegt, að það er háskalegt að ráðast í framkvæmdir sem þessar, á meðan ekki er hægt að fá nægilegt vinnuafl til að reka framleiðslu landsmanna.

Þá er einnig í þessari till. lagt til, að ef tekjur ríkissjóðs hrökkva ekki fyrir gjöldum, skuli ríkisstj. heimilt að taka innanlandslán, allt að 15 millj. kr., ef hún telur, að ekki sé ástæða til að draga úr framkvæmdum. Það er neyðarbrauð að taka lán til að standast lögboðin útgjöld, en hér virðist ekki um annað að ræða. Ég býst við, að ýmsum finnist afgreiðsla fjárl. ógætileg, þar sem rekstrarhalli er 15 millj. kr. En eini ljósi punkturinn í þessu er því sá, að greiðsluafgangur verði ríflegur og nægi fyrir tekjuhallanum, Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frekar, allar mínar till. eru lágar nema þessi síðasta.