20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (3774)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er nú orðið langt síðan ég flutti frv. um lögreglustjóra á Dalvík hér í deildinni. Það mál fór til allshn. á sínum tíma, og var gefið út um það nál., sem ég skrifaði undir. Þetta nál. byggðist á umsögn dómsmrh., sem lýsti yfir því, að nauðsyn væri að endurskoða lagaákvæði, er snertu stjórn þorpa og kauptúna, og lét líklega um það, að niðurstaða þeirrar endurskoðunar yrði lögð fyrir næsta þing. Út frá þessum ummælum hæstv. ráðh. gekk ég inn á það í allshn., að málið væri afgreitt með rökst. dagskrá, sem byggðist á, að endurskoðun á þessum málum stæði fyrir dyrum. En nú sýnist mér, að hv. Nd. hafi litið öðrum augum á þetta mál en allshn. þessarar hv. d., þar sem þetta frv. er hingað komið frá Nd.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka hér það, sem ég hef áður sagt um nauðsyn lögreglustjóra á Dalvík, en ég vil aðeins láta það koma fram, að það, sem ég samþykkti eða sætti mig við í sambandi við hina rökst. dagskrá, getur ekki lengur staðizt, vegna þess að fjölmennari deild þingsins samþ. stofnun þessara tveggja embætta með 2/3 viðstaddra þm.

Það þýðir ekki lengur að fara í kringum þetta mál með yfirborðshætti, heldur verður nú að gera sér grein fyrir því, hvernig á að fara með stjórn þeirra kauptúna og þorpa, sem eru orðin það stór, að það er ofvaxið að hafa slík störf í hjáverkum. Ég sæki þetta mál ekki með neinu ofurkappi, en gjarnan vildi ég heyra um það, úr því að við erum svo heppnir að hafa hæstv. dóms- og félmrh. hér í d., hvað hann hugsar sér að gera í þessum málum.

Ég býst svo við, að þetta mál fari til n., sem ég á sæti í, og skal ég því ekki fjölyrða um það frekar að þessu sinni.